07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (809)

68. mál, tollskrá o.fl.

*Magnús Gíslason:

Ég þykist sjá, að frv. stefni aðallega í þá átt að gera tollfrjálsar ýmsar vöruteg., sem nú eru tollaðar, einkanlega byggingarefni og fleira. En það verður álitamál, hvort tollar, sem eru á þessum efnivörum, eigi að hverfa alveg. það yrði a.m.k. að teljast óeðlilega stórt spor að ganga svo langt. Ég vil fyrst og fremst beina því til fjhn., að hún taki tollskrárl. til athugunar um leið og hún athugar þetta frv.

Ég vil í sambandi við þetta mál minnast á það, að árið 1933 var gert viðskiptasamkomulag við brezku stjórnina, þar sem ákveðið var, að tollar af vissum vörutegundum mættu ekki hækka á meðan samningurinn gilti. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að samningur þessi gildir enn, en fyrir atbeina stj. hefur tekizt svo til, að brezka stjórnin hefur fallizt á að láta ákvæ3i þessa samnings ekki koma til framkvæmda á meðan styrjöldin stendur yfir. Um leið og þessi samningur fellur úr gildi koma ákvæði gömlu tollskrárinnar aftur í gildi, sem í sumum tilfellum eru hærri heldur en það, sem gilt hefur samkv. brezk-íslenzka samkomulaginu. Þá vaknar sú spurning, hvort ekki er nauðsynlegt að breyta þeim tollaákvæðum, hvort þau þykja ekki fullhá o.s.frv. Ég vil svo vænta þess, að hv. fjhn. hafi samvinnu við rn. um þessi mál.