06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

3. mál, útsvör

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Ég hafði þegar við 1. umr. látið í ljós afstöðu mína til þessa máls og drepið á, hvers vegna ég gæti ekki fallizt á breytinguna. Er það í samræmi við skoðun mína, þegar málið lá fyrir allshn. á síðasta þingi, og ekki fjarri skoðunum annarra nm. þá, að ég hygg, þeir virtust vera mér sammála. Þá sögu hef ég rakið, hverjar ástæður lágu til þess í öndverðu, að skattstjóri Reykjavíkur varð að vera í niðurjöfnunarnefnd. Það hefur verið talin rétt stefna í kaupstöðum annars staðar á landinu, að formenn skattanefnda væru einnig formenn niðurjöfnunarnefnda, og er staðfest í 1. gr. þessa frv. Sýnir það bezt, hver nauðsyn það er og verður ætíð talin, að ein sé forstaða beggja og sami kunnugleiki notaður til fullnustu á báðum stöðum, og því verður ekki náð vel á neinn annan hátt en þann, að skattstjóri Reykjavíkur sé eins og hingað til í niðurjöfnunarnefnd bæjarins.

Þrátt fyrir ýmsar breytingar, sem gerðar hafa verið á þessari löggjöf síðan 1921, hefur aldrei verið hróflað við þessu ákvæði hennar. Ég er algerlega samþykkur þeirri stefnufestu, sem Alþingi hefur þar sýnt, og vil brýna fyrir hv. þm. að fallast ekki á neitt það í þessu máli, sem þótt hefði fjarstæða tengst af þeim tíma, sem ákvæðið er búið að standa í lögum.

Það má vera, að losa þurfi skattstjóra við þær miklu annir, sem á hann hlaðast þennan tíma árs og eru vafalaust umsvifameiri en þær urðu nokkurn tíma á tímabilinu 1921–1935. Starf hans eykst að sjálfsögðu með vexti bæjarins. En skattstofan hefur aukið starfslið sitt, ef ekki nákvæmlega að sama skapi og viðfangsefnin jukust, þá mjög í átt til þess, og vandkvæði ættu ekki að verða á því að létta hinum hversdagslegri störfum af skattstjóra, svo að hans yrði aðeins að úrskurða ágreining, sem rísa kann milli einstakra framtala og upplýsinga, sem rekast á. Ég fæ ekki annað séð en hverjum fullvinnandi manni í skattstjórastarfi ætti að vera mögulegt að inna þetta af hendi samhliða starfi í niður jöfnunarnefnd.

Ég held nú, að þessi höfuðrök hv. frsm. meiri hl. séu í raun og veru ekki eins þung á metum og hann vill vera láta. Enginn annar maður en skattstjóri hefur aðstöðu til að kynna sér eins vel framtölin og hann, hvað þá að eignast jafnmikla reynslu og hann fær við að starfa að þessu ár eftir ár. En samkv. frv. á að kjósa mann til þessa starfs fyrir eitt ár í senn, og kunnugir vita, að það þarf meira en ár til þess að fá nokkurn botn í starfi eins og þessu. Ef svo ætti að koma nýr formaður með hverju kjörtímabili, sjá allir, hvílikt vandræðaástand gæti af því sprottið. Þá er nokkur munur á, að utan Reykjavíkur er sami formaður bæjarstjórnarkjörtímabilið á enda, en hér, sem erfiðast er að verða starfhæfur án langrar reynslu, á að mega skipta um árlega.

Hins vegar er mér að fullu tjóst, að hv. frsm. meiri hl. talar f.h. flokks síns, sem hefur að sjálfsögðu ákveðið markmið með þessari breytingu. Þessi krafa er ekkert ný fyrir Sjálfstfl. Eftir 1930 mun það hafa verið allfast sótt að fá henni framgengt, en árangurslaust, — og hvers vegna? Vegna þess, að það er ekki alveg sama, hvernig farið er að því að jafna niður þeim fjárhæðum, sem bæjarstjórn leggur á skattþegnana á hverjum tíma. Þetta kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann minntist á álagningarstiga og útsvör fyrirtækja, t.d. í iðnaðinum, þar sem að miklu leyti getur verið um veltuútsvör að ræða. Það er vitanlegt, að veltuútsvör voru ekkert annað en neyðarráðstöfun, þegar ekki reyndist með öðru móti hægt að pína út úr skattþegnunum þá heildarupphæð, sem bærinn þurfti að fá. En tvær stefnur hafa að öðru öðru leyti uppi, önnur að dreifa útsvörunum seni mest á mjóu bökin, hin að leggja meginþungann á þau breiðu. Hin fyrri var lengi ofan á, eftir að 5 manna nefnd var tekin við niðurjöfnuninni og íhaldsmenn höfðu meiri hlutann. Þann tíma vill Sjálfstfl. innleiða aftur. Mig undrar nokkru meir, ef Framsfl. er samtaka honum um það.

Þegar Framsfl. og Alþýðufl. sigruðu við þingkosningar 1927 og ríkisstj. notaði aðstöðu sína til að skipa skattstjóra, leiddi af því breyting á niðurjöfnunaraðferðinni, breiðari bökin fóru að bera meira en áður. Stefnubreyting þessi, sem hinn nýi oddamaður olli, varð síðan að algerum straumhvörfum. Þó hef ég engan heyrt halda öðru fram, a.m.k. um núverandi skattstjóra, en hann væri fullkomlega neutral pólitískt, fullkomlega réttlátur sem embættismaður í þessu starfi sínu, þar sem hlutverk hans var að halda uppi jafnvægi milli hinna andstæðu stefna pólitísku flokkanna, sem fulltrúa áttu í nefndinni. Þetta hafa margir þeir sjálfstæðismenn, sem ég hef átt tal við, látið í ljós um hann ekkert síður en aðrir. (Fjmrh.: Hvað stóð um þetta í Alþbl. í vor?). Ég veit vel, hvað þar stóð, og það er annað mál, hvernig þá var í pottinn búið, og ummælin þar hrekja ekki það, sem ég hér hef sagt, og sízt fremur fyrir það að stundarástæður í því hlutverki yrðu ofraun, sem jafnvel reið e.t.v. heilsu þessa manna að fullu. Það er þessi stefna, sem gerði mig undrandi, og þó að Sjálfstfl. vilji koma þessari stefnu á, þá undrast ég það þó enn meir, að Framsfl. skuli fylgja þessari breyt. Af því að ég vil ekki ætla, að það séu orðin straumhvörf í skoðunum meðal kjósenda Framsóknar í þessum bæ, enda þótt margir þeirra séu orðnir meðeigendur í verksmiðjurekstri, þá er ég þess fullviss, að þessi breyt. er þeim mjög á móti skapi. Nú geri ég ekki ráð fyrir því, eftir fylgi okkar í d., að till mínar verði teknar til greina í þessu máli, geri ráð fyrir, að málið fari sína leið og breyt. verði eins og hún er hér hugsuð. Samt sem áður vil ég drepa á örfá atriði í breyt., eins og hún leggur fyrir.

Ég gerði fyrirspurn til hæstv. fjmrh. við 1. umr. um það, hvort hann legði þann skilning í frvgr., að heimilt væri eftir henni að kjósa einn mann sem 5. mann í niðurjöfnunarnefnd. Hann vildi af vissum ástæðum ekki úttala sig í þessum efnum, þar sem mér skilst, að úrskurðurinn heyri undir hann sjálfan. En ég vildi benda honum á, að gr., eins og hún er orðuð, er það sama og frv. það, sem verða átti að l. á haustþinginu. Þá var hægt að kjósa niðurjöfnunarn. eftir þeim breyttu l., alla 5 nm. Nú hefur svo til tekizt, að gr. er tekin orðrétt eins og hún var lögð fyrir haustþingið, eina breyt., eins og frsm. minntist á, er sú, að skrifstofustjóri skattstofunnar skal aðstoða við störf n. Þetta er eina breyt., sem komin er inn í frv. frá t.d. hausti. Ég skil það vel, að hv. frsm. hefur hér komið til skjalanna og bent á þetta sem möguleika til þess að leysa vandann í þessu efni. Ég held, að engum hafi dulizt, að samkvæmt gr., eins og hún var orðuð, þá var ætlazt til, að ráðuneytið kysi alla 5 nm. í einu, en ekki að kjósa fyrst 4 og einn á eftir. Nú er það vitanlegt, að með því að haga löggjöfinni eins og hér er gert, þá er tekinn sá möguleiki af andófsflokkunum í bæjarstjórn Reykjavíkur að fá 2 menn kosna. Að vísu má segja, að það gildi einu, hvort það eru einn eða tveir menn. En ég held, að samvizkan hafi eitthvað ekki verið góð, því að í rauninni viðurkennir Sjálfstfl. þetta óbeint, því að hann kýs einróma mann, sem ekki er talinn úr meiri hl., heldur úr núv. bandalagsflokki (Framsfl.), sem átti einn mann í bæjarstj., honum er gefinn annar maðurinn eða 5. maðurinn í niðurjöfnunarnefnd. Hinir flokkarnir, sem höfðu möguleika til þess að fá tvo menn kosna, þeir eru algerlega útilokaðir. Hér eru l. fullkomlega misnotuð. Ég er á móti því, að þessi breyt. verði gerð, tel hana til skaða fyrir hina efnaminni borgara þessa bæjar, tel l. eins og þau eru nú fram sett hafa verið misnotuð af núv. bæjarstj. — Ég skal svo ekki hafa ræðu mína lengri að þessu sinni.