22.05.1942
Efri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Það, sem mér virðist einna mest einkennandi fyrir umr. um þetta mál, er það, hversu forsvarsmenn málsins og upphafsmemn þess forðast mjög allar umnæður og rökræður um það. Hefur svo verið frá því fyrsta, er það var lagt fyrir hæstv. Alþ. Vegna óska Alþýðuflokksins um útvarpsumr., voru þeir að vísu neyddir til þess að svara til saka, en annars forðast , þeir sem mest að láta sjá sig, að ég nú ekki tali um að taka þátt í umr. Í háttv. Nd. var það svo, að varla kom fyrir, að nokkur hæstv. ráðh. léti sjá sig í deildinni, er umr. fóru fram, en helzt var það þó sá ráðh., hæstv. fjmrh., sem minnst hefur um þetta mál að segja og sennilega á minnsta sök á sköpun þess. Hv. þm. Barð. var í hv. Nd. kjörinn málsvari þeirra manna, sem vildu samþykkja þennan óskapnað. Er hann af mörgum álitinn einna slyngasti málafylgjumaður Framsfl. Vörn hans í þessu máli varð þó mjög aum, eins og líka efni stóðu til. Svaraði hann t.d. ekki fyrirspurnum, sem til hans var beint, enda mun hann hafa talið það skyldu hæstv. ríkisstj. að svara þeim og til saka yfirleitt, þó að hann hafi talið það sem sína sjálfsögðu seinustu skyldu við Framsfl. að taka þessa málsvörn að sér til málamynda. Við 3. umr. í háttv. Nd., seinni hluta umræðunnar, er flestir hv. þm. þeirrar deildar höfðu lokið máli sínu, mætti faðir óskapnaðarins og hæstv. fyrrv. viðskmrh. og endurtók nokkrar af fyrri rakalausum staðhæfingum, sem og hann líka gerði hér í þessari háttv. deild við 1. umr. málsins. Er hann hafði þetta gert, hljóp hann burtu úr deildinni. Hann lét ekki svo litið að hlusta á ræðu háttv. 2. landsk. þm., forseta Alþýðusambands Íslands, sem þekkir manna bezt kaup og kjör verkamanna um land allt og flutti í þetta skipti mikilsverðan fróðleik um kaup manna á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þessar upplýsingar sýndu, hvílikur geysimunur er á kaupi almennra verkamanna, eftir því, hvar þeir búa á landinu, og jafnframt, að þeir lægst launuðu á afskekktustu stöðunum verða helzt fyrir barðinu á þessari löggjöf. Ég hygg, að það sé ekki ofmalt, að hæstv. fyrrv. viðskmrh. hefði verið full þörf á því að hlusta á þessar upplýsingar og kynnast þessum málum, ef hann við það hefði öðlast einhvern neista af skilningi á kjörum þeirra manna, sem hann vill hefta í ófrelsi og áþján með þessum l. og banna að gera tilraun til þess að bæta lífsafkomu sína.

Vegna þessarar tregðu upphafsmanna þessara l. til að ræða málið og vanmáttar forsvarsmanna þess til að verja það, urðu ekki miklar umr. um málið, er það var til 1. umr. í þessari háttv. deild. Ýmsir háttv. þm. höfðu að vísu kvatt sér hljóðs, en féllu síðan frá því að ræða frv., þar sem öll hæstv. fyrrv. ríkisstj. og allir forsvarsmenn málsins, nema hæstv. forseti, sem af skiljanlegum ástæðum þurfti að vera í deildinni, beinlínis flúðu af fundi. Þeir þm., sem ætluðu að ræða málið, kusu því heldur að bíða til 2. umr. og freista þess, ef einhverjir forsvarsmannanna hefðu öðlazt meiri kjark til þess að verja mál sitt. Er umræður hófust nú í þessari háttv. deild, voru að vísu þó nokkrir forsvarsmenn mættir. En er umræður hófust, kom þegar í ljós sama tregðan hjá þeim til að heyra þetta. Hv. 2. þm. S.-M., sem er frsm. þeirra, sem þessi l. vilja, meiri hl. allshn., sneiddi að mestu hjá því að ræða þessi l. og gagnsemi þeirra, réttlæti þeirra o.s.frv., heldur ræddi hann aðallega húsaleigul. og óréttlæti þeirra l. og þau höft, sem þau hafa lagt á vissa stétt manna, að því er hann sagði. Háttv. 2. landsk. hefur þegar svarað þessum firrum, og skal ég því ekki fara nánar út í það. Mér virðist, eftir öllu að dæma, að hv. frsm. meiri hl. allshn. sé ákveðinn í því að svara engu og halda að engu uppi vörnum í þessu máli, og tel ég hann mann að meiri að viðurkenna þannig í verkinu, að engum vörnum verður við komið, þó að hann hins vegar muni að sjálfsögðu leggja blessun sína á þetta síðasta og versta afkvæmi fyrrv. viðskmrh. og það, enda þótt það hafi nú þegar gerzt föðurbani, áður en fæðingunni er að fullu lokið.

Hvernig stendur nú á því, að þeir menn, sem að máli þessu standa og telja þetta gott mál og sig hafa sín megin öll rökin, allan þegnskapinn, alla ábyrgðartilfinninguna, alla þjóðhollustuna og allt réttlætið, skuli telja það eftir sér að húðstrýkja okkur, sem erum andstæðir þessu máli og ættum því engin rök að hafa gegn því, engan þegnskap, enga ábyrgðartilfinningu og þar að auki ranglæti? Hver er svo fávís að trúa því, að þessir menn vildu ekki gjarnan láta síðari tíma dæma það eftir skjalfestum ræðum þeirra á háttvirtu Alþingi, hversu snjallir þeir hefðu verið í þessu máli og hvílíkri óhemju þeir hefðu haft yfir að ráða af rökum, þegnskap, þjóðhollustu, ábyrgðartilfinningu og réttlæti í þessu máli? Hitt mun sönnu nær, að þeir sjái það nú, þó að þeir vilji ekki viðurkenna það, að þetta mál nefur frá byrjun verið ábyrgðarlaust kákmál, að því leyti sem það er ekki beinlinis ranglætismál í garð launastéttanna og verkalýðsins í landinu og beinlínis til þess ætlað að hefta samningafrelsi þeirra og lama viðnámsþrótt þeirra gegn þeim öflum í þjóðfélaginu, sem alltaf, á öllum tíma, bæði í góðæri og harðæri, vilja velta öllum byrðum á bak þessara stétta. Þeir sjá það nú, að það, sem þeir ætluðu sér að ná með þessum l., hefur mistekizt vegna andstöðu verkalýðsins og þeirra manna, sem frá því fyrsta hafa verið á verði gegn hvers konar óréttindum og rangsleitni í hans garð. Þeir sjá það og viðurkenna, að það er ekki hægt að framfylgja þessum I. eins og ætti að vera og ætlazt var til. Þess vegna hafa þeir og þessi l. þeirra orðið að hreinasta viðundri. Ég get ekki hugsað mér, að nokkurt löggjafarþing í lýðfrjálsu landi geti gert sér meiri óvirðingu en að samþykkja og setja löggjöf, sem það veit fyrirfram, að verður ekki haldin eða framkvæmd, heldur þverbrotin af hverjum manni, sem vinnu þarf að kaupa eða selja í þessu landi, en það munu velflestir landsmenn.

Faðir óskapnaðarins, fyrrv. viðskmrh., hefur nú orðið að þola þær raunir, að þetta afkvæmi hans, sem hann hefur tekið einna mestu ástfóstri við af öllu því, sem hann hefur getið í sinni ráðherratíð, hefur nú magnazt svo, að það hefur orðið föðurbani, áður en fæðingunni var að fullu lokið. Eru jafnframt, sem betur fer, allar líkur til þess, að það muni einnig höggva stórt skarð í þau pólitísku sérréttindi, sem þessi fyrrv. ráðh. og flokkur hans hafa haft um nokkur undanfarin ár. Höggið, sem átti að greiða verkalýðnum og átti að ríða samtökum hans að fullu, hefur orðið vindhögg, en þó til falls þeim, sem það greiddi. Sannast hér sem oft fyrr, að skamma stund verður hönd höggi fegin.

Framsfl., og þá sérstaklega fyrrv. viðskmrh á upptökin að því, að þessi l. voru sett. Að vísu hafa ýmsir af forráðamönnum Sjálfstfl. frá upphafi verið fylgjandi slíkri löggjöf, en vegna óvinsælda slíkrar löggjafar hliðrað sér hjá að kannast við það. Framsfl.-menn hafa haldið því fram, að þeir, með setningu þessara l., væru að berjast gegn dýrtíðinni í landinu og verðbólgunni. Þetta er alrangt. Framsfl. hefur aldrei viljað berjast gegn dýrtíðinni, aldrei gegn stríðsgróðanum, aldrei gegn verðbólgunni, heldur aðeins gegn því, að laun verkamanna og launastéttanna, sérstaklega hinna lægst launuðu, hækkuðu. Sú barátta, sem þessi flokkur undir forystu fyrrv. viðskmrh. hefur háð, hefur því verið barátta gegn bættri afkomu þeirra þjóðfélagsþegna, sem verst voru staddir, sem minnst máttu sín og litla eða enga aðstöðu höfðu til þess að bæta afkomu sina nokkuð verulega í því peningalega góðæri, sem verið hefur undanfarið og er enn í þessu landi. Skal ég nú færa nokkru fyllri rök fyrir þessu.

Síðari hluta ársins 1940 varð það þegar ljóst, að af sölu ísfiskjar í Englandi varð meiri gróði en nokkurn hafði órað fyrir. Fór þetta einnig svo í byrjun ársins 1941. Þá þegar hlaut öllum að vera ljóst, að ef upp ætti að taka baráttu gegn dýrtíðinni og verðbólgunni, yrði að finna ráð til þess, að meginhluti þessa gróða lenti ekki hjá einstaklingunum, sem flestir, ef ekki allir, öðluðust hann fyrir tilviljun, en ekki vegna þess, að þeir af fyrirhyggju eða með atorku hefðu til hans unnið, heldur í sameiginlegum sjóði landsmanna og til nýtingar fyrir þjóðarheildina. Var um þetta rætt sérstaklega í blaði Alþýðuflokksins og þá bent sérstaklega á þá leið að taka 10–15% útflutningsgjald af þessari vöru, og skyldi því gjaldi varið til þess að verðbæta aðrar vörur, sem, seldust lægra verði, og einnig til þess að halda dýrtíðinni í skefjum að öðru leyti. Þessum tillögum var að engu sinnt af þáv. ríkisstj. Að vísu hefur fyrrv. viðskmrh. upplýst það í þessari háttv. deild, að hann hafi á þessum tíma lagt til innan ríkisstj., að þetta gjald væri tekið, en það hafi verið stöðvað af ráðh. Sjálfstfl. Það er a.m.k. víst, að engin sérstök áherzla var á það lögð, hvorki af þessum hæstv. ráðh. né flokki hans, og ekkert lagt við, til þess að þetta mætti fram ganga. Um áramótin 1940–1941 féllu úr gildi ákvæði gengisl. frá 1939 um kaupbindingu verkalauna. Nokkur verkalýðsfélög víðs vegar um landið hófu þegar samninga, og tókst nokkrum þeirra að fá lítils háttar grunnkaupshækkun, en langflest sömdu aðeins um fullar dýrtíðaruppbætur samkv. vísitölu. Þegar séð varð, að nokkur félög fengu grunnkaupshækkun, var það, að fyrrv. viðskmrh. hóf upp sitt harmakvein um það, að frá kauphækkun verkamanna stafaði öll hækkun dýrtíðarinnar, og ef hægt væri að stöðva slíka hækkun, væri fundið einhvers konar allsherjarmeðal gegn allri hækkun hinnar geigvænlegu dýrtíðar. Síðan hefur þetta verið hans fagnaðarboðskapur til þeirra, sem þjást vegna sívaxandi dýrtíðar, og sú eina huggun, sem láglaunamennirnir hafa fengið hjá þessum stjórnmálaleiðtoga, að þeir skyldu minnka launin sín, þá mundi dýrtíðin lækka. Ja, þvílíkur dýrðar-og gleðiboðskapur. Enginn veit til þess, að frá ársbyrjun 1941 og þar til í júní hafi nokkru sinni örlað á tillögu frá þessum háttv. þm. eða hans flokki um útflutningsgjald á stríðsgróðavörur eða öðru slíku. En á þessu tímabili skeði annað. Þessi hæstv. fyrrv. viðskmrh. og flokkur hans samdi við stórútgerðarmennina og stríðsgróðamennina í Sjálfstfl. um sérstök hlunnindi í skattgreiðslu, þar sem þeir fengu að draga frá tekjum ársins 1940 tap undanfarinna 10 ára, en auk þess stórkostleg hlunnindi um tillög til varasjóða. Vildi Framsfl. í engu sinna tillögum Alþfl. um sérstakt fyrirkomulag nýbyggingarsjóðs eða hærri skattstiga á geysiháar tekjar, þó að fyrir sérstakt harðfylgi Alþfl. fengist að nokkru binding á hluta þessa fjár í nýbyggingarsjóði, og skattstigi lækkaður stórlega á lágtekjum og miðlungstekjunt, með umreikningi í hlutfalli við vísitölu.

Strax eftir að háttv. Alþingi hafði samþ. s.l. vor að fresta kosningum, leggur fyrrv. viðskmrh. í nafni flokks síns fram tillögur í ríkisstj., sem hann kallaði ráðstafanir gegn dýrtiðinni. Meginatriði þeirra tillagna, og það, sem hann lagði aðaláherzlu á, var 10% launaskattur á alla launþega í landinu, en þessi skattur átti ekki að greiðast af þeim, sem höfðu tekjur sínar af öðru, t.d. iðnaði, verzlun o.s.frv., og var beinlínis tekið fram, að þeir, sem, væru framleiðendur og útflytjendur, skyldu undir engum kringumstæðum greiða þennan skatt. Skyldi skattur þessi vera eins og fyrr segir 10% af þegnum launum, t.d. maður, sem hafði 400 kr. á mánuði, skyldi greiða 40 kr. í ríkissjóð, 600 kr. 60 o.s.frv., og auk þess alla venjulega skatta. Hins vegar skyldi útflytjandinn, sem hafði af útflutningi sínum og framleiðslu t.d. 200 þús. kr. tekjur, engan slíkan aukaskatt greiða. Taldi Framsfl., að Sjálfstfl. væri þessum till. fylgjandi, a.m.k. ráðh. hans í ríkisstj., og lét á sér skilja, að ef slíkar tillögur ekki yrðu samþykktar, mundi það varða stjórnarslitum af hálfu Framsfl. Alþfl. beitti sér frá upphafi af alefli gegn þessum tilraunum Framsfl. að skattleggja eingöngu launamennina í landinu og benti á, að með þessu væri algerlega rofinn sá grundvöllur um samstarf flokka í ríkisstj., séu lagður var 1939 og að nokkru leyti endurnýjaður með kosningafrestuninni, þar sem tilætlunin hefði verið sú, að allar ráðstafanir, sem gera þyrfti í þessum efnum, væru þannig framkvæmdar, að þær kæmu sem jafnast niður á öllum þegnum þjóðfélagsins, en að sérstaklega hefði þó verið ætlazt til, að ríkissjóður fengi sem ríflegastan skerf af stríðsgróðanum, sem síðan yrði ráðstafað til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Þegar þessar tillögur voru lagðar fyrir háttv. Alþingi, voru þær að nokkru breyttar frá því, sem fyrr getur, auk þess sem upp voru tekin nokkur önnur atriði, svo sem heimild til þess að halda niðri farmgjöldum, útflutningsgjald á sjávarafurðir, tollalækkanir o.s.frv. Í meðförum hæstv. Alþingis var þessu máli mjög breytt, og varð síðar samþykki um afgreiðslu heimildarl., þar sem 10% launaskatti hæstv. fyrrv. viðskmrh. og Framsfl. var breytt í 10% innheimtu af tekju- og eignarskatti álögðum 1941. Helztu atriðin í þessum heimildarl. voru:

1) að hafa íhlutun um farmgjöld af vörum, sem fluttar voru til landsins, 2) að fella niður tolla af ýmsum kornvörum, 3) að lækka um helming tolla af sykri og kaffi, 4) að hækka um helming tolla af ýmsum munaðarvörum, 5) að verja allt að 5 millj. úr ríkissjóði til þess að koma í veg fyrir verðhækkun á ýmsum nauðsynjavörum, innlendum og erlendum, til neytenda, 6) að leggja á ýmsar útflutningsvörur, sem seldust sérstaklega háu verði á erlendum markaði, allt að 10% sérstakt útflutningsgjald og 7) að innheimta 10% viðauka af tekju- og eignarskatti álögðum 1941. Með þessum l. voru fengnar ýmsar heimildir fyrir hæstv. ríkisstj. til ráðstafana, sem, ef þær voru gerðar af alvöru og einlægni, gátu komið að miklu liði í baráttunni við sívaxandi dýrtíð. En fyrrv. hæstv. ríkisstj. lét algerlega undir höfuð leggjast að framkvæma nokkuð af þessum l., nema að innheimta fyrr greindan tekjuskattsauka. Mun sá tekjuauki, sem ríkissjóður þannig fékk, hafa numið 900 þús. krónum. Fyrrv. ráðh. Framsfl. hafa upplýst, að það hafi eingöngu verið að kenna ráðh. Sjálfstfl., að ekkert af heimildum þessara l. var notað. Ekki verður þó séð á neinu, sem fram hefur komið, að nokkur sérstakur vilji hafi verið fyrir hendi af hálfu Framsfl. til þess að framkvæma þessi l., eða að nein viðurlög af hans hálfu hafi verið sett fyrir framkvæmd þeirra, enda er það vitað, að a.m.k. fyrrv. viðskmrh. missti algerlega allan áhuga fyrir framkvæmd þeirra, eftir að vitað var, að ekki fékkst samþykki fyrir þeim álögum, sem hann vildi leggja á alþýðu þessa lands með launaskattsákvæðinu. Hæstv. forsrh. var í lófa lagið að kveðja saman háttv. Alþingi þegar í júlí eða ágúst, þegar sýnt var, að ráðh. Sjálfstfl. vildu ekki framkvæma þessi heimildarl., og fá úr því skorið, hvort Alþingi hefði verið alvara, er það setti þessi l., eða hvort háttv. alþm. yfirleitt hefðu sett þau til málamynda eða upp á grín. Þetta lét hann undir höfuð leggjast. Það var ekki fyrr en í októbermánuði, að Alþingi var kvatt til fundar, þó ekki til þessa, heldur til þess að ræða nýjar álögur á launastéttirnar í þessu landi, sent, eins og fyrr, voru bornar fram af þessum sama fulltrúa Framsfl., fyrrv. viðskmrh. Allur almenningur í landinu var þá fyrir löngu orðinn forviða á því ábyrgðarleysi hæstv. ríkisstj. að nota að engu þær heimildir, sem hún hafði fengið með fyrrgreindum l., enda þótt dýrtíð færi ört vaxandi og gróði stórútgerðarmánna og annarra slíkra færi hraðvaxandi.

Það Alþingi, sem kvatt var til fundar í okt. s.l. af fyrrv. hæstv. forsrh., var ekki kvatt saman til þess að herða að eftirliti með farmgjöldum, eða láta framkvæma þau ákvæði heimildarl., það var ekki kvatt saman til þess að lækka tolla á nauðsynjavörum, það var ekki kvatt saman til þess að ákveða innheimtu á útflutningsgjaldi á ísfisk, sem seldur var á enskum markaði af togurum og öðrum slíkum flutningaskipum, eða til þess að leggja aukin gjöld á stórrítgerðarmennina og aðra slíka stríðsgróðamenn. Nei, hæstv. Alþingi var í þetta skipti kvatt saman til þess að hlusta á og samþykkja tillögum fyrrv. viðskmrh. um það, að kaup allra launþega í landinu mætti ekki hækka frá því, sem það var í október 1941, til jafnlengdar næsta árs, ekki einu sinni samkvæmt dýrtíðarvísitölu, hversu mikið, sem hún kynni að hækka. Landbúnaðarafurðir skyldu ekki heldur hækka, en þó var ekki algerlega tekið fyrir slíka hækkun á sama hátt. Af fyrri reynslu í þeim efnum þýddi það hækkun, þegar fulltrúum Framsfl. þóknaðist svo, Engin ákvæði voru um bann á kauphækkun framleiðenda, t.d. að þeir mættu einungis hafa ákveðinn hluta til sinna nota. Slíkt var algerlega ótakmarkað. Með þessu var öllum byrðum dýrtíðarinnar velt yfir í launastéttirnar, þar sem enginn launþegi í landinu mátti fá hærri laun, enda þótt dýrtíðin yxi, en hækkandi vísitala og tilsvarandi launauppbót hefur þó ver ið eina öryggið, sem launastéttirnar hafa, bæði vegna þess, að valdhafarnir reyna að halda niðri dýrtíðinni til þess að koma í veg fyrir auknar launagreiðslur og eins fyrir hitt, að ef það ekki tekst, fá launþegarnir þó nokkra hækkun, þótt ófullkomin sé. Þröngsýni fyrrv. viðskmrh. nær hér hámarki sínu. Þessi fyrrv. hæstv. ráðh. og flokkur hans hafa aldrei séð neitt annað til bjargar en lækkun verkakaups og talið auknar tekjur fólksins einu eða aðalorsök vaxandi dýrtíðar. Þeim hafa ekki vaxið í augum hinar gífurlegu tekjur ýmissa nýbakaðra milljónamæringa í þessu landi, enda má vera, að heili þeirra hafi staðnað við visst hámark tekna og þeim því ekki verið ljóst, að til væru neinar tekjur í þessu landi, sem væru hærri en t.d. ráðherralaun. Hitt hefur þessum mönnum þá vaxið mest í augum, að verkafólkið, sem árum saman hefur varla haft til hnífs og skeiðar, skyldi nú á þessum tímum verða fært um, með slitlausri vinnu myrkranna á milli, jafnt helga daga sem rúmhelga, að fá þær tekjur, að það gæti öðlazt sómasamlega afkomu, fengið tekjur til þess að bæta úr klæðaskorti undanfarinna ára og kaupa allra nauðsynlegustu húsgögn. Það var sérstakur þyrnir í augum framsóknarmanna, að þessir þegnar þjóðfélagsins skyldu fá tækifæri til smávægilegustu lífsþæginda handa fjölskyldum sínum. Laun þessara manna þurfti að skerða. Það var mál málanna. Ráðh. Framsfl. lýstu því yfir, að fylgi ráðh. Sjálfstfl. væri fyrir þessum tillögum og þeir sjálfir mundu fara úr ríkisstj., ef þær yrðu ekki samþykktar. Með því átti að hræða þm. til fylgis. Svo takmarkalaust álit höfðu þessir menn á sjálfum sér, að þeir álitu enga aðra færa að stjórna þessu landi og töldu sjálfum sér trú um, að meiri hluti hv. þm. væri sömu skoðunar. Þeir fengu þá að reyna annað og hafa nú fengið fulla vissu fyrir, að meiri hluti núv. háttv. alþm. telur enga sérstaka vá fyrir dyrum, þó að þeir um sinn fái hvíld frá stjórnarstörfum. Alþfl. beitti sér þegar gegn setningu slíkra l. Honum tókst að vinna fylgi almennings í þeirri baráttu, og kom svo að lokum, að Sjálfstfl. þorði ekki annað en að vera á móti setningu slíkra l., enda þótt margir forráðamenn hans hafi þar gengið nauðugir til leiks. Ég þarf ekki að rekja þessa sögu, hún er öllum kunn. Tillögur Framsfl. voru felldar og ráðh. hans létu verða af því að segja af sér. Þessir sömu ráðh. fóru síðan í stjórn að nýju, sennilega til þess, að kosningar færu þá ekki fram, en lýstu því þá yfir, að þeir væru ábyrgðarlausir um framkvæmdir í dýrtíðarmálunum, enda þótt yfirlýsingar hefðu verið gefnar af öllum stjórnarflokkunum á Alþingi um það, að heimildarl. frá vorinu 1941 skyldu framkvæmd. Það kom fljótlega í ljós, að þessir hæstv. ráðh. Framsfl. voru ábyrgðarlausir eða jafnvel meira í þessum málum. Í stað þess að framkvæma heimildarl. og halda niðri verðlagi á neyzluvörum, þá fyrirskipuðu þeir beinlínís hækkun á öllum landbúnaðarvörum frá 10–20% frá þeim tíma, er þeir komu í ríkisstj. að nýju og til áramóta. Hins vegar bólaði ekki á neinum framkvæmdum á heimildarl. Afleiðingin varð, , eins og efni stóðu til, síhækkandi dýrtíð og vísitala. Með þessu var beinlínis verið að ögra verkalýðnum í landinu. Með hækkandi vísitölu hækkaði gróði stórútgerðarinnar og annarra slíkra, en laun verkalýðsins stóðu í stað. Má vera, að ráðh. Framsfl. hafi gert þetta vitandi vits, til þess beinlínis að kalla fram kröfur um grunnkaupshækkanir. Launastéttirnar í landinu gátu alls ekki setið hjá og horft á aðrar stéttir þjóðfélagsins auka tekjur sínar stórlega, en þeir einir sætu hjá. Ef svo héldi áfram, hlaut nauðsynlegt jafnvægi stórlega að raskast á milli einstaklinganna, þeirra, sem framleiddu, og hinna, sem yfir framleiðslunni ráða. Með þessum ráðstöfunum var því af hálfu ríkisvaldsins beinlínis kallað eftir kröfum um grunnkaupshækkun. Þessum aðgerðum einum er það því að kenna, að fram komu kröfur um grunnkaupshækkun, sem þó voru ekki eins almennar og stórtækar og efni stóðu vissulega til.

Ég hef nú að nokkru lýst afstöðu Framsfl. til aðdraganda þessa máls og þá sérstaklega afstöðu aðalhvatamanns þessara l., fyrrv. viðskmrh. Þessi sami hæstv. fyrrv. ráðh. hefur haft með höndum framkvæmdir á verðlagseftirliti, sem er nátengt þessum málum. Framkvæmdir á þeim málum hafa verið svo, að þær hafa verið langt fyrir neðan það að vera kák. Þær hafa í sumum tilfellum beinlínis orðið til þess að auka dýrtíðina í landinu. Háttv. frsm: meiri hl. allshn. kom nokkuð inn á þessi mál og virtist vera ánægður með framkvæmdir flokks síns í þeim.

Heldur virkilega háttv. 2. þm. S.-M., að vel hafi verið séð fyrir þessum málum? Dettur þessum reynda manni í hug, að fólkið hafi streymt inn í verzlunarstörf og heildsölur, ef álagningu hefði verið stillt í hóf? Nú á tiltölulega stuttum tíma hefur hér í Reykjavík verið veitt á þriðja hundrað slíkra leyfa. Bendir þetta ótvírætt í þá átt, að vegna slælegs eftirlits um verðlag, sem síðan hefur orðið til þess að auka dýrtíðina, hafi mönnum fundizt allvænlegt að stunda þessa atvinnu. Þetta verður skiljanlegra, þegar þess er gætt, að hæstv. fyrrv. viðskmrh. miðaði allt sitt verðlagseftirlit við að ákveða heimild til þess að leggja á vöruna prósentvís, en ekki hámarksverð. Þó að álagning nokkurra vara hafi verið lækkuð um t.d. 10–15%, hefur verðlagið og sá hluti, sem kom í hlut kaupmannsins, stórhækkað, þar sem verð vörunnar, flutningsgjald, vátrygging, tollar og annar kostnaður hefur stórhækkað, en álagning alltaf miðuð við kostnaðarverð vörunnar kominnar á sölustað. Þó að kostnaður við dreifingu vörunnar hafi aukizt nokkuð, hefur hann ekki aukizt að sama skapi, og því hlutur seljandans orðið þeim mun ríflegri. Ef hámarksverð hefði verið hóflega ákveðið, eins og nú tíðkast um sumar vörur, hefði mátt stórlega hamla á móti dýrtíðinni. Hitt er svo aftur á móti mikið vafamál, hvort verzlunarstéttinni í heild er gerður nokkur greiði með því, að alls konar spákaupmenn og slíkur lýður flykkist að verzlun á þessum tímum. Slíkir menn rýra álit stéttarinnar í heild. Eftir stríð er síðan fyrirsjáanlegt hrun og alls ekki víst, að þeir verði fyrir því, sem helzt ættu það skilið vegna framkomu sinnar nú á þessum tímum. Þessi aðferð hæstv. fyrrv. ráðh. hefur valdið undrun mikilli, og hafa jafnvel myndazt gamansögur um það, að fyrrverandi andstæðingar hans hafi allt í einu fengið svo mikinn gróða af þessum sökum, að þeim hafi komið til hugar, hvort ekki væri nú réttara fyrir þá að styðja þennan óvita, sem þeir hafa kallað svo, í verzlunarmálum, áfram til valda í von um meiri gróða og hærri álagningu. Það er líka vitað, að ýmsir kaupmenn og kaupfélög úti um land notuðu sér ekki hámarksálagningu, t.d. á byggingarefni. Sú álagning var ofan við það, sem almennt tíðkaðist fyrir stríð, enda sá hæstv. ráðh. að sér og stórlækkaði hana s.l. haust. Það má vel vera, að þessi fyrrv. hæstv. viðskmrh. hafi í æsku öðlazt nokkurn skilning á kjörum alþýðunnar í þessu landi, og sú þekking og skilningur, sem hann öðlaðist þá, hafi fram eftir bernskuárunum enzt honum til frjálslyndis og róttækni í þjóðmálum, ásamt nokkrum vilja til þess að beita sér ekki gegn umbótum þeim til handa, sem verst eru staddir og við bágust kjör eiga að búa í þessu þjóðfélagi. Hitt er víst, að nú seinustu árin, síðan hann komst af bernskuskeiði, hefur hann lent hægra megin í fylkingararmi þeirra, sem helzt vilja ganga á rétt smælingjanna, takmarka kaup þeirra og frjálsræði til þess að ráða málum sínum. Það hefur fennt yfir frjálslyndi og skilning og myndazt harðfenni íhaldssemi og þröngsýni, sem örðugt getur orðið að þíða, ef hæstv. fyrrv. ráðh. öðlast ekki aftur eitthvað af því frjálslyndi og víðsýni, sem hann virðist hafa glatað í undanfarinni samvinnu við stokkfreðna afturhalds- og stríðsgróðamenn.

Ég hef nú að nokkru lýst hlutverki fyrrv. hæstv. viðskmrh., sem er aðalupphafsmaður þessarra ólaga, en flokkur hans á þar mikinn þátt í og þá sérstaklega hæstv. fyrrv. forsrh. Þessi hæstv. ráðh, hafði lýst því yfir, að hann mundi beiðast lausnar fyrir ráðuneyti sitt haustið 1941, ef hæstv. Alþingi féllist ekki a að banna alla kauphækkun launamanna í landinu. Hann gerði það og settist síðan í stjórn aftur, með þeim tilgangi, að því er bezt verður séð, að hækka, en ekki lækka, dýrtíðina í landinu. Þegar því um s.l. áramót séð varð, að ekkert gerðist í þessum málum, og nokkur hluti launamanna, en þó aðeins örlítill, og beinlínis vegna aðgerða ríkisstj., vildi fá að nokkru bættar þær fórnir, sem hún færði 1939, notaði þessi hæstv. ráðh. tækifærið til þess, með sviksemi Sjálfstfl., að koma þessum hugðarefnum Framsfl. í framkvæmd. Það getur varla hjá því farið, að flestum lýðræðiselskandi mönnum í þessu landi hafi brugðið, er þeir hlustuðu á áramótaboðskap þessa hæstv. ráðh. til þjóðar sinnar. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að griðum væri slitið milli atvinnurekenda og launastéttanna í landinu, og tilkynnti atvinnurekendum, að þeir þyrftu ekki að semja við verkalýðsfélögin um aukið kaup, því að hann mundi, í krafti valdastöðu sinnar sem forsrh., sjá svo um, að þeir þyrftu engar launabætur að greiða. Það hefðu vitanlega verið einkennilegir atvinnurekendur, sem ekki hefðu tekið slíku tilboði fegins hendi. Þeir vöruðu sig ekki á því, að hæstv. ráðh. hafði vilja en ekki vald til þess að gera slíka hluti. Þið skuluð vita það, góðir atvinnurekendur, sagði hæstv. ráðh., að þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur út af samningum við verkalýðsfélögin. Ég mun létta slíkri samningagerð af ykkur, og þið skuluð ekki vera hræddir um, að þið þurfið að borga meira í framtíðinni en þið gerið nú. — Arthur Greenwood, foringi verkamanna í Englandi, hefur látið svo um mælt; að alls staðar þar, sem fasisminn sé að ryðja sér braut, þá ráðist hann fyrst að verkalýðnum og samtökum hans. Sjálfsagt hefur það hvarflað að mörgum, sem heyrðu þennan nýársboðskap ráðh., að hér væri maður á ferðinni, sem gjarnan vildi fá að ráða og fyrirskipa, verða einræðisherra, en viljinn er ekki nægur. — Það þarf meira til. Hæstv. ráðh. skjátlaðist, eins og reyndar oft áður, vegna þess að hann þekkir ekki lunderni íslenzkrar alþýðu. Honum gleymdist, að íslenzk alþýða er afkomandi þeirra landnámsmanna, sem í fornöld flúðu land sitt og eignir, flúðu undan áþján og kúgun, afturhaldi og einræði þeirra tíma, og komu hingað og settust hér að við erfið skilyrði til þess að halda fullu frjálsræði og athafnafrelsi. Frelsisþrá og réttlætiskennd íslenzkrar alþýðu er sterk. Hún hefur á umliðnum öldum þurft að þola margs konar hörmungar, hungur og eldgos, áþján erlends valds, er hún hafði glatað sjálfstæði sínu, en þrátt fyrir allt haldið þessum eiginleikum sínum óskertum og aldrei látið kúgast. Til þessa hefur ekkert afl megnað það. Enginn maður hefur til þessa getað brenglað réttlætiskennd íslenzkrar alþýðu eða bugað frelsisþrá hennar, enginn getað komið á þrælahaldi hér á landi, sama hvort hann hefur heitið Hjörleifur Hróðmarsson, Henrik Bjelke eða Hermann Jónasson. Allar slíkar tilraunir hafa strandað á meðvitund fólksins um samtakamátt sinn og trúnni á rétt sinn til frjálsræðis. Fyrir þessa afstöðu sína til verkafólksins og launastéttanna í landinu hefur nú Framsfl. orðið að hrökklast úr ríkisstj. og er nú búinn sá sess framvegis í stjórnmálum, sem honum hæfir.

Menn kynnu nú að ætla, að Sjálfstfl. hefði hreinan skjöld í þessu máli. En það er langt frá að svo sé. Þó að margir hinna óbreyttu flokksmanna kunni að vera á móti þessari löggjöf, þá hafa fjölmargir forustumenn flokksins alltaf verið henni fylgjandi, og einskær kjósendahræðsla hefur orsakað það, að þeir hafa ekki verið jafnhatrammir eins og Framsfl. Þá er það líka, að Framsfl. er heilsteyptari flokkur en Sjálfstfl. og þar að auki þjálfaður í foringjadýrkun, og hefur vanizt því um áratugi að standa saman um allar vitleysurnar, sem forystumenn hans hafa gert. Þess vegna hefur það oft verið tiltölulega auðvelt fyrir ráðh. þess flokks að gefa út brbl. um ýmiss konar mál, sem óbreyttir þm. hafa verið andstæðir. Þingmannahjörðin hefur á sínum tíma lagt blessun sína á verknaðinn, ef ekki af öðru, þá af einskærri hlífð við flokksforustuna. Sjálfstfl. hins vegar er samsettfur af ýmsum mönnum með gerólík sjónarmið. Þeir, sem mestu ráða, eru annars vegar stórútgerðarmennirnir og atvinnurekendurnir í landinu. Þessir menn græða nú stórfé og hafa nú, eins og ávallt, hag af því, að allt kaupgjald í landinu sé sem allra lægst. Hins vegar eru kaupmennirnir og heildsalarnir. Þeir hafa sérstakan hag af því, að almenningur hafi sæmilegt kaup, svo að þeir geti selt vörur sínar og svo auðvitað, að verzlun þeirra sé sem minnstum takmörkunum háð um verðlag og annað slíkt. Þessi hluti Sjálfstfl. hefur því oftsinnis, a.m.k. í orði, viðurkennt kröfur launamanna um bætt kjör. Auk þessara aðila er svo nokkur hópur verkamanna og launamanna, sem lýðskrumurum flokksins hefur á seinustu árum tekizt að vinna til þess að kjósa frambjóðendur flokksins t bæjarstjórnir og til Alþingis. Þessi hópur manna er að vísu algerlega áhrifalaus um stefnu flokksins í landsmálum og á alls ekki heima innan vébanda hans. Forustumenn flokksins hafa þó ekki þorað annað en taka nokkurt tillit til skoðana þessara manna, því að annars hefðu blekkingarnar orðið of auðsæjar og flokkurinn hlotið að tapa þessu fylgi. Reynslan í þessum málum sýnir þó, að forustumenn flokksins hafa alltaf verið tilbúnir að taka þá stefnuna, sem verst gegndi fyrir launastéttirnar. Vorið 1941 voru báðir ráðherrar flokksins reiðubúnir að ganga inn á launaskatt fyrrv. hæstv. viðskmrh. Haustið 1941 voru þessir sömu hæstv. ráðh. reiðubúnir að ganga inn á kaupfestingu sama manns, og loks nú um síðustu áramót hafa þeir samþykkt þau brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar, og verða nú að standa v ið gerðir sínar. Það, að þeir guggnuðu í hin skiptin, var bæði vegna þess, að ýmsir hv. alþm. flokksins og nokkrir ráðamenn utan þings vildu ekki samþykkja þetta ráðabrugg hæstv. ríkisstj. Einmitt þess vegna völdu þessir hæstv. ráðh. þá leiðina að gefa út brbl. um þessi efni og það nokkrum vikum eftir að hæstv. Alþingi hafði fellt lög sama efnis, í von um, að nokkrir hv. þm. mundu gerast svo lítils virði að ganga frá fyrri skoðunum um. þetta mál og hlíta vilja forustumannanna, enda sýnir' það sig, að svo muni verða. Af sömu ástæðum var það, sem hæstv. ráðh. Sjálfstfl. leyfðu sér að koma í veg fyrir framkvæmd heimildarl. frá 1941 og þá sé:staklega gegn útflutningsgjaldi á ísfisk, sem beinlínis snerti hagsmuni einkafyrirtækis núv. hæstv. forsrh. Það er vitað, að forustumenu flokksins, sem stóðu að þessari löggjöf, gerðu það í trássi við ýmsa þm. flokksins og áreiðanlega í fullri óþökk margra flokksmanna. Í Vestmannaeyjum t.d., þar sem Sjálfstfl. hefur til þessa haft öruggt fylgi, báru bæjarfulltrúar Sjálfstfl. fram tillögu á almennum fundi þess efnis að víta þessar ráðstafanir. Vegna ofríkis hæstv. fyrrv. viðskmrh., sem staddur var á þeim fundi, fékkst þessi tillaga ekki borin undir atkvæði.

Alþfl. hafði vorið 1.941 beitt sér eindregið gegn launaskatti fyrrv. hæstv. viðskmrh. og tekizt að stöðva hann. Hann hafði beitt sér gegn kaupbindingu launastéttanna haustið 1941 og tekizt að koma í veg fyrir hana. Það var vitað, að hann mundi eins beita sér gegn setningu svipaðra l. um seinustu áramót og setning slíkrar löggjafar mundi verða þess valdandi, að ráðherra hans í ríkisstj. legði niður störf. Með því að setja slík l. með brbl. var auk þess algerlega rofið það samkomulag, sem gert var, er þessi stjórn var mynduð, þar sem því var lýst yfir, að engin slík brbl. skyldu, gefin út, nema allir ráðh. væru þeim samþykkir í meginatriðum. Fyrrv. forsrh. vissi því, hvað við lá, og þá jafnframt, að Alþfl. mundi beita öllum kröftum sínum að því að gera þessi l. þýðingarlaus og fá þau afnumin. Hitt mun sönnu nær, að fyrrv. og núv. hæstv. forsrh. hafi talið sér trú um það, að andstaða Alþfl. mundi verða máttlaus og einskis megandi, og að Alþfl., eins og þeir á þeim tíma reyndu að telja sjálfum sér og öðrum trú um, væri deyjandi flokkur. Má einnig vera, að þeir hafi álitið, að andstaða Alþfl. yrði jafnmáttlaus og andstaða sú, sem nokkrir andstæðingar gengisl. frá 1939 reyndu að koma af stað. En þar skjátlaðist þeim stórlega. Andstaða Alþfl. gegn þessum l. hefur orðið til þess, að sem betur fer hafa þau algerlega runnið út í sandinn í stórum hluta landsins. Andstaða fólksins gegn þeim vex dag frá degi, og mikill meiri hluti landsmanna lítur á þau sem hreinustu óþurftarlög og ranglæti.

Pólitískir andstæðingar Alþfl. hafa í umræðum um þetta mál og oftar gert samanburð á þessum l. og gengislækkunarl. frá 1939 og komizt að þeirri niðurstöðu, að af því að Alþfl. fylgdi þeim l., hefði hann einnig átt að fylgja þessum l. Í því pólitíska siðleysi, sem ríkjandi er hér á landi, kemur það ekki á óvart, þótt reynt sé að rugla dómgreind almennings í þessum efnum, sérstaklega ekki af þeim, sem voru líka á móti gengisl. 1939. Að fyrrv. samstarfsflokkar Alþfl., sem að þeim l. stóðu, skuli gera hið sama, sýnir fádæma skort á drengskap c:g siðleysi á hæsta stigi í umr. um opinber mál. Í fyrsta lagi var ekki settur á stofn gerðardómur árið 1939, er um langan tíma skyldi ákveða kaup og kjör verkamanna og launþega, heldur var ákveðið kaup launþega, en jafnframt það, sem mestu máli skipti fyrir verkafólk og launþega, að allar innlendar neyzluvörur skyldu vera í sama verði og þá var, og jafnframt reynt að koma í veg fyrir verðhækkun aðfluttra neyzluvara. Enda var það líka þá fyrst, er Framsfl. sveik ákvæðin um verðlag innlendu afurðanna, sem dýrtíðar fór að gæta. Aðstaða atvinnurekenda þá, þeirra, sem við sjávarútveg fengust, var þannig, að flestir þeirra voru mjög illa staddir fjárhagslega. Gengislækkunin var raunverulega komin á, áður en hún var samþykkt. Landið var gjaldeyrirlaust erlendis, m.a. vegna þess, að ýmsir framleiðendur neituðu að láta gjaldeyri af hendi fyrir hið lögskráða verð, og jafnvel kváðust hætta framleiðslu, ef því yrði ekki breytt. Þess vegna var setning gengisl. 1939 raunverulega ekki annað en að viðurkenna staðreyndir og gera tilraun til að koma í veg fyrir fjárhagslegt hrun landsins og álitshnekki erlendis. Sjómenn höfðu um langan tíma borið skarðan hlut frá borði, vegna hins lága verðs á fiskafurðum, sem stafaði af óréttlátri gengisskráningu. Þeir fengu hlut sinn bættan að nokkru með þessum l., — að vísu á kostnað verkamanna og launamanna, en þessir aðilar létu sér slíkt vel líka meðan sýnt var, að byrðarnar komu nokkurn veginn réttlátlega niður á öllum þegnum þjóðfélagsins. Launamennirnir og verkafólkið, sem færði fórnirnar 1939, hafa ekki talið þær eftir, en þessir aðilar hafa ætlazt til þess, að eftir þeim verði munað, þegar hagur þjóðarinnar batnar, og að þeir fái nokkra hlutdeild í því peningalega góðæri, sem nú er. Þeir hafa ekki búizt við því, að aðstoðin frá 1939 yrði af valdhöfunum launuð með því að velta byrðum sívaxandi dýrtíðar á bak þeirra, en hlífa þeim, sem geta og eiga að borga, stórútgerðar- og stríðsgróðamönnum. Alþfl. hefur líka ætlazt til, að þessar stéttir fengju endurgoldna aðstoðina frá 1939, og þess vegna borið fram frv. um gengishækkun, sem vitanlega er langáhrifaríkasta aðferðin til þess að bæta aðstöðu þessara stétta. Sú ástæða er ekki lengur fyrir hendi, að skortur gjaldeyris sé fyrir hendi eða samninga við erlend ríki til hindrunar. Þrátt fyrir þetta hafa enn þá engar undirtektir fengizt frá hinum flokkunum um þetta mál, þvert á móti vilja þeir fella það. Hagsmunir stórútgerðarinnar ráða þar sem í fleiri málum. Hvort man nú enginn lengur skrif þess lýðskrumara Sjálfstfl., sem oftast hefur verið sendur til sálnaveiða í hóp verkamanna og launamanna, Bjarna Benediktssonar borgarstjóra, sem hann viðhafði haustið 1941, er hann sagði, að því aðeins væri hægt að krefjast fórna af verkalýðnum og launastéttunum, þegar illa gengi, að þessar stéttir fengju hag sinn bættan, þegar vel áraði. Svik Sjálfstfl. eru í þessu máli auðsæ. Hann krefst fórna af verkalýðnum, þegar illa gengur, og veltir öllum byrðum dýrtíðarinnar á bak hans, þegar vel gengur, svo að stórútgerðarmennirnir fái haldið stríðsgróða sínum óskertum. Þessum stéttum er ætlað að bera þyngstu byrði hvers tíma. Eins og Bólu-Hjálmar sagði á sínum tíma. Loforð öðrum megin. Svík hinum megin.

Ég hef nú sýnt fram á, hvernig barátta Framsfl. hefur verið gegn verkafólki og launastéttunum, en til hagsbóta fyrir stórútgerðina. Einnig á öðrum sviðum hefur stefna flokksins verið eins. Má þar til nefna afstöðu hans gegn sjómannastéttinni og smáútgerðinni. Árið 1940 og framan af árinu 1941 var afkoma smáútgerðarmanna og hlutarsjómanna allsæmileg. Var það aðallega vegna eftirspurnar eftir nýjum fiski og tiltölulega sæmilegs verðs á þeirri vöru. Árið 1941 voru gerðir hinir svokölluðu brezku samningar, sem höfðu það í för með sér, að smáútgerðin berst í bökkum og hlutur sjómanna hefur rýrnað verulega, á sama tíma og tryggt var með þessum samningum, að gróði stórútgerðarinnar fremur ykist en hitt og eins þeirra, sem skip hafa í förum með fisk til sölu á brezkum markaði. Þetta gerðist þannig, að verð á ýsu, þorski og ýmsum öðrum góðfiski var lækkað úr 50–60 aurum í 35 aura hvert kg, verð á ufsa og ýmsum öðrum ruslfiski hækkað í sama verð eða 3b aura kg. Skal það sízt harmað út af fyrir sig, þótt ráðstöfunin sé einkennileg og lítt skiljanleg öðrum en þeim, sem eiga togara. Það hefur nú sannazt, að fyrir hvert kg af fiski, sem flutt er til Englands, er hægt að greiða framleiðendum hér a.m.k. 100 aura fob, ef skynsamlega og vel er á haldið. Þeir, sem eiga skip, sem fá að sigla með aflann til Englands, er því tryggður um 65 aura hagnaður á hvert kg fisks á kostnað smáútgerðarinnar og hlutarsjómanna, sem fiskinn veiða. Strax eftir að samningur þessi var gerður, tóku ýmsir af forustumönnum Framsfl., ásamt hæstv. núv. forsrh., að hefja samning þennan til skýjanna fyrir hvers konar kjarabætur í okkar garð. Var þó samningurinn þá mun gallaðri en nú, því að ýmsar lagfæringar hafa á honum fengizt og þá aðallega fyrir atbeina hv. þm. Ísaf., sem mjög hefur gagnrýnt þennan samning. Vel má vera, að Framsfl. hafi seilzt svona langt til þess fyrst að lækka kaup sjómanna, svo að hægra yrði að lækka kaup landverkamanna á eftir. Þá hefur Framsfl. sífellt verið á móti og talið eftir hvers konar kjarabætur, sem þeir sjómenn hafa fengið, sem sigla á hættusvæðunum, og er það þegar landfrægt orðið, er formaður flokksins kallaði áhættuþóknun þessara manna „hræðslupeninga“. Sjálfur hefur þessi hv. þm. fengið greidda pólitíska áhættuþóknun, sem með réttu nafni má kalla „hræðslupeninga“, fyrir að gæta hagsmuna h/f Kveldúlfs og Jensenssona í pólitísku lífi hér á landi nú um nokkurra ára skeið.

Af þessu virðist mér ljóst, að Framsfl. hefur aldrei verið alvara að gera neitt í dýrtíðarmálunum, t.d. að leggja á 10–15% sérstakt útflutningsgjald.. Enda þótt fyrrv. hæstv. viðskmrh. hafi haldið því fram, að slíkt hafi verið orðað í fyrrv. ríkisstj., hefur hann eða hans flokkur aldrei haft við orð að láta slíka neitun Sjálfstfl. valda stjórnarslitum. Hins vegar lét Framsfl. það valda stjórnarslitum, þegar hæstv. Alþingi neitaði að fallast á kaupbindingarkröfur flokksins, og sýndi þar með, að það var þeirra hjartans mál að berjast gegn laununum, en ekki gegn dýrtíðinni. Það er þýðingarlaust fyrir Framsfl. að tala um, að jafngildi útflutningsgjaldsins náist í háum sköttum. Það er blekking. Þau félög, sem hefðu þurft að greiða þetta gjald, hafa samkv. tillögum Framsfl. í skattamálum 40% af tekjum sínum skattfrjálst. Þess vegna hefðu þau alltaf greitt a.m.k. 40% þess útflutningsgjalds, sem innheimt hefði verið.

Hvernig hefur þá framkvæmd þessara endemislaga orðin? Allir vita, að hún hefur orðið með mestu endemum. Skal ég ekki fjölyrða mjög um það hér, þar sem hv. 2. landsk. hefur sýnt fram á það mjög ljóslega. Ég vil þó nefna tvö dæmi. Mjólkursamlag KEA á Akureyri selur mjólk til Siglufjarðar. Mjólk þessi var hækkuð mjög á s.l. hausti. En á nýársdag eða 2. janúar er kaupendum þessarar mjólkur á Siglufirði tilkynnt, að enn eigi hún að hækka um 12 aura hver lítri. Enginn vissi til þess, að flutningskostnaður né annar kostnaður hefði hækkað, en um ástæður fyrir hækkuninni fékk enginn að vita. Eitt ákvæði brbl. var það, að allar innlendar neyzluvörur skyldu vera með sama verði og þær voru í des. 1941. Siglfirðingar álitu nú, að þar sem þeim var bannað að hækka kaup sitt og vitað var, að því ákvæði var fylgt, mundi þessu ákvæði einnig verða fylgt. Þessu var því skotið til gerðardómsins, en hann lét sér litið verða fyrir og úrskurðaði verð mjólkur á Siglufirði 12 aurum hærra en það átti að vera samkv. ákvæðum þessara I. Hitt dæmið er frá Akureyri. Félag verksmiðjufólks, „Iðja“, hafði samið við SÍS um nokkra hækkun á grunnkaupi frá áramótum, eða sem svaraði 5% hækkun og auk þess nokkrar kjarabætur aðrar. Þessu var skotið til gerðardómsins. Hann úrskurðaði, að kaupið skyldi óbreytt og kjarabætur, sem fengust með samkomulaginu, að engu hafðar. Slíkir úrskurðir eru ekki til þess fallnir að glæða réttlætiskennd manna, heldur til þess eins að sýna, að sá sterkari á alltaf að dómi þessara manna að hafa valdið. Síðan hefur það sýnt sig, að þessi sami dómur hefur úrskurðað ýmsum samstæðum og sterkum félögum kjarabætur, og skal það sízt lastað. Það er einnig upplýst, að gerðardómurinn hefur beinlínis orðið til þess, að kaup hefur hækkað hér á Suðurlandi, — og skal það sízt harmað. Eftirspurn eftir vinnu hefur verið mikil og þess vegna verið oft og einatt ekki spurt um kaup, heldur um það, hvort menn vildu vinna. Hins vegar telja menn sig að engu bundna við neitt samkomulag eða annað slíkt, þar sem ríkisvaldið hefur bannað, að nokkuð yrði um kaup og kjör samið, þ.e. bannað allar kjarabætur, sem hægt væri að ná með samningum milli félaga verkamanna og atvinnuveitenda. Engin 1. í þessu landi munu hafa verið brotin eins almennt og þessi l., ekki einu sinni áfengisl. Fyrrv. hæstv. forsrh. sagði þó í umr. um þau l., að ekki væri til neins að setja löggjöf, sem almennt væri brotin. Slíkt væri einungis til þess að skapa einnig virðingarleysi fyrir öðrum l. Skyldi þá setning þessara l., sem svo að segja hver maður, sem vinnu þarf að kaupa eða selja, brýtur, vera til þess fallin að kenna almenningi í þessu landi sérstaka virðingu fyrir lagasetningu almennt? Forsvarsmenn þessara l. hafa líka þegar séð, að tilgangi þeirra um stöðvun kaupgjaldsins verður ekki náð. Þess vegna hafa þeir ymprað á því, að þörf væri á öðrum l., til þess, eins og þeir orða það, að skipuleggja vinnuaflið í landinu, sem þýðir að skapa hér atvinnuleysi og minnka eftirspurn eftir vinnu. M.ö.o., að koma á nokkurs konar lögskipuðu þrælahaldi. Enn hafa þeir þó ekki þorað að sýna slíkt frv. Hins vegar hefur fyrrv. ríkisstj. gert einhverja samninga við setuliðsstj:, en í umboði hvers hún hefur gert slíka samninga og hvernig þeir eru, veit enginn enn. Á þessa samninga verður þó að líta sem utanríkissamninga, en slíka samninga hefur engin ríkisstj. heimild til að gera nema í umboði hæstv. Alþingis. Þess vegna eru slíkir samningar markleysa ein nema samþykki Alþingis komi til. Það er upplýst, að borgarstjórinn í Reykjavík hafi fengið bréf frá ríkisstj. þess efnis, að koma eigi í veg fyrir aukna notkun vinnuaflsins í þágu setuliðsins. Hér í þessari háttv. deild hefur verið gerð fyrirspurn um það til hæstv. ríkisstj., hvernig þessir samningar væru, en henni hefur ekki fengizt svarað. Skömm þeirrar ríkisstj., sem að þessari löggjöf stendur, er ærið nóg, þó að það komi ekki til viðbótar, að hún veiti erlendu valdi íhlutun um innanlandsmál, sem oss einum koma við, og æski aðstoðar þess til þess að takmarka vinnu, svo að þessum l. verði framfylgt. Hæstv. ríkisstj. verður að birta þessa samninga, þótt ekki væri til annars en að hrinda þeim grun, að hér sé ekki allt með felldu.

Framkvæmd l. hefur farið út um þúfur, ekki einu sinni nafnið hefur dugað þeim fram yfir fæðinguna. Gerðardómur var rangnefni, og því nafni hefur nú verið breytt í dómnefnd. Gerðardómsmennirnir munu síður en svo ánægðir með það hlutverk, sem þeir hafa orðið að inna af höndum, sem hefur verið að hafa l. að engu, ef sterk og samhent félög hafa verið annars vegar, eða ef sérstök atvinnugrein eða jafnvel ríkisstj. hefur þurft á að halda, — t.d. mun hæstv. ríkisstj. hafa greitt meira en taxtakaup fyrir kolavinnu, sem hún þurfti að láta framkvæma hér í Reykjavik —, en beita þeim til hins ýtrasta þar, sem veikari félög og samtök verkamanna eru annars vegar og minni eftirspurn eftir vinnu. Þessi framkvæmd 1. skapar því margfalt meira misrétti en áður hefur tíðkazt eða þekkzt hér á Iandi um kaup á ýmsum stöðum landsins og í ýmsum atvinnugreinum. Er fullyrt, að einn nefndarmanna, Vilhjálmur Þór bankastjóri, hafi þegar sagt af sér störfum og fleiri nefndarmenn muni í sömu hugleiðingum. Þess vegna ber að fella þetta frv. og afnema þessi l., sem ekkert megna annað en að auka virðingarleysi almennings fyrir störfum hæstv. Alþingis og þeim lagasetningum, sem frá því koma.

Það einkennilega fyrirbrigði hefur skeð, að þrátt fyrir það, þótt grunnkaup hafi stórhækkað hér í Reykjavík og grennd, sem er á allra vitorði, hefur vísitalan staðið í stað og nú seinast lækkað. Kemur þetta illa heim við þær fullyrðingar Framsfl., að grunnkaupshækkun sé aðalorsök dýrtíðarinnar. Að sjálfsögðu veldur ranglátur útreikningur vísitölunnar nokkru hér um. Hitt mun þó vera aðalorsökin, að strax eftir að brbl. voru sett, kom það í ljós, að þrátt fyrir bannið gegn kauphækkun mundi ólukkans vísitalan ætla að hækka. Hæstv. ríkisstj. greip því til þess að framkvæma nokkurn hluta heimildarl. frá 1941, sem hún hafði svikizt um að framkvæma meginhluta ársins I94I, þ.e. lækkun tolla á nauðsynjavörum og greiða úr ríkissjóði til þess að koma í veg fyrir hækkun ýmissa vara, t.d. mun hæstv. ríkisstj. greiða með koIum um 10 kr. á hvert tonn. Þessar ráðstafanir ásamt betra verðlagseftirliti hafa orðið þess valdandi, að tekizt hefur að halda dýrtíðinni í skefjum um skeið. Þetta hefði verið unnt að gera strax sumarið 1941 og það með betri árangri en nú. Þá vantaði viljann, en ill nauðsyn hefur hér kennt ýmsum mönnum betur en áður að skilja það, sem þarf að gera. Staðreyndirnar hafa því sýnt, að þessi l. eru óþörf og ranglát, að þau verða ekki framkvæmd, heldur brotin og þverbrotin af meginhluta þjóðarinnar. Ég skil ekki þá menn, sem halda áfram að stangast við staðreyndir og meta meir hollustu við vitlausar ráðstafanir forustumanna sinna heldur en heill alþjóðar og virðingu fyrir sjálfum sér og þeirri stofnun, sem þeir hér starfa á, hæstv. Alþingi, en það gera þeir hv. alþm., sem vilja knýja fram þessi ólög, sem eru engum til gagns, en öllum til ógagns.

Það hefur sýnt sig, að það er tilgangslaust að setja l. eða ákvæði, sem meginhluti þjóðarinnar brýtur, hvað þá þegar menn eru beinlínis neyddir til þess að hafa l. að engu, eins og þessi l. Það er til þess eins að skapa óvirðingu fyrir öðrum lagasetningum frá hæstv. Alþingi.