14.04.1942
Efri deild: 32. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

6. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með einni lítils háttar breytingu. Þó að þetta frv. sé í heilu lagi hafnarlög fyrir Akranes, er rétt að geta þess að þetta eru, í öllum aðalatriðum, nákvæmlega sömu lög og gilt hafa fyrir Akranes undanfarin ár.

Breytingar þær, sem gerðar eru, eru allar sama eðlis. Þær eru sprottnar af því, að nú er Akranes, sem áður var kauptún, búið að fá kaupstaðarréttindi. Þess vegna hefur orðið að breyta töluvert mörgum atriðum í hafnarlögum þess. Á meðan Akranes var kauptún og í sama lögsagnarumdæmi og Borgarfjarðarsýsla, þá heyrðu þau málefni, sem snerta hafnarlögin, undir sýslunefnd Borgarfjarðarsýslu. En þegar Akranes fékk bæjarréttindi, varð á þessu sú breyting, að nú heyra öll þessi mál undir bæjarstjórn Akraness. Af þessu var óhjákvæmilegt að gera þessa breytingu á hafnarlögunum, en að öðru leyti eru þau eins og þau voru áður.

Ég held, að óþarft sé með öllu að hafa fyrir þessu langa framsögu. Hv. þdm. skilja, hvað hér liggur fyrir, og ég vona, að þeir hafi enga ástæðu til þess að mæla á móti þessu, sem er, eins og ég hef áður getið, sjálfsögð og óhjákvæmileg breyting.