16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

3. mál, útsvör

*Frsm. meiri hl. (Magnús Gíslason):

Herra forseti ! Ég sé ekki ástæðu til að ræða sérstaklega um frv. sjálft, ,því að fyrir því var gerð grein við 2. umr. og þeim ágreiningi, er var í allshn. um það. Ég læt því útrætt um það að mestu og sný máli mínu að brtt. þeim, er fram komu við 3. umr. og var vísað til allshn. Allshn. hélt fund um málið og fékk á fund sinn einn flm. brtt., sem ég geri ráð fyrir að sé í bæjarstjórn Siglufjarðar, enda munu brtt. þaðan runnar. N. fól mér að athuga brtt., og það hef ég gert, en ég hef ekki borið álit mitt undir meðnm. mína. Það, sem ég segi hér, er því aðeins álit mitt. Þá er það fyrst formhlið málsins. Í brtt. á þskj. 44 stendur, að útsvarsskyldur skuli vera ýmis atvinnurekstur, og er þar nefnt hvalveiði, síldarkaup, síldarsala, síldar verzlun o.s.frv.

Ég hygg hér eitt atriði vera á misskilningi byggt, því að í c-lið 9. gr. gildandi útsvarsl., sem brtt. eru teknar eftir, er ekki minnzt á síldarverzlun, heldur síldarverkun, enda er hitt meiningarleysa, þegar búið er að minnast á síldarkaup og síldarsölu. Mér var að detta í hug, að hér væri um prentvillu að ræða, sem vel mætti leiðrétta.

Við 3. umr., þegar þessar brtt. voru til umr., var bent á af 1. þm. N.-M., að rétt v æri að fella niður c-lið 9. gr. gildandi útsvarsl., ef brtt. yrði samþ. Þetta höfðu flm. til athugunar og gerðu ráð fyrir, að þessi liður félli niður. En ef þetta er fellt niður, þá finnst mér meira þurfa að fella niður, t.d. 1. lið a í 9. gr. Í 1. gr. brtt. stendur, að leggja megi útsvar á mann þar, sem hann hefur unnið 8 vikur. Í 9. gr. segir, að skipta megi útsvörum milli sveita. Hér er um hliðstæð ákvæði að ræða, sem geta valdið ágreiningi millí gjaldenda annars vegar og niðurjöfnunarn. eða sveitastjórnar hins vegar. M.ö.o., ef brtt. yrðu samþ., þyrfti líka að fella niður 1. tíð í 9. gr. Það geta líka verið fleiri atriði í 9. gr., sem breyta þarf, ef brtt. verða samþ., en ég hef ekki talið ástæðu til að gera till. í þá átt, — því að ég er á móti brtt. í heild.

Ég mun þá víkja að efnishlið málsins. Brtt. á þskj. 44 sýnist hin meinleysislegasta, þegar fljótt er á litið, en hún er þó róttækari en við fyrstu athugun sést. Í gildandi útsvarsl. er slegið föstu, að ekki megi leggja útsvar á mann utan heimilissveitar nema hann reki þar fastan atvinnurekstur. Mönnum er sem sagt heimilt að reka atvinnurekstur utan sinnar sveitar, en til þess að atvinnusveitin verði ekki hart úti, þá er heimilt að skipta útsvarinu eins og tekið er fram í 9. gr. l. Verði því þessar brtt. samþ., þá verður vikið frá reglunni í stórum stíl. Í a-lið brtt. á þskj. 44 segir, að leggja megi útsvar á mann þar, sem hann hefur stundað atvinnu í 8 vikur eða meira. Athugum nú, hvenær þessi löggjöf var sett. Hún var sett árið 1926, en þau l. voru felld úr gildi vegna þess að þau þóttu sundurleit. Enda var eftir þeim hægt að leggja útsvar á mann, hvar sem hann nam staðar á landinu í atvinnuleit. Árið 1926 á Alþ. var þetta aðalágreiningsatriðið, en svo varð sú skoðun ofan á, að ekki mundi rétt að hafa þetta lengur, og varð það þá að aðalreglu, að ekki mætti leggja útsvar á mann nema þar, sem hann ætti heima, þó með undantekningum annars staðar, svo að atvinnusveitin yrði ekki of hart úti.

Næst er að athuga, hvort aðstæður séu orðnar svo breyttar hér á landi, að hverfa beri frá þessari reglu. Ástæðan fyrir því, að þetta ákvæði var sett, var missætti það, er skapaðist fyrir atvinnurekendur. Það, sem gerði, að meira bar á því hér á landi en annars staðar var, hversu menn þurftu oft að skipta um stað við atvinnu sína. Menn fara úr kaupstöðum í sveitir um sumarmánuðina, og sjávaratvinnuvegurinn er síundaður eina árstíðina fyrir Norðurlandi og aðra fyrir Suðurlandi o.s.frv. Þessar ástæður eru jafnt fyrir hendi nú og árið 1926.

Svo er annað, sem bætist við. Útsvarslöggjöfin er svo hér, að ekki eru neinar fastar reglur um, hvað leggja megi há útsvör á menn. Í öðrum siðuðum löndum eru þó einhverjar hömlur á því, hér engar. Reynsla undanfarinna ára hefur og sýnt, að niðurjöfnunarn. og sveitarstjórnir eru ekkert feimnar við að leggja mikil útsvör á menn, er koma í atvinnuleit. Ég sé við athugun ýmissa liða í brtt., að þeir geta komið allharkalega niður, ef þeir yrðu samþ. Í brtt. er talað um að leggja útsvör á síldarsölu, áður var í því sambandi aðeins um skiptingu útsvara að ræða. Ef t.d. bátur af Austurlandi, sem er á síldveiðum við Faxaflóa, legði afla sinn upp ýmist í Hafnarfirði, Keflavík eða Akranesi, þá gæti hann eftir þessum ákvæðum orðið útsvarsskyldur á öllum stöðunum, og það gæti skapað mikil óþægindi og útgerðin orðið hart úti í því. Svo að ég tali nú ekki um Norðurland, ef leggja ætti útsvör á báta á öllum þeim stöðum, sem þeir legðu þar upp afla sinn. Ég sé ekki ástæðu til að gera síldarkaup útsvarsskyld, því að l. gera ekki ráð fyrir, að kaup á vörum komi undir útsvör. Svo er að athuga, hvort atvinnusveitirnar verði svo hart úti í því að hafa utanaðkomandi menn við atvinnurekstur, að nauðsyn beri til að breyta l. Ég sé ekki, að svo sé, því að ákvæðin um skiptingu útsvara eru svo rúm, að atvinnusveitin getur á þann hátt fengið það útsvar, sem hún mundi fá, ef sanngjarnlega væri lagt á. Enn fremur er yfirskattan. skylt að lækka útsvar þeirra manna, sé útsvarsstigim hærri í atvinnusveitinni heldur en í heimilissveitinni. Þetta veit ég, að er notað af sveitarfélögum.

Ég þekki talsvert vel til starfa yfirskattanefndar hér í Reykjavík og veit, að á tveimur síðustu árum hefur ekki komið nein krafa frá Siglufirði um skiptingu á útsvörum. Árið 1939 kom krafa, en síðan ekki. Sem sagt, ef atvinnusveitin notar sér þessar reglur, þá má hún vel við una, og ég sé því enga ástæðu til að breyta þessari löggjöf, á meðan ákvæðin eru jafnrúm og raun ber vitni um.