17.04.1942
Efri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Mér er ekki með öllu ókunn afstaða hv. síðasta ræðumanns. Hér virðist e.t.v. misrétti í fljótu bragði, en er það þó raunar ekki. Hlutfallskosningar eru við hafðar við sveitarstjórnarkosningar, og ef fleiri flokkar sameinast um einn lista, er þeim ljóst, áður en þeir ganga til kosninga, hvaða annmarka þeir telji á varamannafyrirkomulaginu. Það getur verið álitamál, hvort löggjafinn á að ýta undir þvílíkar flokkasamsteypur með lagasetningum. Ég álít það varla rétt.

„Tekniska“ hliðin á málinu skiptir þó meiru, því að það er óframkvæmanlegt, eins og lög standa til, þar sem gert er ráð fyrir, að hver listi eigi aðeins rétt á jafnmörgum varamönnum og kjörnum aðalmönnum.

Tökum t.d., að 4 flokkar væru um einn lista og 4 menn kæmust að, 1 af hverjum flokki, en t.d. ætti að kjósa 5. Þá þyrftu að vera minnst 16 menn á listanum, 4, sem yrðu kjörnir, og 3 varamenn fyrir hvern flokk. Það væri á móti anda laganna, þar eð ekki má vera meira á framboðslista en tvöföld tala aðalmanna, sem á að kjósa. Úr þessu mætti e.t.v. bæta með því að gefa hverjum lista rétt til fleiri varamanna en aðalmanna, ef út í það væri farið.

Að lokum vil ég segja það, að e.t.v. hefði verið æskilegt að taka fyrir fleiri breytingar á kosningalögunum en gert hefur verið í þessu frv. En þær breytingar eru nú alls óundirbúnar, og nú tekur að líða á þingtímann. Ég tel þetta þó alltaf nokkra réttarbót.