17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Erlendur Þorsteinsson:

Ég tel, að þetta frv. sé eða eigi að vera fram komið til þess að tryggja flokkum í bæjar- og sveitarstjórnum nægilega marga varamenn. Ég bendi á það, að enda þótt svo sé ákveðið í brtt. allshn., að varamenn skuli taka sæti flokksbræðra sinna, þ.e. taka sæti eftir flokkum, gæti auðveldlega farið svo, ef fleiri flokkar standa að einum lista, að enginn af varamönnunum væri af sama flokki og hinn forfallaði aðalmaður. Það sýnir sig í því, að í sjálfu sér eru ákvæðin um varamennina miðuð við lista einstakra flokka, eða utan flokka, en ekki við það, ef fleiri flokkar standa saman að einum framboðslista, því að samkv. frv. og brtt. gæti komið ruglingur á varamenn hvers eins flokks innan listans. Ég skal taka dæmi: Ef 2 flokkar bjóða fram saman og annar hefur stöku töluna, 1, 3 o.s.frv., en hinn jöfnu töluna, 2, 4 o.s.frv., og listinn fær 3 menn kosna, þá fær flokkurinn með stöku töluna 2 aðalmenn og 1 varamann, en flokkurinn með jöfnu töluna 1 aðalmann og 2 varamenn. Allir sjá, hver ruglingur á varamönnum gæti þarna átt sér stað. Ég tel það réttast og sanngjarnast og raunar sjálfsagt, að hver flokkur á framboðslista fái jafnmarga varamenn og aðalmenn kjörna, en þó minnst þrjá. M.ö.o., reglan um varamennina á að gilda fyrir hvern flokk, en ekki listann í heild, ef tveir eða fleiri flokkar bjóða fram saman á einum lista.

Að lokum vil ég beina því til hv. allshn., hvort hún vilji ekki taka þetta mál til nánari athugunar.