21.04.1942
Efri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

45. mál, sveitarstjórnarkosningar

Bernharð Stefánsson:

Ég er ekki ánægður með það, að allshn., sem virðist hafa komið auga á stórgalla í lögum þessum, skuli ekki vilja rannsaka möguleika til að nema þessa galla burt. Nú eiga sveitarstjórnarkosningar að fara fram í vor, og verða í mörgum stöðum viðhafðar hlutfallskosningar. Gætu menn þá notfært sér þessa veilu í kosningal. og fáir menn ráðið því, hver lendir í sveitarstjórn. Það eru væntanlega allmargir dagar eftir af þessu þingi, að minnsta kosti, ef því er ætlað að ljúka störfum á eðlilegan hátt og afgreiða fjárlög, því að ennþá bólar ekkert á nál. fjvn. En þar sem allshn. hefur komið auga á þessa galla á kosningal., og alþ. virðist hafa nægan tíma til að athuga málið betur, þá finnst mér, að n. ætti að taka málið aftur til meðferðar og lagfæringar. Það hefur hvað eftir annað komið fyrir við kosningar, að örfáir menn hafa breytt röð á lista þannig, að efstu menn á listanum náðu ekki kosningu. Þess hefur verið getið í sambandi við þetta mál, að það hafi ekki haft litil áhrif á líf eins manns, sem er kunnur í landinu, að nokkrir menn höfðu strikað hann út. Þetta er nú ekkert aðalatriði, en það er mjög óheppilegt, að sárafáir menn geti haft þessi áhrif. Það kom líka fyrir í bæ einum við síðustu bæjarstjórnarkosningar, að nokkrir menn unnu til að kjósa annan lista en sinn eiginn flokkslista, til þess að fá tækifæri til að strika út efsta mann á lista andstæðinganna, og varð það til þess, að hann féll, þótt listinn kæmi 2 mönnum að. Mér finnst alls ekki úr vegi, að þetta mál geti beðið ofurlítið eftir því, ef allshn. fengist til að athuga þetta atriði og gera um það till. Við eigum það ekkert víst, að þeir menn, sem sitja á Alþ. næstu 4 ár, breyti þessu ákvæði. Mér finnst hér sannast hinn gamalkunni málsháttur, að það eigi ekki að draga til morguns, sem maður getur gert í dag. Málinu liggur ekki svo mikið á, að ekki megi fresta afgreiðslu þess í 2 til 3 daga, svo að hægt væri að koma brtt. í kring.