06.03.1942
Efri deild: 11. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

3. mál, útsvör

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsaon):

En skal nú ekki þreyta umr. úr hófi fram.

Hv. fyrri þm. N.- M. stóð hér upp og hélt því fram, að ég hefði viljað gera lítið úr þeim mæta manni, sem nýlega var kosinn í niðurjöfnunarn. Það er algerlega rangt, að ég hafi borið brigður á hæfileika þessa manns, heldur sagði ég hitt, að hann væri ókunnugur í þessum bæ og þess vegna ólíklegri en margur annar flokksmanna hans til að starfa að þessum málum hér af nokkrum kunnugleik. Hins vegar gengur nú sú skoplega saga, að þetta hafi aldrei átt að lenda á þessum manni, heldur hafi það orðið fyrir hrapalleg mistök. Aftur á móti ætla ég ekki að spá í eyðurnar um það, hvor okkar verður fyrr sjálfstæðismaður. Ég býst við, að það verði líkt um okkur báða.

Hæstv. fjmrh. skal ég ekki svara mörgum orðum. Það er óþarfi. Hann þarf ekki að ætla sér að halda því fram, að hann hafi verið svo ljós í máli, að allir hafi skilið, hvað hann meinti. Og hvað sem hann álítur um minn sljóa heila, býst ég við, að þeir hafi verið fleiri, sem ekki áttuðu sig almennilega á því, sem hann sagði. Út af því, sem hann sagði um lýðræðisskipulagið, vil ég segja það, að þar er annaðhvort um misskilning eða hártogun hjá honum að ræða. Ég sagði, að ef meirihlutavald ætti undir öllum kringumstæðum að vera ríkjandi, þá þyrfti það ekki alltaf að eiga rétt á sér. Slíkt á sér stað hjá þeim, sem ekki vilja viðurkenna nema alræði eins flokks, en ég býst við, að við þurfum ekki að deila um, hver stigmunur er á þeim mönnum, sem við ræddum um, og þeim, sem hér eiga hlut að máli. Hitt vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það er hugsanlegur möguleiki, og hefur komið fyrir, að Sjálfstfl. hafi meiri hluta í bæjarstjórn með minni hl. kjósenda, og sá möguleiki er alltaf fyrir hendi. Það geta verið 3 eða 4 listar á móti. Sumir fá engan kosinn, og þó að þeir fái mann, þá geta alltaf farið forgörðum atkv., þannig að Sjálfstfl. hafi minni hl. atkv. í banum. Hvaða réttur er þá fólginn í því, að hann hafi meiri hl. í n., sem á að jafna niður þeim skattabyrðum, sem bærinn þarf að leggja á borgarana? Ég sé ekkert réttmæti í því. Og nú vita allir, að þetta er mikið tilfinningamál, hvort rétt er í sakirnar farið eða einum hlíft á kostnað annars. Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur þetta. En það, sem vakir fyrir mér, er, að minni hl. í bænum hafi ekki meiri hl. í niðurjöfnunarnefnd. Það er sannarlega ekkert lýðræði í því. Hins vegar viðurkenni ég, að það er rétt, að um margra ára skeið fékk Sjálfstfl. meiri hl., af því að andstöðuflokkarnir stóðu ekki saman um að kjósa á móti honum, 6 atkv. veittu báðum 4. mann. Annars er ég sannfærður um það, að það séu engar líkur til, að bæjarstjórnin verði þannig skipuð eftir kosningarnar 15. marz, að nokkur einn flokkur geti tekið meiri hl. Og þó að svo færi, að Sjálfstfl. næði 8 mönnum, því á hann þá að hafa 3 í niðurjöfnunarn. með minni hl. kjósenda? Jafnvel hæstv. ráðh., sem ég trúi að sé lýðræðissinni, getur ekki neitað, að rök mín hafa fullt gildi.