12.03.1942
Efri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta mál, því að frv. mjög svipað þessu, sem hér er til umr., var flutt í þessari hv. deild á síðasta aðalþingi. Þá var gerð grein fyrir því, bæði í grg. og framsögu, og get ég að mestu leyti vísað til þess.

Þessi hv. deild tók málinu vel, samþ. það og sendi það til Nd., að vísu með smávægilegum breyt., og er það nú flutt í þeirri mynd, sem það þá fékk. Í Nd. dagaði frv. uppi, bæði vegna þess, að mjög var liðið á þing, og sumpart vegna þess, að reynt var að fleyga þetta mál með öðru máli, því óskyldu. Eins og ég sagði áður, var gerð grein fyrir þessu frv. í fyrra, og fer ég ekki að rifja það upp. Aðeins skal hér á það bent, að frv. var í fyrra flutt að beiðni bæjarstj. á Siglufirði, og svo er enn. Enn fremur það, að eins og hv. deild er kunnugt, stendur mestur hluti Siglufjarðarbæjar á lendum þeirrar jarðar, er hér um ræðir og farið er fram á, að bærinn fái að kaupa. Hygg ég, að allir skilji nauðsyn þess. Nú er því t.d. þannig háttað, að ef bærinn þarf að leggja götu, verður hann fyrst að kaupa landið, þar sem gatan á að liggja, o.s.frv. Að vísu er þetta land nú mikið byggt og búið þegar að leigja, en talsvert mun þó vera eftir af óbyggðu landi, og er það í alla staði rétt og eðlilegt, að bærinn fái ráðstöfunarrétt á því. Í frv. er ekki kveðið neitt á um kaupupphæðina né greiðsluskilmála, má enda fullkomlega treysta ríkisstj. til þess að ganga frá þeim samningum, þó að ekkert sé ákveðið um einstök atriði í frv.

Það er aðeins ein mótbára, sem mér finnst geta komið til greina gegn frv., en það er viðvíkjandi lóðum síldarverksmiðja ríkisins. Í Nd. kom fram brtt. um að undanskilja þær lóðir og lönd, er síldarverksmiðjurnar þurfa að nota. Ég sé að vísu ekkert við það að athuga, þó að slík ákvæði væru sett inn í frv., en ég sé þó enga sérstaka ástæðu til þess og tel þess ekki brýna þörf, vegna þess að ríkisstj. mun að sjálfsögðu gæta hagsmuna síldarverksmiðjanna.

Legg ég svo til, að frv. verði vísað til allshn. að þessari umr. lokinni.