07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

27. mál, rafveitur ríkisins

*Frsm. (Emil Jónsson):

Eins og segir í grg. þessa frv., er þetta alveg shlj. frv., sem fór í gegn til 3. umr. í þessari hv. d. fyrir 3 árum. Þá kom það fram skv. ósk ríkisstj. og var samið af sérstakri nefnd, sem starfaði árið 1937. Þá var þetta mál rætt hér í þessari deild, og þarf ég raunar litlu við að bæta. En ég vil benda á, að þessi mál skiptast raunverulega í 3 hluta eða 3 þætti:

1. Sjálf orkuframleiðslan við orkuverin;

2. neyzluveitan (heima í héraði);

3. háspennulínukerfin.

Þessar framkvæmdir eru greinilega aðskildar og allsendis óskyldir aðilar hafa með höndum framkvæmd hvers þáttar út af fyrir sig.

Raforkunefndin, sem starfaði 1937, áleit það heppilegt, að ríkissjóður tæki að sér stærri dreifingu frá orkuverunum til háspennuveitnanna. Þetta er heppilegt vegna þess, að tíðast er hér um svo stór fyrirtæki að ræða, að einstakir hreppar og sveitarfélög standa ekki undir rekstri þeirra, eins líka með tilliti til þess, áð enginn hrepparígur kæmi þar til greina.

Iðnn. er sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með mjög smávægilegum breyt., mest breyt. á orðalagi, og það er þá fyrst við 4. gr. Lagt er til, að 1. setningin verði felld niður og gr. orðuð um skv. því.

Það er í samræmi við anda l. að öðru leyti, og þess vegna er ekki um grundvallarbreyt. að ræða. Þá hefur niðurlagi greinarinnar verið breytt lítils háttar, en það er aðeins orðalagsbreyt.

Við 7. gr. er líka gerð breyt., þar sem um er að ræða skilgreiningu á, hvað skuli telja með rekstrarkostnaði rafveitna. Í gr. eru teknar með afborganir lána, og er þá miðað við afborganir, sem svara til venjulegrar fyrningar. Það er t.d. óvenjulegt að telja það til rekstrarkostnaðar, ef stofnlán eru borguð niður mjög ört, og það er ekki sagt, að rafveita geti ekki borið sig, þó að hún gæti ekki svarað slíkum afborgunum. Þess vegna hefur þótt betra að þetta komi: „Tekjum rafveitna ríkisins skal varið til greiðslu rekstrarkostnaðar hinna einstöku raforkuvirkja, þar með talið stjórn, gæzla, viðhald, vaxtagreiðslur og hæfilegar afborganir lána, miðað við fyrningu, og er það til að undirstrika þetta.

Í 12. gr. er rafveitustjóra ríkisins falið að hafa umsjón með fallvötnum ríkissjóðs. Þar hefur n. lagt til að bæta inn í ákvæði um það, að rafveitustjóri leiti tillagna veiðimálastjóra um alla veiði í slíkum fallvötnum. Þegar vatn er virkjað, er nauðsynlegt að gera ráðstafanir um veiði, en það kemur ekki rafveitustjóra við. Þess vegna taldi n. eðlilegt, að farið yrði eftir till. veiðimálastjóra í því efni.

Síðasta breyt. er leiðrétting á prentvillu, sem hefur slæðzt inn í frv:

Með þessum breyt., sem ég tel allar smávægilegar, legg ég til, að frv. verði samþ., alveg eins og n. gerði á sinni tíð, þegar hún flutti þetta frv., af því að hún telur, að þetta geti orðið rammi utan um þær framkvæmdir, sem ríkisstj. eru heimilaðar með frv., að veita rafstraumnum frá orkuverunum til rafspennuveitnanna í kaupstöðum, kauptúnum og öðrum héruðum landsins, sem ekki hafa ástæður til þess að inna það af hendi.