23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

25. mál, íþróttakennaraskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki fara út í neinar umr. um Reykjavík og ekki Reykjavík. Og það er ekki af togstreitu, að ég talaði um, að heppilegt gæti verið að hafa þennan skóla hér í fjölmenninu. Því að um þau sérstöku skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi fyrir slíkan skóla sem þennan, er það að segja, að það er ákaflega mikið undir hælinn lagt á Suðurlandi, hvort hægt er að hafa skíðaíþrótt eða skautaíþróttir. Það getur náttúrlega komið stundum helluís á vatninu á Laugarvatni. En ef ætti að hafa skólann í sveit til þess að fá gott skíðafæri t.d., hvers vegna þá ekki að fara með skólann norður í Fljót?

Ég ætla ekki heldur að ræða um sundhöllina, því að við hv. flm. gætum karpað dálitla stund um það mál, og eins það sérstaka fyrirbrigði, hvers vegna þjóðhöfðinginn má ekki eiga heima í stjórnarsetrinu. (JJ: Hertoginn af Windsor er ekki í stjórnarsetrinu.) Ég ætla, að hann eigi nú dálítinn kofa í London líka.

Ég vildi skjóta því til n., að hún beri þetta frv. saman við íþróttal. sjálf. Mér hefur ekki unnizt tími til þess. Og ég ætlaði ekki að taka til máls nú, heldur tók til máls af því að ég hélt, að málið mundi fara til atkvgr. án þess að sagt væri neitt um það. Í íþróttal. er ýmislegt um þessi mál. Þar er t.d. mælt fyrir um það, hvað íþróttakennarar skuli læra. Það er tekið fram í 20. gr. þeirra l. Og við fljótlegan samanburð sýnist mér það, sem þar í l. er greint um það, ekki vera allt tekið upp í þetta frv. eða brtt. Þeir eiga að læra kennslufræði og kennslu, en þetta er ekki tekið fram í frv. Fleira, svo sem ákvæði um einmenningsíþróttir, sem er í l., sé ég ekki í frv. Mér virðist eðlilegt, að 20. gr. íþróttal. væri tæmd í þeim ákvæðum, sem hér væru sett um það, hvað kenna skuli í íþróttaskólanum.

Mér finnst alveg ófært, að n. leiti ekki álits og umsagnar þeirra, sem með íþróttal. eru settir yfir þessi mál. Það er skýrt fram tekið í 3. og 4. gr. íþróttal., að íþróttan. eigi „að vinna ásamt íþróttafulltrúa að því að koma skipulagi á íþróttamál í landinu.“ (4. gr. stafl. 2.) Það má nærri geta, hvort íþróttaskólinn heyrir ekki undir þetta ákvæði. Það nær engri átt, að þetta frv. verði ekki samræmi við l., sem sett voru 1940 um þessi mál. Þessir aðilar eru líka settir undir íþróttasjóð, og úr honum á m.a. að veita fé til íþróttaskóla og námskeiða. Mér virðist það liggja í bókstaf og anda íþróttal., að íþróttan. og íþróttafulltrúi eigi að fjalla um þessi mál. Íþróttafulltrúi er hér að vísu nefndur sem einn af þeim, sem hafi fjallað um þetta frv. Ég hefði viljað, að þetta mál hefði komið frá íþróttafulltrúa og íþróttanefnd. Ég vænti þess, að hv. menntmn. geri nægilegan samanburð á þessu frv. og l., svo að það rekist ekki á, og ráðfæri sig við rétta aðila í þessum efnum.

Hæstv. forsrh. kom hér, en eins og hann er vanur ekki nema snöggvast, og fór svo strax aftur út úr d., svo að við hann er ekki hægt að ræða nokkurt mál hér í hv. d. Hann sagðist vera samþ. þessu máli, og hann tekur það kannske á sína arma sem stjfrv. En skrítinn undirbúningur finnst mér það nú samt á stjfrv., ef einhver maður kemur til hans og spyr hann, hvort hann sé samþ. að flytja eitthvert ákveðið frv., og hann segir já við og þar með sé hans afskiptum lokið við undirbúning frv., því að hann ætti að sigta málið, áður en það kemur fram.