20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Skúli Guðmundsson:

Það út af fyrir sig raskar ekki því, sem ég hélt fram, þó að Alþ. 1941 hafi að einhverju leyti vikið frá þeirri stefnu, sem tekin var upp fyrir nokkrum árum um að takmarka ábyrgð ríkissjóðs við 2/5 kostnaðar, sem tekið var upp 1937.

Út af því, sem hv. frsm., 5. þm. Reykv., sagði um tekjur Akraneshafnar, vil ég aðeins benda á það, að einmitt fyrir það, hvað þar er um miklar tekjur að ræða og yfirleitt mikil viðskipti á þeim stað, þá ætti það að vera auðvelt fyrir hafnarsjóð Akraness að koma upp þessu mannvirki, þó að hann yrði að leggja fram eða útvega á einhvern hátt 1/5 hluta af kostnaðarverði hafnargerðarinnar án þess að fá til þess beina aðstoð ríkisins.

Ég vildi leyfa mér að beina þeim tilmælum til hv. sjútvn., að hún tæki einmitt þetta atriði, sem ég hef hér minnzt á, til nánari athugunar fyrir 3. umr. málsins, hvort ekki væri rétt að haga þessu þannig, ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur í framtíðinni, að sett verði sem skilyrði fyrir slíkum stuðningi, að nokkurt áhættufé væri lagt fram af þeim stöðum, sem fá slíka aðstoð. Því að þótt það sé vafalaust rétt, að engin hætta sé fyrir ríkið að ganga í ábyrgð þá, sem hér í þessu frv. er um að ræða, getur það verið varhugavert að fara inn á þá braut eða halda áfram á henni, með tilliti til aðstoðar ríkisins til annarra staða síðar vegna hafnarmannvirkja.