27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (797)

110. mál, orlof

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég veit ekki. hvort þarf að svara þessari fyrirspurn hv. 1. landsk. þm. Það er svo venjulega um nefndarstörf, að nefndarmenn verða að byggja á þekkingu sinni um mál, sem þeir fjalla um. Og ég verð nú að segja, að ég, sem var einn í þessari n., að sjálfsögðu fyrir Alþýðusamband Íslands, tryggði á þekkingu minni í þessum efnum. Og við nefndarmenn höfðum í höndum öll þau ákvæði, sem stéttarfélög höfðu samið um snertandi orlof, og m.a. það félagið, sem mannflest er. Dagsbrún. Og þarna hef ég og við í n. tvöfaldað þær orlofsupphæðir. sem Dagsbrún hafði samið um, en fulltrúi atvinnurekenda í n. vildi binda sig við.

Um framkvæmd þessa máls, ef að l. verður, er það að segja, að orlof geta að sjálfsögðu minnkað á atvinnuleysistímum. En ég þekki þess dæmi, að menn fá orlof þá fyrir vinnu. Og spursmálið er það, að atvinnurekendur greiði 4% sem álag á útborgun kaups, sem gengur í orlofskostnað. En eitt atriði er það í frv., sem gerir þetta dálítið rýmra á atvinnuleysistímum. Það vill svo til, að nokkur hluti vinnu verkamanna, líka á atvinnuleysistímum, er unninn í eftirvinnu og helgidagavinnu, og þá skal taka þessa tíma líka til reiknings í þessu sambandi, eins og aðra vinnu. hað er svo til tekið í frv., að það skuli alltaf reikna alla tíma, sem verkamaðurinn vinnur, og verkamaðurinn á að fá greitt til orlofs út á alla þessa tíma, hvenær sem hann vinnur þá, og mundi þetta fylla upp vinnutímana á atvinnuleysistímum. En þetta er rýmra ákvæði heldur en til er í nokkurri löggjöf hinna fjögurra Norðurlanda. sem hafa með l. komið á hjá sér orlofum.

Nú geri ég ráð fyrir því, að þessu frv., eins og öðrum slíkum frv., sem snerta alþýðu manna, verði útbýtt til stéttarfélaganna og þeim gefist þar með kostur á að koma fram með gagnrýni sína á efni og e.t.v. orðalagi frv. En eins og ég tók fram í upphafi máls míns, er frv. þetta lagt fram að þessu sinni kannske eins mikið til þess að fá. það prentað og því útbýtt til almennings til betri athugunar fyrir næsta þing, eins og til þess að ég gæti búizt við, að það yrði samþ. nú, því að satt að segja hef ég ekki hugsað svo hátt, að þetta frv. næði fram að ganga á þessu þingi, svo seint sem það kemur nú fram á þinginu.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara fyrirspurn hv. 1. landsk. þm. Ég gæti bent á fleiri ákvæði í þessu frv., sem eru rýmri heldur en annars staðar á Norðurlöndum, t.d. um eftirvinnu á sjó, og skal samkv. frv. taka líka laun fyrir slíka vinnu til greina við útreikning orlofsfjár, sem greiða skal. Að þessu leyti er lengra gengið en annars staðar á Norðurlöndum, enda ættum við að geta komizt eitthvað lengra en þeir, sem rutt hafa brautina í þessu efni.