12.03.1942
Efri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti Ég býst við, að þetta mál fari til allshn., en ég vil nú þegar segja um það nokkur orð.

Þetta lóðamál í bæjunum og landamál í kringum bæina er að mínum dómi í mesta ólestri, hvort sem ríkið á þessi lönd eða bæirnir. Mun enginn bær nema Akureyri hafa rekið þau mál á heilbrigðum grundvelli. Í Reykjavík eru lóðir og lendur, sem hafa ekki fengizt mældar út. Það er t.d. heil gata í bænum, þar sem eru milli 10 og 20 hús, og þar hefur engin lóð verið útmæld og ekkert gjald greitt eftir þær. Þetta er vestur í bæ. Annað hús er niðri við sjó, bærinn á það, ekkert borgað eftir lóðina, enda hún aldrei tilmæld. Við getum líka farið í hinn enda bæjarins og fundið sömu útkomu.

Það mun vera rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ríkið leigir löndin lágt í Vestmannaeyjum, en þeir, sem nota löndin raunverulega, borga ekki allir lágt verð fyrir þau. T.d. hefur einn maður nú í mörg ár leigt öðrum land fyrir hærra verð en hann borgar, og svo hefur hann aftur leigt óðrum fyrir enn þá hærra verð. Á Siglufirði hafa erfðafestulöndin verið látin til annarra, og svo hefur ríkið orðið að kaupa réttinn til að nota þau, þegar það sjálft hefur þurft á þeim að halda. Ég veit til, að ríkið hefur orðið að kaupa aftur tvær lóðir fyrir margfalt hærra verð en það hafði látið fyrir þær. Þetta er alls staðar mesta ólán nema á Akureyri, og þess vegna gladdi það mig að heyra hjá hv. þm. Vestm., í fyrsta skipti af vörum íhaldsþm., skilning á því, að verðhækkun fyrir aðgerðir þess opinbera eigi heildin að eiga. Þetta náði nú ekki lengra en til Vestmannaeyja hjá honum, að þegar Vestmannaeyjabær lætur gera endurbæturnar, þá ætti hann að eiga hækkunina. Þetta er spor í rétta átt, til þess að einstaklingar sölsi ekki undir sig svo og svo mikil verðmæti, sem það opinbera hefur skapað. Það hefur verið reynt að koma til móts við menn í Vestmannaeyjum með ræktunarlönd, en hver hefur raunin á orðið ? Einn helzti „matadorinn“ þar er búinn að ná undir sig fimm af þessum löndum. Hann nytjar þau ekki sjálfur, en selur þau bara öðrum á leigu nógu dýrt. Það er ekki nóg að sjá mannum fyrir ódýrum löndum í grennd við kaupstaðina, þegar einstakir menn geta leikið þann leik að leigja löndin aftur út margföldu verði, svo að þeir, sem nota þau, verða að borga stórfé til þessara millimanna, og svo lendir þessi kostnaður vitanlega á mjólkinni og öðrum þeim afurðum, sem þarna eru framleiddar. Það verður að banna mönnum að selja erfðafestulönd, en ef þeir vilja gera það, þá á ríki eða bær að eiga kost á að fá þau aftur. Það nær engri átt, að ég geti í dag fengið land á Siglufirði og selt það svo aftur á morgun, kannske fimm eða sexföldu verði, en þetta er það, sem er hægt nú. Í Reykjavík eru nú milli 10 og 20 taxtar, sem farið er eftir um árafjölda, afgjald og réttindi, en allir eru þeir þannig, nema þeir, sem eru til eins árs, að selja má öðrum landið fyrir hærra verð, og ef við færum að rannsaka, hvernig erfðafestulöndin í Reykjavík eru nú notuð, þá mundum við komast að raun um, að mjög óvíða gilda upphaflegu samningarnir, og sums staðar er verðið orðið margfalt hærra. Þetta þarf að fyrirbyggja, hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar á landinu. Mér er sama, hvort ríki eða bær á löndin, það verður að fyrirbyggja allt prang og verðhækkun, sem sífellt á sér stað við endurtekna sölu, en til þess er ekki önnur leið en að setja löggjöf um það, svo að Pétri og Páli haldist ekki lengur uppi að taka lönd á leigu og selja síðan aftur margföldu verði. Ég geri ráð fyrir, að t.d. bæjarstjórnarmaður Siglufjarðarbæjar, er sæti á hér í deildinni, þekki það frá Siglufirði, að ríkisverksmiðjurnar hafa orðið að kaupa lóðir aftur fyrir miklu hærra verð en ríkið hafði selt þær á. Slíkt má ekki koma fyrir, og verður að fyrirbyggja það.