08.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (731)

57. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þetta frv. fer fram á að framlengja l. frá 1928 um, að Eimskipafélag Íslands skuli ekki greiða tekju- og eignarskatt árinu 1929 og 1930. 2. gr. er um það, að það skuli ekki borga ústvar nema 5% af nettó ágóða. 3. gr. er um það, að gegn þessum fríðindum skuli það vera skylt til að flytja 60 menn með skipum sínum milli landa, helming á 1. og helming á 2. farrými.

Mér er nú ekki fullljóst, fyrir hvaða ár undanþágan á að gilda. Er það árið, sem tekjurnar urðu til á, eða árið sem skatturinn og útsvarið greiðist á? Skattur fellur í gjalddaga, svo sem kunnugt er, ári eftir að tekjurnar falla til. Nú er ákveðið um undanþágu frá greiðslu tekju- og eignarskatts árin 1941 og 1942. Er þá meint með því, að eigi skuli greiða skatt af tekjum ársins, 1940 eða 1941 og eins, er snertir árið 1942, er þá átt við, að eigi skuli greiða skatt af tekjum þess árs, eða ársins 1941? Mér er ekki vel ljóst. hvað átt er við, og óska á því skýringa.

En alveg burtséð frá þessum athugasemdum, þá álít ég, að engin fríðindi um undanþágu frá skattgreiðslu eigi að eiga sér stað hjá einum fremur en öðrum. Ég hef alltaf talið, og tel enn að Eimskipafélag Íslands eigi ekki að njóta neinna fríðinda eða ívilnana fremur en aðrir að þessu leyti.

Hins vegar væri sök sér að láta Eimskipafél. fá þessi fríðindi, ef því jafnframt væri gert að skyldu að ákveða t.d. farmgjöld á nauðsynjavöru í samráði við ríkisstj. Hins vegar mun, eins og nú standa sakir. ástæða til þess að líta á það atriði. hvort Eimskip hafi ekki haft aðrar tekjur en beinlínis stafa af rekstri þess sem Eimskipafélags Íslands. Það hefur annazt rekstur leiguskipa, og það hefur skapað sér ekki óverulegan gróða í gegnum kaup og sölu, sem ekki mun beinlínis vera viðkomandi rekstri þess og starfsemi. Margt kemur því hér til greina.

Ég vil ekki láta Eimskipafélag Íslands njóta neinna fríðinda fram yfir aðra í þessu landi, og mun ég greiða atkv. gegn þessu frv. Og það á ekki hvað sízt að greiða skatt, af því að það er farið að fást við skipamiðlun o.fl., sem gefur því miklar tekjur, en er óviðkomandi venjulegum rekstri þess. Þó að það færi að reka togaraútgerð, þá þyrfti það ekki að greiða skatt. Ég er algerlega á móti frv.. a.m.k. í þessu formi.