23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Árni Jónsson:

Ég heyrði ekki fyrstu umræðurnar, sem um þetta mál fóru fram hér í dag. En ég hafði hugsað mér að fara fram á það við hv. flm. málsins að fá málið tekið af dagskrá nú t.d. til morguns, svo að menntmn. gæfist betra tækifæri til að athuga það fullskipaðri. Ég tel, að það hvíli á mér sérstök skylda í þessu efni, því að það hefur verið litið svo á, að ég hafi átt að taka sæti í n. Þetta er að því leyti rétt, að ég átti rétt á sæti í þessari n., þó að það væri tilskilið, að breyt. yrði ekki á n. frá því í fyrra. Ég veit ekki, hvernig stendur á, að breyt. varð á nefndaskipuninni frá í fyrra. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta né gefa skýringar á því, hvers vegna ég vildi ekki taka sæti í þessari n. En ég hygg, að formaður þessarar n. og flm. þessa máls muni það; að ég skýrði honum frá því, þegar þetta mál kom fyrir n., að ég teldi mig ekki eiga sæti í n., og sagði ég honum jafnframt, að ég hefði lagt fyrir Sjálfstfl., hvort hann vildi ekki gangast fyrir því, að annar maður tæki sæti í n., og benti honum á að eiga tal um það við formann Sjálfstfl. En það lítur út fyrir, að það hafi ekki orðið.

Ég hef enga tilhneigingu til þess að tefja fyrir þessu máli. En úr því að maður er nú kominn í n. af Sjálfstfl. hálfu, hv. þm. Vestm. (JJós), þá álít ég, að rétt sé, að málið fari nú til menntmn. aftur til athugunar eftir að n. er fullskipuð. (JJ: Heyrði hv. þm., að ég lagði til, að málið væri tekið til umr. í n. milli 2. og 3. umr.?) Ég álít eðlilegra og sanngjarnara gagnvart þeim hv. þm., sem af Sjálfstfl. hálfu hefur tekið sæti í n., að málið fari nú venjulega leið til athugunar í n., áður en 2. umr. er lokið, svo að sá hv. þm. fái að fjalla um málið eins og hann hefði verið í n. frá upphafi. Auk þess er það fyrir okkur, sem ekki höfum fylgzt með gangi þessa máls meir en hvers annars máls, sem við verðum að fjalla um á þingi, ákaflega fróðlegt að vita, hvað íþróttakennarar og Íþróttasamband Íslands hafa um þetta mál að segja. Þess vegna vona ég, að hv. flm. gangi inn á, að hér sé um sanngirnisósk að ræða, að umr. um málið verði frestað nú og það tekið af dagskrá, til þess að fulltrúa Sjálfstfl. í n. gefist kostur á að fjalla um það eins og öðrum.