22.05.1942
Efri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég er nú víst búinn að gleyma miklu af því, sem fram hefur farið í þessum umræðum.

Hv. 2. þm. S.-M. var í ræðu sinni mikið að tala um það, hvort þetta mál væri réttlætanlegt eða ekki, og bar þetta saman við húsaleigul. og löggjöf um verðlagseftirlit, sem hann taldi alveg sambærílega við þær takmarkanir, sem í þessu felast á rétti verkalýðsins til þess að ákveða kaup sitt. Um rétt verkalýðsins til þess að ákveða verð fyrir vinnuafl verkamannsins þarf vitanlega ekki að fjölyrða. Vinnuaflið er eina eignin, sem verkamaðurinn á, og hann þolir það ekki bótalaust, að þessi eign sé af honum tekin og held ákveðin verði, án þess að hann sé spurður ráða. Hann þolir það ekki án þess að reísa rönd við því með öllu því afli, sem hann á. Það má líkja þessari aðferð, að selja vinnuafl hans án þess að ráðgast um það við hann sjálfan, við það, ef bóndi heyrði það tilkynnt í útvarpinu, að búið væri með ákvörðun frá ríkisstj. að selja jörðina hans, kannske helmingi lægra verði en bóndinn sjálfur vildi selja hana á. Þó að maður geri þennan samanburð, er raunverulega ólíku saman að jafna, því að þótt bújörðin sé tekin frá bóndanum, þá heldur hann þó eigin starfsorku sinni eftir, og það er ekki enn þá búið að taka frá honum rétt á að selja hana. Að bera svona lagaðar ráðstafanir saman við það, ef sett er hámarksverð á húsaleigu og vörur, er ekkert annað en fjarstæða, sem ekki nær nokkurri átt. Í öðru tilfellinu er að ræða um takmörkun á gróða, — takmörkun á gróða á verzlun og húseignum. Í hinu tilfellinu er starfsorka verkamannsins tekin eignarnámi, og verkamaðurinn er ekki lengur frjáls maður, eftir að búið er að gera það. Þetta hlýtur hverjum manni að vera fullljóst, og það sýnir, hve veikur málstaðurinn er, þegar þarf að grípa til svona röksemda. Í hans hugsun felst sú röksemdafærsla, að litið er á. verkamanninn eins og skepnu, eins og fisk eða eins og dauðan hlut, — eins og t.d. húseign, svo að maður haldi sér við samanburð þessa hv. þm. Svo nóg um það.

Um réttinn til þess að fremja aðra eins rangleitni eins og gerðardómsl. eru þýðir ekki að ræða við verkamenn eða fulltrúa þeirra á þennan hátt. Hv. þm. var að fjölyrða um það, sem röksemd fyrir því að þetta frv. ætti rétt á sér, að þessi hefðu komið að tilætluðum notum, að vísitalan hefði ekki hækkað síðan þau gengu í gildi: Ég verð nú að segja, að mér finnst, að þessi staðhæfing, að vísitalan hafi ekki hækkað síðan l. gengu í gildi, sýna einmitt það mótsetta, beinlínis það gagnstæða. Þessi staðhæfing, að vísitalan hefur ekki hækkað síðan l. gengu í gildi, er einmitt sönnun þess, hve lítil áhrif kaupgjaldið hefur á vísitöluna, vegna þess að það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að aldrei síðan í stríðsbyrjun hefur orðið eins mikil kauphækkun eins og á þessu tímabili, síðan l. gengu í gildi. Þetta er hægt að sanna, og enn fremur er mikið, sem ekki er hægt að sanna og ekki er hægt að skýra frá af ástæðum, sem kunnar eru. En á því tímabili, sem kaupið lækkaði sem mest samkvæmt kaupþvingunarl. 1939, hækkaði vísitalan meira en nokkru sinni, svo að þessi staðhæfing sýnir, hve mikil fjarstæða það er, að kaupið hafi áhrif á hinn öra vöxt dýrtíðarinnar.

Ég held nú annars, að við ættum ekki að vera að eyða þingtímanum í að ræða þessi I. eða afgreiða þau, þau eru hvort sem er ekki orðin annað en humbug. Það vita allir, að þau hafa beðið fullkomið gjaldþrot í framkvæmd. Við erum allir sammála um það. Það er staðreynd, sem okkur er ákaflega vel kunn, enda hefur því ekki verið mótmælt. Það eina, sem Alþingi getur gert til þess að bjarga sóma sínum, er að fella þetta frv. Enda er það svo, að framsóknarmenn eru að yfirgefa hið sökkvandi skip. Þeir eru að draga fulltrúa sína úr gerðardómnum, og væri þá ekki hreinlegast og sómasamlegast fyrir þá að ganga hreint til verks og fella þessi lög?

Í raun og veru er það aðeins eitt atriði í þessum l., sem þörf er að ræða, en það er ákvæðið um bann gegn kauphækkunum og verkföllum, bann gegn frjálsum samningum um kaup og kjör. Til þess voru I. sett að koma þessu ákvæði inn í þau, gera það að I. Um vöruverð og verðlag voru nógar heimildir í l. áður. Það er enn í gildi stór lagabálkur frá síðasta ári um þetta efni. Og ef það vantaði frekari heimildir til þess að hafa hemil á vöruverði, þá var hægt að fá þær fyrir löngu síðan, og það með fullu samþykki Alþingis og allra flokka. L. voru sett vegna launadeilna um nýárið og vegna einskis annars. Þau voru sett til þess að hlaupa undir bagga með atvinnurekendum í þeirri baráttu, sem þá fór fram milli stétta. Ríkisvaldið ætlaði þarna að koma til hjálpar, en sú aðferð mistókst nú alveg, því að hver hefur reynslan verið af þessum lögum ? Hún er svo ótvíræð, eins og ég tók fram áðan, að hún getur ekki verið neitt deiluatriði. L. hafa ekki náð tilgangi sínum. Og með þeim er stefnt í svo fullkomið öngþveiti, að það er ekki nema um 3 leiðir að velja út úr því. Í fyrsta lagi að koma upp vinnuskyldu. Það væri hugsanlegur möguleiki að afnema með öllu frjálsræði verkamanna. Í öðru lagi að láta eins og l. séu ekki til og halda áfram að brjóta þau. Og í þriðja lagi það, sem vitanlega er hið eina rétta, að afnema þau með öllu, fella þau. Og ef hv. þm. vilja ekki fara fyrstu og aðra leiðina, þá er að fara þriðju leiðina, um annað er ekki að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. séu svo skyni skroppnir, að þeir sjái ekki, að þetta er hið eina rétta. En ég er samt hræddur um, að þeir muni rétta upp höndina með l. af hollustu við stjórnina, þ.e.a.s. fráfarandi stj., þó að hún gangi , nú nokkuð langt hollustan, þegar hún nær þannig út yfir gröf og dauða, og alveg sérstaklega, þegar að því er gætt, að svona hollusta er vissulega engin dyggð, heldur þvert á móti ódyggð. Þó að hv. þm. rétti nú upp höndina til samþykkis þessum lögum, þá kemur það ríkisstj., hvorki þeirri fráfarandi né þessari, að neinu haldi.

Við þurfum ekki að fjölyrða um það, hver var hinn raunverulegi tilgangur I. Það vitum við allir. Það var sami tilgangurinn og með kaupþvingunarlögunum 1939, að lækka kaup verkamanna til hagsmuna fyrir atvinnurekendur. L. eru áhlaup í stéttabaráttunni af hálfu atvinnurekendanna, sem fá ríkisvaldið í lið með sér gegn verkamönnum. Það er náttúrlega ólíku saman að jafna 1939 og nú. Þá voru kaupþvingunarl. rökstudd með því, hve atvinnufyrirtækin bæru sig illa. Nú aftur á móti eru. hin nýju þvingunarl. rökstudd með því, hve mikið peningaflóðið sé í Iandinu. M.ö.o., rökstuðningurinn er alveg öfugur við það, sem hann var 1939. Við sjáum því, að það er til aðeins eitt ráð (frá sjónarmiði þeirra herra, sem að slíkri lagasetningu standa), sem er allra meina bót, hvernig sem ástandið er, og það er að lækka kaupið.

Hvaða áhrif hefur svo þetta til þess að stöðva dýrtíðina? Verkföllin í janúar voru eingöngu gerðardómsl. að kenna. Hefðu þau ekki komið. þá hefðu engin verkföll orðið, nema lítilsháttar stöðvun, sem hefði ekki getað talizt verkfall. Tapið af þessum verkföllum, sem er sök þessara l. og ríkisstj., sem setti þau, nemur hundruðum þúsunda króna og jafnvel meiru. Það má vel vera, þegar öll kurl koma til grafar, að það skipti mörgum milljónum á framleiðslukostnaði þeirra, sem hlut áttu að máli. Samkvæmt kenningu ríkisstj. hefur þetta orðið til þess að auka dýrtíðina að sama skapi, þar sem hún heldur því fram, að hún aukist í hlutfalli við framleiðslukostnað fyrirtækjanna eða jafnvel meira, eins og fram kom í ræðu hæstv. atvmrh., sem þá var, þegar hann var að bera í bætifláka fyrir þessa lagasetningu. Tapið af verkfallinu varð þannig miklu meira en kauphækkanir hefðu orðið, þótt gengið hefði verið að ýtrustu kröfum verkalýðssamtakanna. Og auk þess tókst ekki að koma í veg fyrir grunnkaupshækkanir. Þegar allt kemur til alls, þá mun grunnkaup hafa hækkað upp úr þessum verkföllum nokkurn veginn jafnmikið og orðið hefði, ef l. hefðu ekki verið sett og þar með engin verkföll orðið.

Þegar hv. 1. þm. S.-M., sem þá var viðskmrh:, hélt frumræðu sína hér í d. fyrir þessum l., þá sagði hann, að allir hv. þm. hefðu keppzt við að lýsa því yfir, að grunnkaup þyrfti að breytast sem minnst. Það eru skrýtnar fullyrðingar, sem menn geta borið fram. Ég a.m.k. verð að biðja þennan hv. þm. að hafa mig og minn flokk undanskilinn. Aldrei nokkurn tíma hefur þm. úr mínum flokki látið orð falla í þá átt, að hann teldi æskilegast, að grunnkaupsbreytingar væru sem minnstar. Við höfum þvert á móti lýst yfir því, að það væri óhjákvæmilegt, að grunnkaup hækkaði verulega hjá ýmsum atvinnustéttum um nýárið, til þess að bæta mönnum upp það tjón, sem þeir urðu fyrir vegna kaupþvingunarl. 1939.

Ég vil fullyrða, að engin l., sem sett hafa verið á Íslandi fyrr eða síðar, hafi verið brotin Eins og þessi. Hv. 1. þm. S.-M., sem þá var viðskmrh:, sagði í fyrrnefndri frumræðu sinni, að sér væri ekki kunnugt um, að l. væru brotin. Ja, sá þykir mér vita heldur lítið af því, sem er að gerast í kringum hann. Hvernig er það, vissi hann um úrskurð gerðardóms, þegar hann ákvað kaup járnsmiðanna? Var honum kunnugt um það, sem var eitt af fyrstu verkum gerðardómsins og eins augljóst lagabrot og nokkurt lagabrot getur verið? Er honum kunnugt um það, að kaup starfsmanna bæjarins hefur verið hækkað, og veit hann, að grunnkaup starfsfólks við ríkísspítalana hefur hækkað o.s.frv.? Er honum kunnugt um það, að nýlega hefur iðnfélag hér í bænum, félag bifvélavirkja, samið um 20% hækkun á grunnkaupi? Og gerðardómurinn hafði ekkert við það að athuga. Er þetta lagabrot? Það er fásinna að tala um, að hér sé um samræmingu að ræða. Heldur þvert á móti. Þessi úrskurður verður til þess, að misræmið milli kaupgjalds stéttanna verður enn þá meira en áður, ef við t.d. berum kjör bifvélavirkja saman við það, sem bókbindarar og rafvirkjar hafa. Fyrr má nú vera blindnin, ef hv. 1. þm. S.-M., sem þá var viðskmrh., hefur ekki vitað það, þegar þær stofnanir, sem heyra undir ráðuneyti hans, eru að brjóta l. svo að segja daglega. Við þetta bætust svo grunnkaupshækkanir, sem þessi hv. þm. veit ekki um af ákaflega skiljanlegum ástæðum. Ég t.d. gæti skýrt þessum hv. þm., og hefði getað það á meðan hann var ráðh., frá stórkostlegum grunnkaupshækkunum verkamanna hér í Reykjavík, jafnvel upp í 54%, sem hefur verið samið um og samningar gilda um. En mér dettur bara ekki í hug að segja honum frá því, af því að þá verða þessir samningar ógiltir. L. eru brotin af þeirri einföldu ástæðu, að framleiðslutækin mundu stöðvast, ef þau væru ekki brotin. Það er ekki hægt að halda framleiðslunni gangandi nema með því að brjóta þau. Það vita þessir hv. þm., sem rembast eins og rjúpa við staur að mæla þessu bót. Verst hafa ríkisfyrirtækin orðið úti, af því að þau hafa verið að streitast við að halda þessi l. En þau hafa gefizt upp og eru nú byrjuð að brjóta þau eins og hinir. Af þessu má marka, hvílík hringavitleysa þessi löggjöf er. Þeir hv. þm., sem voru að rembast við að verja þetta afkvæmi sitt, sögðu, að það væru fleiri l. brotin en þessi. Og eiginlega gerði það ekkert til, skildist mér, það væri ekkert um það að fást. Svona væri það með áfengislöggjöfina og fleiri l. En má ég nú spyrja: Eru lög yfirleitt ekki sett til þess að þau séu haldin? Og er ekki ætlazt til þess, þegar l. eru sett, að einhver ráð séu til þess, að svo sé? Ég hélt, að framkvæmdarvaldið hefði ráð til þess að sjá um, að þau væru almennt haldin og að hægt væri að koma fram refsingum á hendur þeim, sem brjóta þau. Standast þessi l. í framkvæmd? Nei. Við vitum, að þau eru almennt brotin. Og meira að segja framkvæmdarvaldið gengur fram fyrir skjöldu að brjóta þau. Er hægt að hugsa sér óframkvæmanlegri l. en þessi? Ef slík l. eru framkvæmanleg, þá eru öll l. það. Þá má setja I. um hvaða vitleysu sem er: Það má setja I., sem banna mönnum að drekka vatn. En þá bara kæmu formælendur þessara l. og segðu: Það eru ýmis l. brotin. Hvað gerir það til, þó að þessi l. séu brotin svolítið líka? Til þess að koma í veg fyrir, að l. séu brotin, til þess að reyna að láta þau ná tilgangi sínum, að lækka kaupið, þá hefur verið reynt að fækka í setuliðsvinnunni. En það er gert til þess, eins og það er orðað, að breyta hlutfallinu milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaðinum. Þ.e.a.s., þegar maður orðar það svolítið öðruvísi, til þess að skapa eins mikið atvinnuleysi og kostur er. Framboð á vinnukrafti þýðir auðvitað atvinnuleysi. Það þýðir, að einhvern vantar atvinnu. Og því meira sem framboðið er, þeim mun fleiri vantar atvinnu, þeim mun meira atvinnuleysi. Jafnframt á að koma á þegnskylduvinnu, með því að setja upp opinbera skrifstofu, sem neitar að taka menn nema til ákveðinna starfa. Það er óhætt að fullyrða það, að þetta mun ekki takast, sem betur fer. Bandaríska setuliðið mun ekki vilja ganga inn á að fækka svo mjög í setuliðsvinnunni, að það dugi til að koma þessu í framkvæmd. Þetta hefur ríkisstj. raunar sjálf viðurkennt og er ákaflega hrygg yfir. Ríkisstj. virðist alveg sama um landvarnirnar. Henni virðist sama, þó að engar varnir séu fyrir, ef landið verður fyrir árás, ef marka má yfirlýsingar hennar og málgagna hennar. Eina hugsunin, sem kemst að, eru hagsmunir húsbænda hennar. Thorsaranna, stríðsgróðamannanna. Þetta á jafnt við fráfarandi stjórn og þá, sem nú situr.

Þó að nú yrði fækkað t.d. um þúsund manns í setuliðsvinnunni, er engin sönnun fyrir því. að þessir menn færu í sveitavinnu, vegavinnu eða til ríkisfyrirtækja fyrir það kaup, sem ríkisstj. ákveður að skammta. Margir verkamenn mundu heldur taka sumarfrí en að láta nota sig í slíka þvingunarvinnu fyrir kaup, sem þeim yrði skammtað. Þetta gæti beinlínis orðið til þess að spilla fyrir því, að nauðsynleg framleiðsla fengi vinnukraft. Eina ráðið, sem til er til þess að bæta úr atvinnuþörfinni, er að semja við verkalýðssamtökin og greiða samkeppnisfært kaup við þau verk, sem nauðsynlegt er, að verði unnin. Og þess vegna á að afnema gerðardóminn. Og það mundi verða gert, ef nokkur snefill af ályrgðartilfinningu væri hjá þeim hv. þm., sem greiða atkv. um þetta mál. Verði það ekki gert. þá stefnir til fullkominna vandræða. Það mun draga úr íslenzkri framleiðslu, og það má búast við, að einmitt vegna þessara I. verði að loka þjóðnauðsynlegum fyrirtækjum, a.m.k. ef nokkur tilraun verður gerð til að framkvæma þau. Og þegar framleiðslan dregst saman, hlýtur það óhjákvæmileg, að hafa í för með sér verðhækkun. Það ættum við þó allir að vita. Á þennan hátt hljóta gerðardómsl., ef þau verða framkvæmd, að verða til þess að hækka vöruverð og auka dýrtíðina.

Eins og kunnugt er, þá er mikill hluti íslenzkra verkamanna í vinnu hjá setuliðinu, og vinna þeir fyrir erlendum gjaldeyri. Mikill hluti af greiddum vinnulaunum á Íslandi er nú í dollurum. Vinnuaflið er þannig útflutningsvara á sama hátt og fiskur og kjöt. Gerðardómurinn hefur mest áhrif á laun í þessari vinnu, vegna þess að setuliðin eru meðal þeirra fáu, sem reyna nokkurn veginn að halda þessi l. Hér er því með löggjöf verið að lækka verð á íslenzkri útflutningsvöru, vöru, sem við fáum erlendan gjaldeyri fyrir. Það er alveg nákvæmlega sama eins og sett væru l. um að lækka verð á fiski og kjöti, sem við seljum erlendis.

Hv. 1. þm. S:M., sem var viðskmrh., þegar hann hélt sína frumræðu í þessu máli, hélt því fram, að kaup, sem verkamenn fá í setuliðsvinaunni, yrði til þess að auka verðbólguna, og hann lagði á þetta mikla áherzlu. En má ég spyrja: Hvað þá um verðið fyrir fiskinn, sem við seljum til Bretlands? Skyldi gróðinn, sem nemur hundruðum þúsunda í hverjum túr, eins og hjá togurum, ekki orka meira á peningaflóðið í landinu og verðbólguna en kaup nokkurra daglaunamanna? En það er eitthvað annað en reynt sé að draga úr þessum gróða eða lækka verðið á fiskinum. Ónei. Þar eru nú gerðar einhverjar aðrar ráðstafanir. Í stað þess að draga úr þessum gróða eða gera ráðstafanir til þess að lækka verðið á þessari vöru, þá leggur ríkisstj. í ærinn kostnað til þess að útvega sem bezt verð fyrir fisk, kjöt, gærur o.s.frv. á erlendum markaði. Samkvæmt kenningu þessara herra, þá miðar þetta allt að aukinni verðbólgu í landinu, og er þess vegna þjóðskemmdastarf að vera að leita að þessum mörkuðum og reyna að fá sem hæst verð fyrir þessar vörur. Ef hugsanaferli ríkisstj., núv. og fyrrv., er fylgt, þá er um að gera, að sem minnst sé flutt út úr landinu og að verð útflutningsafurðanna sé sem allra lægst. Þó tekur alveg í hnúkana, þegar ríkisstj. er að fárast yfir því, að ekki fáist fólk á fiskiskipin, sem fiska til útflutnings, vegna setuliðsvinnu. Smábátaútvegurinn hefur ekki gengið betur á þessari vertíð en svo, að hlutur manna á sumum bátum í verstöðvunum hefur ekki verið nema nokkur hundruð krónur yfir alla vertíðina. En bátar, sem ekki hafa verið á veiðum, hafa verið í flutningum fyrir setuliðin og haft gott upp úr sér. Það er verið að afla erlends gjaldeyris. En ríkisstj. vill, að menn verði þvingaðir til að framleiða fisk handa Bretum fyrir kaup, sem ekki er hægt að lifa af. Það er ekki verið að horfa í, þó að þjóðarheildinni sé bakað stórtjón og gjaldeyri landsmanna kastað á glæ. Það eina, sem sú ríkisstj., sem fyrir þessu hefur staðið, hefur haft áhuga á, er, að kaupið sé nógu lágt.

Þessi rök eru nógu skýr til þess, að hver maður hlýtur að sjá, að með þjónustu sinni við stríðsgróðamennina er ríkisstj. að stofna þjóðarhagsmunum í voða. Það er ekki hægt að reka nauðsynlegustu framleiðslu landsmanna; ef þessu heldur áfram. Það er til aðeins ein lausn, sem þjóðin getur sætt sig við, og hún felst í þáltill., sem Sósíalistaflokkurinn hefur lagt fram þess efnis, að taka beri upp samninga við verkalýðssamtökin um hagnýtingu vinnuaflsins, en það er ekki hægt nema fella gerðardómsl.