06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

3. mál, útsvör

*Frsm. meiri hl. (Magnús Gíslason):

Ég hafði búizt við því, að það mundu koma fram frekari röksemdir í þessu máli. En það virðist svo, sem aðalrökin séu þau fyrst og fremst, að þetta ákvæði sé búið að standa lengi í l. og sé því engin ástæða til þess að hrófla við því. Þessi ástæða virðist heldur mæla gegn því, að ekki eigi að breyta ákvæðunum, því að því lengur sem l. standa, því líklegra er, að þau komist í ósamræmi við það ástand, sem skapast.

Það, sem gat verið skynsamlegt að gera fyrir 20 árum, getur verið mjög óheppilegt nú. Hvernig þetta ákvæði er komið inn í l., veit ég ekki, en það mun fyrst hafa verið sett 1923 samkvæmt l. frá 1921. Ástæðan fyrir því, að þetta var sett í l., mun vera sú, að framan af árinu 1926, þegar útsvarsl. voru sett, hygg ég, að ekki hafi verið heimild til þess í l. að veita niðurjöfnunarn. aðgang að framtölum manna, og þá gat það verið skynsamleg ástæða að láta skattstjóra vera form. n. Hann einn sat þá inni með þessa þekkingu.

Niðurjöfnunarn. hafði ekki aðgang að framtölunum 1926. Svo hafði þetta ákvæði orðið innlyksa í l. þangað til þetta stangaðist á við þær reglur, sem settar eru um þetta í öðrum kaupstöðum. Hv. 2. landsk. minntist á það, að þetta væri ekki ný krafa frá Sjálfstfl., og það er alveg rétt, því að það hefur verið óánægja, eins og eðlilegt er, með það, að Reykjavík hefur verið sett skör lægra í þessum efnum en allir aðrir kaupstaðir á landinu.

Hitt er það, að þessar till. hafa ekki fengið framgang fyrr en í fyrra. Þá leit svo út, eins og hv. 2. landsk. veit, sem þessar reglur yrðu settar og það jafnvel af þeim ráðh., sem þá fór með félagsmál, sem er flokksbróðir l . 2. landsk., því að það var fyrir hans tilstilli, sem allshn. var í fyrra falið að flytja þær. Ég skal ekki segja, að félmrh. hafi verið þetta sérstakt keppikefli, að málið næði fram að ganga í þinginu, en hins vegar lagði hann ekki beinlínis á móti því. Hv. 2. landsk. var að tala um það, að síðan skattstjóri varð form. niðurjöfnunarn., hafi það valdið straumhvörfum í niðurjöfnun útsvara hér í Reykjavík. Hv. þm. er kunnugri þessum málum en ég, en satt að segja veit ég ekki, á hverju hann byggir þessi ummæli. hað einasta, sem ég hef verið að halda fram í þessu máli, er það, að þessi skipun mætti ekki leiða til þess, að meiri hl. einnar bæjarstjórnar hefði ekki þau áhrif sem aðrir bæjarstjórnarmeirihl. hafa í landinu. Þetta er einmitt kjarni málsins. Þetta er það, sem um barizt, hvort það eigi að gera rétt Reykjavíkur minni í þessum efnum en annarra bæja.

Ég ætla ekki að fara að væna hv. 2. landsk. um það, að hann tali hér ekki í fullri einlægni um þetta mál, ég hef enga ástæðu til þess. En mér er nær að halda, að ef svo stæði á, að á flokkur, sem hv. þm. telur sig til, Alþfl., hefði meiri hl. í bæjarstj. Reykjavíkur, en Sjálfstfl. á sama hátt færi með völdin í landinu og skipaði skattstjóra til þess að vera form. niðurjöfnunarn., þá mundi það hafa þm áhrif, að hlutur Sjálfstfl. væri fyrir borð borinn í gegnum kosningu í niðurjöfnunarn. A.m.k. held ég, að Alþfl. mundi þá ekki berjast svo mjög á móti þessu frv. sem hann gerir nú.