07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (808)

68. mál, tollskrá o.fl.

Flm. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Ásamt hv. 2. landsk. hef ég borið fram þetta frv. til breyt. á núgildandi lögum um tollskrá. Því fylgir nokkuð ýtarleg greinargerð, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér. Þó tel ég rétt að vekja með nokkrum orðum athygli á þeim breyt., sem yrðu á tollskránni með samþykkt þessa frv.

Það má segja, að tvær höfuðástæður séu fyrir frv., önnur er þörfin á að lækka verð á ýmsum nauðsynlegustu vörum, hin að vinna móti dýrtíðaraukningunni almennt, en það er kunnugt, að tollar með þeirri verzlunarálagningu, sem á þá hleðst, eru mikill dýrtíðarauki.

Þegar núgildandi tollskrá var samþykkt á Alþingi 1939, vakti ég athygli á því, að þar væru gerðar miklar breytingar til hækkunar frá því, sem verið hafði, hún væri miðuð við minnsta innflutning, sem verið hefði um langt skeið, en þá hafði sérstaklega verið reynt að draga úr innflutningi af tímabundnum gjaldeyrisástæðum, og er þær hömlur hyrfu, mundu tollar þeir, sem tollskráin tæki af almenningi, fara geysilega fram úr því, sem látið var í veðri vaka. Í samræmi við þá skoðun, — sem nú hefur sannazt —, fluttum við Alþflm. till. um breyt. á tollskránni, og í samræmi við það, sem fulltrúi Alþfl. í milllþinganefnd hafði lagt til. Vildum við lækka „skála“ hennar um 20%, þó þannig, að leyft væri að hækka hann aftur sem því nam — eða um 25% — fyrir eitt ár í senn, er brýna nauðsyn bæri til. jafnframt vildum við, að tollar á ýmsum nauðynjum yrðu lækkaðir að mun. Þetta fékkst ekki samþykkt. Í þeim umr. benti ég einnig á óréttmæti þess að taka toll af farmgjöldum, sem þá var sýnt að mundu hækka mjög af styrjaldarástæðum. Áður hafði tollur verið miðaður við fob: verð vörunnar á útflutningshöfn, en siðan 1939 við cif-verð hennar, þar sem farmgjald, vátryggingarkostnaður o.fl. hefur hleypt upp verði hennar. Það ákvæði fékkst sett í lögin, að ekki skyldi innheimta verðtoll af hækkuðu flutningsgjaldi vegna styrjaldarorsaka, og í heimild til hæstv. ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir var á síðasta aðalþingi gert ráð fyrir, að létta mætti tollum af nauðsynjum. Ekkert slíkt hefur verið gert, en fullur tollur tekinn af hinum geysilegu farmgjöldum og vátryggingargjöldum, og get ég ekkert um það sagt, hvað veldur.

Eftir undirtektum þá að dæma virtist okkur, að auðveldara mundi að taka einstaka vöruflokka út úr tollskrá eða lækka þá, en breyta ekki „skala“. Í frv. er ekki gert ráð fyrir, að tollur sé afnuminn á skömmtunarvörum: kornvörum, kaffi eða sykri, því að í frv., sem Alþfl. flytur í Nd. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, er lagt til, að þær vörur séu algerlega undanþegnar tolli. Það er gert í samræmi við ákvæðin, sem um þær nauðsynjar voru sett í heimildarl. á síðasta aðalþingi. En raunar hefði ég talið réttara að taka ákvæðin upp í þetta frv., og munum við flm., ef fylgi er fyrir því, taka til athugunar að breyta Frv. í þá leið, áður en það fer héðan úr hv. d.

Vörur þær, sem við viljum fella niður toll af, eru fyrst og fremst allt byggingarefni. Ekki verður um það deilt, hve mikil þörf er á að byggja í stórum stíl, einkum í kaupstöðum landsins. Byggingarefni er orðið mjög dýrt, og valda því bæði aukinn framleiðslukostnaður, gífurleg farmgjöld og vátryggingargjöld og álagning eftir því. Af flestum þeim vörum er tekinn 10% verðtollur af cif-verði, en álagninguna á þau 10% slyppu þeir einnig við, sem byggja, ef frv. gengur fram.

Þá er tollur af lyfjum og lyfjavörum. Sú tollalækkun létti á sjúkrasamlögunum, sem eiga flest erfiðan fjárhag, en mundu því ekki þurfa að hækka gjöld samlagsmanna, svo sem nú er gert.

Í þriðja lagi leggjum við til að fella niður toll af tilbúnum skófatnaði og efni til hans. Þessi tollur er hár, enda skófatnaður orðinn geysidýr. Hins vegar er ekki hreyft við tolli á vefnaðarvöru, því að hún mun að miklu leyti koma undir sérákvæði 18. gr. tollalaganna og tollur af henni ekki verða mjög tilfinnanlegur.

Þá er að fella niður toll af smíðajárni og öllu, sem þarf til viðgerðar skipa og annars slíks. Ef viðgerðir hafa verið unnar erlendis, hefur ekkert þurft að greiða af þeim í ríkissjóð og ekkert af skipum, sem byggð eru erlendis, ef þau ná vissri stærð. Innlendar viðgerðir og smíði eru hátt tollaðar, og það hefur skapað óviðunandi misrétti og legið þungt á útgerðinni. Við álítum ekki rétt að refsa mönnum fyrir að gera við skipin heima og íþyngja þessum iðnaði, enda er nú ekki hægt að fá viðgerðir annars staðar.

Loks leggjum við til, að tollur á nýjum og þurrkuðum ávöxtum, sem er 30% eða 50%, skuli lækkaður í 8%. Mönnum mun í fersku minni, hvernig fór um sölu og dreifingu n þeim ávöxtum, sem komu hér fyrir skemmstu og urðu svo dýrir, að mikill þorri fólks hafði ekki efni á að kaupa þá. Ég beld, að það sé orðið viðurkennt, að ekki eigi að torvelda innflutning þeirrar fæðutegundar, — það sé skylda löggjafans að gera ekki neinar ráðstafanir til að hindra hann eða gera ávextina óþarflega dýra.

Auðvitað má deila um, hvort ekki sé gengið fram hjá einhverju, sem enn brýnna hefði verið að lækka toll á. Að sjálfsögðu erum við flm. fúsir að ræða þau efni við hvern, sem er, og eins það, er breytt kynni að vera sú skoðun, sem fram kom á þingi 1939. að ekki mætti, lækka „skala“ tollskrárinnar.

Við c-liðinn í ákvæðum um stundarsakir leggjum við til að bæta því, að til 1. júlí 1943 skuli einungis innheimta verðtoll af andvirði varanna kominna um borð í skip á útflutningshöfn. Það er hin eldri regla, sem taka verður upp til að bæta úr ranglætinu síðan 1939. Við förum fram á, að þetta gildi aðeins eitt ár í bráð, þyki illa líta út með fjáröflun ríkisins að ári, má kippa að sér hendinni. Helmingur af cif.- verði þungavöru eins og sements er nú fólginn í farmgjöldunum og þá helmingur tolls og álagningar líka. Það munar um minni verðhækkun.

Í 10. gr. tollalaga eru ákvæði um, að innheimta skuli toll af farmgjöldum og vátryggingargjaldi, eins og það er á hverjum tíma og án tillits til þess, hvort það er greitt eða ekki. Nú veit ég, að ýmsir menn hafa tekið á sig þá áhættu að vátryggja ekki vörusendingar og hafa þó orðið að greiða toll af vátryggingarupphæð, þeirri sem engin var, eins og hún hefði orðið á hverjum tíma. Þetta tel ég ranglæti. Vátrygging nemur nú 4–10% af verði vörunnar, svo að um nokkrar fjárhæðir og talsverða vöruhækkun er þarna að ræða. Ef frv. okkar nær samþykki, kæmi slíkt ekki fyrir.

Ég held okkur sé óhætt að gera ráð fyrir allmiklum áhrifum til lækkunar á vöruverði, ef breyt. okkar ganga fram. Lækkun tolla er eitthvert öruggasta ráðið, sem beitt verður gegn dýrtíðinni. Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir því, að tolltekjur ríkisins urðu á síðasta ári tæpar 24 millj. kr. Meginhlutinn af þessari gífurlegu fjárhæð befur lagzt á skömmtunarvörur, byggingarvörur og annað efni til smiða. Ekki er hægt að gera ráð fyrir minnu en 20—30% álagning, svo að með henni nemur þetta 30–36 millj. kr. skatti á höfuðnauðsynjar almennings. Ef það er svo rétt, sem haldið er fram af hagfræðingum, að það kosti um 700 þús. kr.- eða ekki miklu meira að lækka dýrtíðarvísitölu um stig, er auðsætt, hversu gífurleg áhrif mætti hafa á dýrtíðina með þessum tollalækkunum. Lækkunin kæmi að vísu ekki eingöngu á þær vörur, sem ráða vísitölu, en verði þó mjög drjúg á metunum gegn þeim öflum, sem knýja fram hækkun hennar.

Af þessum höfuðástæðum væntum við, að frv. verði tekið með fullri velvild og viðurkenningu í hv. d. Ég óska, að málinu verði vísað til fjhn.