21.04.1942
Efri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég minntist á það við 2. umr. málsins, að vel gæti farið svo með þeim breytingum, sem hér eru gerðar á sveitarstjórnarl. og rétt er að gera, að flokkar, sem vinna saman í kosningum, fái ekki jafnmarga varafulltrúa hver flokkur eins og hann fengi, ef hann hefði einn lista. Það, að varafulltrúar skulu nú mæta skv. hinum nýju breyttu ákvæðum, einungis af sama pólitískum flokki, getur orðið til þess, að flokkur, sem haft hefur kosningasamvinnu við annan, fái ekki næga varafulltrúa og afleiðing þess verði sú, að hann missi fulltrúa uppbótarlaust. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt. á þskj. 222 um, að í stað þess, að varafulltrúar séu aðeins 3, skuli þeir frambjóðendur á lista, sem ekki ná kosningu, vera varamenn. Mér er kunnugt um, að á ýmsum stöðum hafa varafulltrúar verið kvaddir til fundarsetu eftir þeirri reglu, sem Ég legg til að hér sé lögfest. Ég hef borið brtt. undir nefndarmenn allshn., án þess að fundur hafi haft hana til meðferðar, og formaður hennar a.m.k. mun henni meðmæltur. Samþykkt brtt. mundi á engan hátt tefja fyrir málinu, þar sem það verður að fara til Nd. hvort sem er.