25.03.1942
Neðri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Gísli Guðmundsson:

Ég hef ásamt hv. þm. Barð. leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., á þskj. 95. Þessi brtt. lýtur að kosningu varamanna í hreppsnefndir, þar sem kosið er óhlutbundnum kosningum.

Í núgildandi lögum um sveitarstjórnarkosningar, 27. gr., er svo ákveðið um kosningu þessara varamanna, að þegar úrslit eru kunn, byrjar kosning varamanna, og fer um hana á sama hátt. Ég býst við, að þessu ákvæði, um kosningu varamanna, hafi ekki alls staðar verið framfylgt, þar sem sums staðar hafa verið örðugleikar á því. En á ýmsum stöðum hefur því verið framfylgt þannig, að kosnir hafa verið varamenn, þó að hreppsnefnd hafi verið kosin óhlutbundnum kosningum. Nú er í gildandi lögum um sveitarstjórnarkosningar ákvæði um það, hvernig varamenn, undir slíkum kringumstæðum, skuli taka sæti í hreppsnefndum. En í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru slík ákvæði um varamenn í hreppsnefndum felld niður, þannig að ef frv., eins og það er, verður að lögum, þá eru engin ákvæði um það í lögunum, hvernig varamenn taki sæti í hreppsnefndum, sem kosnar hafa verið óhlutbundnum kosningum. Við flm. brtt. teljum, að nauðsynlegt sé, að ákvæði um þetta sé í lögunum, og höfum við lagt til, að ákvæðið verði á þá leið, að varamenn taki sæti í þeirri röð, sem þeir eru kosnir.

Í gildandi lögum er þetta ákvæði öðruvísi, en það verður að teljast mjög óeðlilegt, og er það sennilega af vangá, að það hefur verið sett þannig. Till. okkar gengur út á það að setja inn í frv. ákvæði um þetta efni, sem annars mundi vanta í lögin, og við höfum lagt til, að það verði með nokkuð öðrum hætti en í núgildandi lögum.