20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Skúli Guðmundsson:

Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram styrk til hafnargerðar á Akranesi, sem nemi 3/5 kostnaðar við hafnargerðina. Og í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin fái heimild til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán, er hafnarsjóður á Akranesi kann að fá til þessarar framkvæmdar, og má þetta lán, sem ríkissjóður ábyrgist, nema 3/5 hlutum af kostnaðinum við verkið. Það er því ljóst af þessu, að til þess er ætlazt, að ríkissjóður veiti aðstoð til þess að koma upp þessu mannvirki á þann hátt, að hann leggi fram sem beint framlag nokkurn hluta kostnaðarins og veiti ábyrgð fyrir eftirstöðvunum, sem teknar yrðu að láni.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, að fyrir nokkrum árum var sú regla upp tekin að veita, eins og þarna er gert ráð fyrir, styrk, sem nemi 2/5 hlutum kostnaðar, en takmarka ábyrgð ríkissjóðs á lánum til slíkra framkvæmda við 2/5 hluta kostnaðar, þannig að viðkomandi staður yrði að leggja fram 1/5 hluta kostnaðarins við hafnargerðina án þess að fá nokkra aðstoð ríkisins með ábyrgð eða á annan hátt. Á síðara þinginu 1937 voru t.d. sett 1. um hafnargerð á Suðureyri við Súgandafjörð og önnur um hafnargerð á Hofsósi þannig, að ríkið lagði fram 1/5 hluta kostnaðar og ábyrgðist lán að hlutum.

Nú er það ekki ætlun mín að mótmæla því frv., sem hér liggur fyrir. En ég vil láta í ljós óánægju mína yfir því, að svo virðist sem meiri hluti þingsins sé horfinn af þeirri braut, sem farin var 1937 í þessu efni með því, að ríkissjóður væri látinn leggja fram 2/5 hluta kostnaðar, en ábyrgjast lán að 2/5 hlutum. Ég hygg, að það sé heppilegast að setja í frv. það ákvæði, að það komi nokkurt áhættufé til hafnargerðarinnar frá viðkomandi stað, þar sem höfn á að gera, og ég harma það, að í þessu frv. hefur verið vikið af þeirri braut.

Ég skal í þessu sambandi benda á, að þar sem ríkið leggur fé fram til bryggjugerða og lendingarbóta í ýmsum kauptúnum og sjóþorpum, þá er það venjan, að ríkissjóður leggi fram 1/3 hluta kostnaðarins við framkvæmdirnar, en hins vegar er ekki veitt nein aðstoð að öðru leyti, svo sem ríkisábyrgð fyrir láni, þannig að þessir viðkomandi staðir verða að útvega sér sjálfir fé fyrir 2/3 hluta af kostnaðinum við framkvæmdirnar án aðstoðar ríkisins. Nú ætti það að vera auðveldara fyrir kaupstaðina en smærri kauptún og sjávarþorp að leggja fram t.d. 1/5 hluta kostnaðar við hafnargerðir án þess að fá til þess aðstoð hins opinbera. Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína koma fram, að ég tel illt, að horfið hefur verið frá þeirri stefnu, sem upp var tekin árið 1937 í þessum efnum.