24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (890)

44. mál, varzla gripa úr Hólakirkju

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti! Það þarf ekki mörg orð til þess að skýra þetta mál fyrir hv. þdm. Í grg. er tekið fram það helzta, sem máli skiptir.

Hv. þdm. er ljóst, að um langan aldur hefur verið stefnt í þá átt að draga saman ýmsa muni og skartgripi, sem kirkjum tilheyra, til vörzlu á þjóðminjasafninu í Reykjavik. Yfirleitt má telja ráðstöfun þessa réttmæta, miðað við það, sem áður var, þar sem fjöldi slíkra hluta lá undir skemmdum. En nú hefur verið unnið að endurbótum á kirkjunni á Hólum í Hjaltadal, og væri eðlilegt, að kirkjan fengi að njóta þeirra gripa, og okkur flm. þáltill. finnst mjög réttmætt, að kirkjan geti fengið aftur þann svip, er hún hafði í öndverðu.

Ég vil undir strika það, að það hefur verið unnið að endurbótum á Hólakirkju að undanförnu, en þeim er að vísu ekki lokið enn. Mun hafa skort fé til þess. Þjóðminjavörður hefur séð um endurbætur þessar, og telur hann, að lítils eins muni enn við þurfa, til þess að þeim geti orðið lokið.

Ég vil geta þess, að það er gert ráð fyrir, að það verði á valdi þjóðminjavarðar að ákveða, hvaða muni úr kirkjunni óhætt væri að flytja í Hólakirkju, og hvaða muni hennar ekki væri óhætt að sinni að flytja norður.

Ég vænti þess, að hv. d. samþ. þessa þáltill., eins og hún liggur fyrir.