12.03.1942
Efri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ríkið hefur enga sérstaka ástæðu til þess að eiga lönd, nema í þeim tilgangi, að þeirra verði sem bezt not. Þegar athugað er mál eins og þetta, sem hér liggur fyrir, sala kirkjujarðarinnar Hvanneyrar, álít ég, að n. beri að athuga, hvort ekki sé rétt, þegar svona lönd eru seld, að ríkið setji bæjunum ákveðin skilyrði um leigumála á löndunum. Ég segi þetta af því, að það hefur brunnið við, að bæirnir hafa leigt löndin við miklu meira verði en, svarar til þeirra nytja, er menn hafa af þeim. Það hefur ekkí verið hægt að hafa á þeim neina ræktun, svo að ríkir menn hafa löngum leigt þau sér til gamans.

Lóðir hafa hækkað í verði á Siglufirði þrátt fyrir það, að þær hafa verið leigðar, en aðaltilgangurinn með eignarhaldi ríkisins á lóðum og lendum er að koma í veg fyrir hækkanir á lóðaverði, ríkið þarf því að setja ákveðin skilyriði um það, hvernig leigumálar lóðanna skuli vera.

Til er heimild um að selja löndin umhverfis Skagaströnd. Þau eru nú margfalt meira virði en áður var, vegna þeirra umbóta, sem gerðar hafa verið í þorpinu, hafnargerðar og annarra mannvirkja, og stendur til að gera þar meira í náinni framtið. Þá getur það orðið, að svona stórkostleg landeign verði féþúfa viðkomandi bæjarfélags, ef engar reglur eru um það settar af ríkisvaldinu, hvernig leigja skuli út löndin, og er þá ekki rétt, að bæirnir eigi þessi lönd. Öðru máli gegnir, ef þessar reglur væru fundnar og settar.

Það er alltaf svo, að smærri félagasamtök eins og bæirnir hafa betra yfirlit yfir, hvernig eigi að nota landið, en um það verða að vera fastar reglur, sem ekki má brjóta. Eitt af því mesta tjóni, sem við höfum orðið fyrir hér á landi, er fyrir það, hve dýrar eru lóðir og lönd í kringum kaupstaðina. Það er ekki eingöngu á þeim stöðum, sem hér hefur verið minnzt á, heldur miklu víðar, að ríkið hefur látið gera mikil hafnarmannvirki, en landið í kring hefur verið einkaeign. Með þessum hætti hefur ríkið verið að verja stórfé til þess að hækka eignir einstakra manna, svo að millj. hefur skipt, og það svo aftur komið niður á atvinnulífinu á staðnum, og hefur þannig verið tekið aftur að nokkru leyti það, sem ríkið hefur gert til úrbóta á þessum stöðum. Þetta er því mikið vandamál.

Nú hafa Vestmannaeyjar líka komið inn í þetta mál. Það er um það rætt, hvort bærinn skuli ekki eiga þessar eignir þar. Ég er því ekki mótfallinn, ef tryggt verður með skilyrðum, sem þá yrðu sett af Alþ. um leið, að landið verði notað á réttan hátt, en ekki haft að féþúfu. Gagnvart notkun landsins í Vestmannaeyjum hef ég þá stefnu, að ég vildi helzt, að þar gætu orðið sjálfstæðir bændur. Leigan á landinu þar er mjög lág, svo að það samsvarar ekki á nokkurn hátt vöxtum af því verðmæti, sem nú liggur í jörðunum. Þeir hafa þar lífstíðarábúð, og það hefur komið til mála að láta þá fá erfðaábúð, en ég hygg, að gamli leigumálinn sé þeim enn þá hagkvæmari en þó að leigt væri með 3% af fasteignamati jarðanna. Það hagkvæmasta, sem á verður kosið, er, að þarna verði sjálfstæðir atvinnurekendur, sem nytji jarðirnar helzt til fulls, en ég viðurkenni, að á því hefur orðið meiri vöntun en ég gerði mér von um, að yrði, og a.m.k. sumar eru ekki mikið notaðar (PZ: Allar nema ein eru lítið notaðar), og það er ekki í samræmi við það, sem krefjast verður á stað, þar sem land er jafnlitið og þarna. Málið hefur því verið tekið upp á ný og menn sendir til Vestmannaeyja til þess að rannsaka það ýtarlega. En eins og ég tók fram, þá er það alveg óvíst, hvort ríkið á að selja Vestmannaeyjabæ þessi lönd, því að þau hlytu að verða metin það hátt, að sú leiga, sem nú er greidd fyrir þau, mundi varla nema 1% af því verði, sem mundi verða greitt fyrir það nú. Þess vegna vofir það yfir, að landið verði tekið með því verði, sem það yrði metið á nú, og bæjarfélagið kæmist ekki hjá að hækka alla leigu stórlega til þess að fá vexti af því fé, sem fyrir landið hefði verið greitt. Og þó að ýmsir lifi nú í þeim draumi, að núverandi verð muni haldast áfram, þá er það eins víst og tvisvar tveir eru fjórir, að það líður ekki á löngu, þangað til jarðir í Vestmannaeyjum verða komnar niður í það, sem þær voru fyrir fjórum árum siðan. En það er mikil nauðsyn að setja reglur um lönd þau, sem kaupstaðir hafa til umráða, því að eins og ég sagði áðan, hefur hlotizt af því stórtjón, hversu farið hefur með þau mál. Áþreifanlegt dæmi er þar Eyrarbakki og Stokkseyri, þar sem ríkið lagði mikið fé í að kaupa jarðeignir, og var reynt að leigja þær með tilliti til þess, að ekki fengjust háir vextir, en reynslan varð sú, að leigan varð mjög há, og varð að gera á því miklar breytingar. Það er því mikil nauðsyn, að þessi mál og önnur, sem eru á sama stigi, verði athuguð gaumgæfilega hér á Alþ.