20.05.1942
Neðri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (680)

137. mál, hreppamörk Borgar- og Stafholtstungnahreppa o.fl.

*Bjarni Ásgeirsson: Mér finnst ekkert undarlegt, þó að Stafholtstungnahreppur leggi fram mótmæli gegn þessu frv., þar sem hreppsbúar eru mótfallnir breyt. á hreppamörkunum. Þessu máli var hreyft áður, en ég veigraði mér ávallt við að flytja það, af því að þá átti Stafholtskirkja landið, en fyrir nokkrum árum eignaðist Borgarhreppur þetta land. Málið var tekið fyrir á sýslufundi Mýrasýslu og reynt að koma á samkomulagi milli hreppanna, en þar sem það tókst ekki, fór fram atkvgr., og var þetta samþ. með 8:1 atkv. Þegar svo hreppsbúar Borgarhrepps sendu mér málið, þá sá ég ekki ástæðu til að neita þeim um að flytja það, þegar sýslunefnd var næstum á einu máli um breytinguna, og af því mátti álykta, að fylgi málsins væri mikið. Þegar svona mál koma upp milli hreppa, heldur auðvitað hver í sinn málstað, og ég skil vel mótmæli Stafholtstungnahrepps. En mér finnst sanngjarnt, að Borgarhreppur fái sitt eigið land inn í hreppinn.