21.04.1942
Efri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég held, að þessi brtt. Sé til bóta. Þannig verður að skilja 33, gr. l., að varamenn geti tekið sæti svo lengi sem menn eru fyrir hendi á lista.

Ég veit, að á ýmsum stöðum hefur það verið praktíserað, sem hv. 10. landsk. gat um, og man ég sérstaklega eitt dæmi, þar sem flokkur hefði ekki með öðru móti getað haft fulla tölu bæjarfulltrúa sinna. Ég álít því mjög æskilegt að setja í frv., eins og það er nú orðið, ákvæði í þessa átt, og mun allshn. vera brtt. fylgjandi.

Þess gætir nokkuð, að formið á frv. er ekki sem ákjósanlegast, sem von er til, þegar búið er, eins og hér, að hnýta saman ýmis sjónarmið. Þó að sundurleitt sé, finnst mér ekki hægt nú að fara að sjóða það alveg upp, því að hitt held ég, að ákvæðin séu svo ljós, að þau varla verði misskilin.

Úr því að ég stóð upp, verð ég að minnast á aðferðina, sem nutuð er við að reikna út röð fulltrúa á listunum, vegna þess, að komið hefur í ljós, að afar litlar útstrikanir eða raðarbreytingar þarf til þess, að röðin raskist. Til þess að færa efsta fulltrúa í 2. sæti þurfa 4–5% að strika hann út eða raunar aðeins rúmlega 4%, þegar um er að ræða kosning 9 fulltrúa, en færri, ef kjósa skal fleiri fulltrúa. Til þess að færa þann fulltrúa á þeim lista í 3. sæti, þurfa 11% að strika hann út, en ef 15% gera það, lendir hann í 4. sæti. Sé hins vegar litið á 15 fulltrúa kosningu, nægja útstrikanir 4% til að færa efsta manninn í 2. sæti, 7% til að færa hann í 3. sæti, 10% til að færa hann í 4. sæti, 14% til að færa hann í 5. sæti, 16% til að færa hann í 6. sæti o.s.frv., eða aðeins lítinn hluta kjósenda listans til að fella hvern mann af listanum, sem lystir. Þetta geta hv. þm. sjálfir sett upp og reiknað, ef þeir hafa ekki hugleitt það áður. Þetta sýnist mér sanna það, að aðferðin er í raun réttri alveg ófær. Það nær ekki nokkurri átt, að 4% af kjósendum lista geti ónýtt þá uppstillingu, sem venjulega hefur verið mjög til vandað. Nú stendur að vísu svo á, að bæjarstjórnarkosningum er nýlokið. (PZ: Hreppsnefndarkosningar allar eftir.) Rétt er það, þótt í helmingi þeirra sé ekki beitt hlutfallskosningum. Ég hef ekki treyst mér til að bera fram brtt. í þessa átt, og er ekki vert að hrapa svo að því, að síðari villan kunni að verða verri hinni fyrri. Mér dettur t.d. í hug, að beita mætti sömu aðferð og við útreikning aðalfulltrúa, — deila í atkvæðatölu með 2, 3, 4, 5, 6 o.s.frv., — þm. þekkja aðferðina, og nægði þá 1/4 atkvæða til að breyta röð á lista. Það þætti mér sanngjarnt og gæti ekki fellt mig við að svipta kjósendur alveg rétti til breytinga. Má og vel vera, að önnur aðferð að reikna það út kæmi sér betur. Ég skýt þessu fram til athugunar fyrir hv. þdm.