10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (866)

28. mál, ársskýrslur síldarverksmiðja ríkisins

*Finnur Jónsson:

Það er nú ekki nema gleðiefni, ef hv. þm. fara að fá almennari áhuga fyrir rekstri síldarverksmiðja ríkisins og síldariðnaðinum yfir höfuð heldur en verið hefur. Varla hefur verið minnzt á nokkuð viðvíkjandi síldarmálunum, sem hv. þm. hafi talið sér svo viðkomandi, að þeim hafi þótt taka því að hlusta á slíkar umr. Ég hef ekki nema gott eitt að segja um það, að till. þessi skuli vera fram komin, sérstaklega ef það gæti orðið til þess að vekja almennari áhuga fyrir þessum mikilsverða atvinnurekstri heldur en verið hefur.

Hvað snertir reikninga síldarverksmiðjanna fyrir árið 1939, þá mun það vera rétt hjá hv. frummælanda, að þeir hafa ekki verið birtir enn, en venjan er að birta þá með landsreikningunum. Ég skil ekki, af hverju þessi dráttur stafar. Reikningarnir fyrir 1939 sýna verulegan hagnað hjá verksmiðjunum, af því að þær keyptu þá síldina fyrir fast verð og síldarafurðir hækkuðu stórkostlega, þegar leið á árið.

Reikningarnir fyrir 1940 hafa orðið síðbúnir, vegna þess að sú stofnun, sem síldarverksmiðjurnar hafa rekið sín viðskipti við, hefur enn ekki skilað reikningum fyrir sölu afurðanna. Af þessu stafar sá dráttur, sem orðið hefur á rekstrarreikningum síldarverksmiðjanna fyrir árið 1940.

Hv. frummælandi taldi mikilsvert að fá að vita, hvorir bæru meira úr býtum, þeir, sem legðu síldina inn til vinnslu, eða þeir, sem seldu hana föstu verði. Um þetta er ekki hægt að segja með vissu, vegna þess að flest árin hafa verksmiðjurnar tekið síld fyrir vinnsluna og oft hefur ekki verið hægt að koma verksmiðjunum af stað, nema kaupa síldina föstu verði. Þess vegna held ég, að hv. frummælandi geti ekki nokkurs staðar fengið svör við sínum spurningum.

Nú er það svo með síldarverksmiðjur ríkisins, að þær ráða síldarverðinu. Ef þær eru vel reknar, þá eru þær keppinautar við aðrar verksmiðjur og geta orðið til þess að hækka verðið fyrir sjómönnum og útgerðarmönnum almennt. En ef þær eru illa reknar, þá verður það til þess að lækka síldarverðið. Alþingi þarf þess vegna að gjalda nokkurn varhuga við því að binda þessum fyrirtækjum of þunga bagga. En að því er mér virðist, þá hefur þess ekki verið nægilega gætt, að því er snertir síldarverksmiðjurnar. Stórar verksmiðjur eru ódýrari í rekstri en litlar. 1939 munaði þetta svo miklu, að ef kostaði 1.10 kr. að vinna málið í stórum verksmiðjum, þá kostaði það 2.40 kr. í litlum. Af þessu er augljóst, að síldarvinnslan þarf að vera rekin í nokkuð stórum stíl, til þess að hún borgi sig. Ýmsar smærri verksmiðjur, sem hafa verið byggðar, hafa ekki haft bolmagn til að keppa við þær stóru. Nú er ríkisstj. búin að taka upp þá stefnu að innlima þessar síldarverksmiðjur í síldarverksmiðjur ríkisins. Þetta hefur að sumu leyti verið gert samkv, lagaheimildum, t.d. með verksmiðjurnar á Sólbakka og Húsavík, en kaupin á Norðfjarðarverksmiðjunni eru framkvæmd af ríkisstj. í algerðu heimildarleysi. Ég get vel skilið það, að þeir, sem hafa hag verksmiðja einstakra manna fyrir augum, vilji gjarnan binda ríkisverksmiðjunum slíka bagga, til þess að geta tryggt sér síld fyrir lægra verð. En sé hugsað um útgerðarmennina og sjómennina, þá fær þetta ekki staðizt, og á ég sérstaklega við Norðfjarðarverksmiðjuna.

Í fjárl. fyrir 1941 var ríkisstj. gefin heimild til að kaupa síldarverksmiðjuna í Neskaupstað, ef viðunandi samningar tækjust, að dómi stjórnar síldarverksmiðja ríkísins. Þessi heimild var þannig takmörkuð til ríkisstj., að það átti að liggja fyrir dómur frá síldarverksmiðjum ríkisins um, að viðunandi samningar væru fyrir hendi um verð og greiðsluskilmála. Að öðrum kosti hafði ríkisstj. enga heimild til þessara kaupa. Nú hringdi ég til stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, sem hafði mál þetta nýlega til umr. á stjórnarfundi, og spurðist fyrir um það hjá formanninum, hvort nokkurn tíma hefði verið beðið um þessa umsögn af hálfu ríkisstj. Ég hafði ekki orðið var við, að slíkar beiðnir hefðu komið fram eða þeim verið svarað. Ég gerði þess vegna um þetta fyrirspurn, sem ég fékk bókaða í fundargerðabók stjórnar síldarverksmiðja ríkisins. Ég fékk það svar frá formanni stjórnarinnar, að einu sinni hefði atvmrh. skýrt honum frá því í símtali, að það stæði til að kaupa síldarmjölsverksmiðjuna í Neskaupstað til handa síldarverksmiðjum ríkisins. Hafði þá ráðh. spurt formanninn, hvernig honum litist á þetta mál. Formaðurinn svaraði, að um það mundu vera skiptar skoðanir. Stjórn verksmiðjanna fékk svo nokkru síðar bréf frá atvmrh., þar sem hann tilkynnti, að hann hefði keypt verksmiðju þessa fyrir 271 þús. kr. Jafnframt fól hann stjórn síldarverksmiðja ríkisins að taka við stjórn þessarar verksmiðju. Nú vill svo til, að það er ekki einasta, að verksmiðjan sé keypt án þessarar umsagnar, sem var þó skilyrði til þess, að kaupin gætu farið fram, heldur liggur fyrir álit frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins um, að þessi verksmiðja sé ekki hæf til síldarvinnslu. Þetta álit er í bréfi frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, dags. 6. jan. 1939, sem sent var til fjármálaráðuneytisins. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa þetta bréf upp í heilu lagi, en niðurstöðurnar, sem stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur komið að, eru þessar, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til framanritaðs er það eindregið álit vort, að það sé bezt nú strax að gera sér það ljóst, að ekki er hægt að starfrækja Norðfjarðarverksmiðjuna sem síldarverksmiðju á fjárhagslega tryggum grundvelli, því að bæði er verksmið jan of lítil, til þess að hún geti staðizt samkeppni við stærri verksmiðjur, og lega hennar þannig, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að hún fái nema lélegt, dýrt og ekki nægilegt hráefni til vinnslu. Að ríkissjóður yfirtaki verksmiðjuna með áhvílandi fyrsta og öðrum veðrétti eða fyrir eitthvað, sem vera kynni, að hún fengist fyrir, teljum vér með tilvísun til framanritaðs, að ekki geti komið til greina.

Aftur á móti virðist ekki nema heilbrigt og eðlilegt, að Norðfjörður eigi beinamjölsverksmiðju, sem vinni úr þeim fiskúrgangi, sem til fellur, og þeirri síld, sem bæjarbúar á Norðfirði kunna að afla fyrir Austfjörðum.

Það eru því till. vorar til hins háa fjármálaráðuneytis, að skuldir verksmiðjunnar verði að mestu leyti afskrifaðar og hún síðan fengin í hendur bæjarfélagi Norðfjarðar, hlutafélagi eða einstaklingi til rekstrar sem beinamjölsverksmiðja, fyrir ekki hærra verð en það, sem rekstur hennar í framtíðinni sem slíkrar geti staðið undir.

Um vélar Norðfjarðarverksmiðjunnar er oss ekki fullkunnugt, en það getur verið, að selja mætti sumar þeirra, sem ekki eru nauðsynlegar til rekstrar verksmiðjunnar, samkv. vorum tillögum, til annarra beinamjölsverksmiðja, en til síldarverksmiðja mun ekki vera hægt að selja vélarnar, því að til þess eru þær of titlar, að skilvindum undanteknum.“

Ég skal svo taka það fram út af skilvindunum, að þær voru ekki eign beinamjölsverksmiðjunnar á Norðfirði, svo að þau einu tæki, sem að áliti verksmiðjustjórnarinnar voru talin hæf til starfrækslu, fylgdu ekki með í kaupunum.

Það er efalaust gott fyrir ríkisstj. að fá heimildir frá Alþ., en það er sorglegt til þess að vita, að hún skuli misbeita heimildum á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Það má segja, að það sé ekki stórmál, þó að ríkisstj. séu veittar svipaðar heimildir sem þessar, en það er stórmál, ef ríkisstj. misbeitir þeim heimildum, sem henni eru gefnar af Alþ. til þess að gera þær lagfæringar á rekstri ríkisverksmiðjanna, að hann sé í því lagi, að verksmiðjurnar geti haldið uppi verði á síld til útvegsmanna og sjómanna. Og það virðist nokkuð langt gengið að gera síldarverksmiðjurnar ósamkeppnisfærar um verð, til hagsbóta fyrir verksmiðjur einstakra manna, eins og hér hefur verið gert.