16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

3. mál, útsvör

*Jóhann Jósefsson:

Ég skil, að þessi till. muni rekast á það, sem hingað til hefur verið venja um skiptingu útsvara, en býst þó við, að eitthvað muni verða samþ. svipað því, sem hér er lagt til. En mér finnst það á skorta, að þessi ákvæði séu nógu víðtæk. Hér getur verið um að ræða verzlun. með fleira en síld, t.d. fiskverzlun, og yrði hún þá að hlíta sömu lögum, ef horfið yrði að því að skattleggja atvinnurekstur utanhéraðsmanna. Þá skilst mér þetta ákvæði brtt. geti tekið til báta, sem leggja upp veiði til söltunar eða bræðslu á Siglufirði. Að vísu hefur hv. frsm. sagt, að ekki sé til þess ætlazt. að þetta eigi við það, er bátur selur veiði sína í verksmiðjur eða til söltunar. En æskilegt væri samt, að þetta væri tekið fram, svo að ótvírætt væri. Ég leyfi mér því að bera fram skrifl. brtt. í þessa átt. Till. mín er í tveim liðum og hljóðar svo: „Við 1. gr. a. 1. Á eftir orðunum „svo og ef rekin hefur verið verzlun“ komi: sala eða kaup á fiski eða fiskafurðum, o.s.frv. 2. Við liðinn bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Ákvæði þessi ná eigi til veiðiskipa, þótt þau setji afla sinn á land til söltunar eða í verksmiðjur, né til skipshafna eða annars verkafólks, sem starfar utan dvalarsveitar um stundarsakir.“ Og þegar ég segi hér „um stundarsakir“, á ég við vertíðarfólk, hvar sem er á landinu. sem hverfur frá heimili sínu um vertíð til þess að leita sér atvinnu. Ég tel, að ákvæði gr. eigi ekki að ná til slíkra manna. Ekki heldur til fiskiskipa, sem setja afla sinn á land til bræðslu eða söltunar, né áhafna slíkra skipa.

Leyfi ég mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.