20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins út af ummælum hv. þm. V.-Húnv., þar sem hann talar um þá stefnu, sem tekin hafi verið upp 1937 í þessu, sem ég vil ekki andmæla hið minnsta, benda á, að einmitt ákvæðunum, sem felast í 2. gr. frv. og hann gerði að umtalsefni, þeim var breytt á reglulegu Alþ. 1941, þ.e.a.s. lánsupphæðinni, sem ríkissjóður ábyrgðist, sem hér er um að ræða, var breytt án þess að nokkru væri að öðru leyti breytt í ákvæðum þessarar gr. viðkomandi hafnargerðum. Og þar kemur fram miklu yngri þingvilji heldur en sá, sem hv. þm. V.-Húnv. vitnaði til, að fram hefði komið 1937. Annars skal ég ekkert andmæla þeirri reglu, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um. Ég get fullkomlega tekið undir það með honum, að þar sem slík verk eru á annað borð viðráðanleg með þeim hætti, að lagt sé fram án ábyrgðar þetta fé, þá er það náttúrlega ekki nema gott, að svo sé gert. En hins vegar er það, að ef nauðsyn er á því að leggja í framkvæmdir eins og hafnargerðir, en þær framkvæmdir svo verða að stranda á þessu atriði, þá getur það verið varhugavert út af fyrir sig. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að það, hvernig farið verður að í þessu atriði að því er Akranes snertir, muni ekki hafa nein áhrif á framkvæmdir þær, sem hér er um að ræða, er fyrir liggur að gera á Akranesi, þó að ég geti ekki sagt um það til hlítar. En ég vil aðeins benda á, að reglunum í þessum efnum var breytt og tekin upp önnur stefna 1941.