27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

33. mál, sala á prestsmötu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Ég hreyfði því við 1. umr., að ég teldi, að vafasamt væri, hvort heimild væri til að láta prestsmötuna renna til kirknanna. Ég hygg, að í langflestum tilfellum hafi ærnar, sem gefnar voru, og leigan eftir þær er prestsmatan, verið gefnar til þess að leigan rynni til matar prestunum, og í samræmi við það er svo það, að hún rennur nú í þann sameiginlega sjóð, sem launar alla presta landsins. Nú skal ég viðurkenna, að ég er ekki svo vel að mér í kirkjusögu, að ég geti rætt um þetta af nægilegri þekkingu. Eru sjálfsagt aðrir t.d. betur til þess fallnir. Ég hygg, að það sé ekki eingöngu prestsmatan, sem hér um ræðir, sem svo er ástatt um, heldur einnig fleira, svo sem Maríulömb og Péturslömb, sem hefur verið lagt sem kvaðir á ákveðnar jarðir. En þegar ríkið fór að launa prestana, var sumt af þessu látið niður falla, það var gert með lömbin og líka t.d. kvöðina á Ferjubakka, þar sem átti í guðsþakkaskyni að ferja menn ókeypis yfir Hvítá fyrir kúgildisleiguna. Kvöðin var leyst af jörðunum, og bændunum, sem þær áttu, raunverulega gefinn höfuðstóllinn, sem kvöðin var vextir af. Þetta var ekki gert með prestsmötuna. Hún var látin halda sér. Nú hefur Alþ. oft fjallað um þetta áður, a.m.k. fjórum sinnum, og hefur þá verið rætt um, hvort prestsmatan ætti að ganga til kirkna eða launa presta. Hefur alltaf orðið ofan á, að hún skyldi ganga til að launa prestana, nema árið 1922, þá var gerð undantekning í sambandi við Grundarkirkju, af því að svo mikið hafði verið lagt í að gera þá kirkju sem veglegasta, að rétt þótti að gera undantekningu frá aðalreglunni og láta prestsmötuna þar ganga til kirkjunnar.

Nú er komin fram á ný sú skoðun, að láta þetta renna til kirknanna, og er sú skoðun rökstudd með því, hve mikil nauðsyn kirkjunum sé á fé til endurbyggingar, viðhalds og skreytingar. En hafa þeir góðu menn, sem halda fram þessari skoðun, gáð að því, að það er ekki nema brot af kirkjum landsins, sem fær prestsmötu eftir frv.? Allur fjöldinn af kirkjum stendur jafnilla að vígi, þó að þetta frv. verði samþ. Árið 1935 voru ekki eftir nema 77 jarðir, sem prestsmata hvíldi á, og á þeim öllum voru 6511/2 kúgildi. Eftirgjaldið, sem var greitt í smjörfjórðungum, gekk upp í heimatekjur prestanna, eins og upprunalega var til ætlazt, er kúgildin voru gefin. Síðan fyrst var byrjað að selja prestsmötu undan kirkjunum, hafa runnið í prestsmötusjóð um 80 þús. kr., en það eru ekki nema tiltölulega fá prestaköll, sem höfðu tekjur af prestsmötu og hafa misst hana við sölu. Síðan 1935 er búið að selja frá svo mörgum, að nú eru kringum 40 jarðir, sem prestsmata er eftir á. Tekjur prestlaunasjóðs hafa orðið um 80 þús. kr. eða liðlega það, og hann mundi samkv. frv. þurfa að endurgreiða það til rúmlega þriðjungs af kirkjum landsins, en hinar kirkjurnar fengju ekkert. Ég er ekki á móti því út af fyrir sig. að verja fé úr ríkissjóði til kirkna landsins, og hér er í raun réttri ekki um annað að ræða, en ég vil þá láta það ganga jafnt yfir og þær allar verða þess aðnjótandi. Og ég vil spyrja, hvort Alþ. hefur leyfi til þess, þar sem prestsmötur eru gefnar í því skyni að sjá um prestsþjónustu í viðkomandi kirkju, að taka það fé til viðhalds kirkjunum. Rétta leiðin er að hækka kirkjugjöldin.

Hér fyrir framan mig er skjal frá ríkisféhirði, sem sýnir, hvaða prestsmötur er búið að selja, og þar kemur í ljós, að það verður ekki bætt úr þörfum kirkjunnar almennt með þessu.