14.04.1942
Efri deild: 32. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

21. mál, lendingarbætur á Stokkseyri

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Það er um þetta mál að segja, að það kom fram í hv. Nd. og er flutt af þeim hv. þm. Árn. Frv. var þar samþ. með 2 litlum breyt. frá því, sem það var flutt, og er svo hingað komið.

Sjútvn. hefur athugað frv. og borið það saman við lög, sem eru nokkurn veginn samhljóða að efni, um lendingarbætur, sem eru þegar nokkur til, en það er í flestum atriðum samhljóða.

Hér er farið fram á, að veitt skuli allveruleg upphæð úr ríkissjóði til lendingarbóta á Stokkseyri, gegn jafnmiklu framlagi frá kauptúninu eða annars staðar að.

Við höfum leitað álits vitamálastjóra, sem hefur með höndum rannsóknir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um svona mál, og hefur hann tjáð okkur, að þær framkvæmdir, sem næst liggi fyrir að gera, eftir að slík heimild sem þessi er veitt, sé að bæta innsiglinguna á Stokkseyri. En eins og kunnugt er, eru mikil þrengsli í sundunum fyrir utan, og þegar sjór er úfinn, eru þau allhættuleg, einkum þegar umferð skipa er mikil, og er hér um að ræða talsverða peninga til þess að breikka leiðina og enn fremur til að dýpka hana. Þetta er tvímælalaust talið nauðsynlegt, ekki einungis vegna þorpsbúa, til þess að geta stundað sinn sjávarútveg, heldur líka vegna þess, að Stokkseyri er farin að verða staður, sem hefur að sumarlagi náið samband við Vestmannaeyjar á sjó, og svo náttúrlega með bílum landleiðina til Reykjavíkur. Til þess að gera þessar samgöngur nokkru öruggari en nú er, er nauðsynlegt að gera umbætur á skipaleiðinni um sundin.

Um frv. sjálft þarf ekkert að segja. Eins og ég gat um áðan, er það sniðið eftir öðrum lögum um sama efni, og hefur sjútvn. þessarar hv. d. ekkert við það að athuga, hvorki orðalag né efni. Hún leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, og mæli ég með því, að það fari svo í gegnum þessa hv. d.