20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. tók fram, að það var eiginlega búið að breyta um stefnu í þessu áður. En það raskar náttúrlega ekki því, að það, sem hv. þm. V.- Húnv. sagði, á að sjálfsögðu fullkominn rétt á sér, að ábyrgðarheimild verði ekki á allri upphæðinni, sem viðkomandi kaupstaður á að leggja fram til hafnargerðar. Ég vil þó, að því er Akranes snertir, taka það fram, að tekjur hafnarinnar á Akranesi, og þar af leiðandi geta kaupstaðarins til að standa undir skuldbindingum sínum vegna hafnarinnar, eru óvenjulega miklar. Sérstaklega vil ég í því sambandi benda á, að í 11. gr. frv. er höfninni ætlað meðal annarra tekna að fá 1% af andvirði afla þeirra skipa, sem þar leggja upp, en það er tiltölulega mjög mikill fiskifloti, sem notar þessa höfn, og hún er að mestu leyti útvegshöfn. Þar leggja upp, auk smærri báta, línuveiðarar og togari. Og það er sennilegt, að höfnin muni hafa mjög miklar tekjur af þessum lið. Þar af leiðandi hygg ég, að það verði ekki véfengt, að ábyrgð yrði á láni til þessa staðar mjög svo áhættulítil.