10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (865)

28. mál, ársskýrslur síldarverksmiðja ríkisins

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti! Þáltill. þessi, sem flutt er af mér og hv. m. N.-Þ., er um það að skora á ríkisstj. að koma því til vegar, að framvegis verði árlega prentaðar skýrslur um starfsemi og hag síldarverksmiðja ríkisins næsta ár á undan. Er til þess ætlazt, að í skýrslum þessum verði birtir efnahags- og rekstrarreikningar verksmiðjanna og frásögn um það, sem mestu máli skiptir um starf þeirra, svo sem nýjar framkvæmdir, afurðasölu, afurðaverð og uppbætur til framleiðenda, starfsmannahald, launagreiðslur, annan kostnað við verksmiðjureksturinn, starfsemi einstakra verksmiðja o.s.frv. Skýrsla þessi sendist alþm. og þeim, sem selt hafa verksmiðjunum síld eða afhent til vinnslu.

Síðan síldarverksmiðjurnar voru settar á stofn 1930, hafa þær stöðugt verið að færa út kvíarnar. Nýjar verksmiðjubyggingar hafa verið reistar, víðar en á einum stað. Verksmiðjur, sem upphaflega voru einkaeign, hafa verið keyptar. Síldariðnaðurinn hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum, bæði hjá þessu ríkisfyrirtæki og einnig fyrir aðgerðir einstakra manna og félaga, sem reist hafa síldarverksmiðjur. Við þetta hafa síldveiðarnar orðið sæmilega tryggur og arðvænlegur atvinnuvegur. Má í þessu sambandi benda á það, að samhliða endurbótum, sem orðið hafa á sölu saltsíldar, hafa verksmiðjurnar átt mikinn þátt í að hefja þennan atvinnuveg úr því ófremdarástandi, sem hann áður var í. Í l. um síldarverksmiðjur ríkisins er svo mælt fyrir, að reikningar þeirra skuli birtir með ríkisreikningunum, en þessum l. hefur ekki verið fylgt að öllu leyti. Síðasti ársreikningurinn er frá 1938, en reikningurinn fyrir 1939 hefur enn ekki verið birtur opinberlega. Mér er sagt, að rekstrarreikningurinn fyrir 1940 sé enn þá ekki fullgerður. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið úr reikningum síldarverksmiðjanna fyrir árið 1939, voru eignir þeirra að loknu því ári um 8,4 millj. kr. Af þessu er ljóst, að hér er um stórt fyrirtæki að ræða. Það hefur mikla þýðingu, ekki aðeins fyrir þá, sem hafa bein viðskipti við það, heldur einnig fyrir alla þjóðina, hvernig rekstur þess gengur. Nú er það svo, að þó að fylgt sé fyrirmælum í l. um birtingu reikninga síldarverksmiðjanna í stjórnartíðindum, eru ekki gefnar upplýsingar um einstök atriði viðvíkjandi hag þeirra og rekstri, sem ýmsa menn fýsir mjög að vita um, og vil ég nefna aðeins eitt dæmi. Verksmiðjurnar hafa verið þannig reknar, að þær hafa ýmist keypt síldina fyrir ákveðið verð eða tekið hana til vinnslu fyrir eigendanna reikning. Mér vitanlega hafa ekki verið birtar neinar upplýsingar um, hvor viðskiptavinur hefur borið meira úr býtum, sá, sem seldi síldina fyrir ákveðið verð, eða hinn, sem afhenti hana til vinnslu, fær fyrst áætlunarverð og uppbætur síðar. Þannig er um mörg önnur atriði snertandi rekstur þessara stóru fyrirtækja, sem eiga að vera rekin fyrir opnum tjöldum, svo að allir geti fengið þær upplýsingar um reksturinn, sem þeir kynnu að vilja fá.

Einhver kostnaður yrði vitanlega við þessa skýrsluútgáfu, en hann er svo lítill, að hann ætti ekki að verða því til fyrirstöðu, að slíkar skýrslur séu gefnar út. Þetta mál er svo einfalt, að ég tel víst, að hv. þdm. geti greitt atkv. um það nú, án þess að það fari til n. Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi kynnt sér svo vel efni till., að þeir geti fallizt á að samþ. hana nú þegar.