12.03.1942
Efri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Erlendur Þorsteinson:

Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í málið á þessu stigi. En vegna ummæla hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. N.M. um, að reglur þurfi að setja bæjunum um meðferð slíkra landa, sem þeir eignist, til að hindra brask, vil ég taka fram, að langt er frá, að ég sé því mótfallinn. Ég harma, að slíkum reglum skuli ekki hafa verið fylgt um opinberar eignir, og væri ríkisstj. mjög þakklátur, ef hún fyndi viðhlítandi lausn á því vandamáli.

Siglufjörður er svo ungur bær, að þar er óvenjuauðvelt að rekja, hvernig lönd og lóðir hafa hækkað í verði vegna opinberra framkvæmda, og síðar gefið einstaklingum óverðskuldaðan gróða. Ég held, að ekki hafi verið byrjað að leigja út lóðir fyrr en 1915–16 og þó aðallega eftir að Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi 1918. Það mun sérstaklega hafa verið þáverandi sóknarprestur, sr. Bjarni Þorsteinsson, sem byrjaði á þessu. Hann sat prestssetrið, og lóðaleigan því aukatekjur hans. Hún var ekki há, ég held yfirleitt 15 kr. ársleiga af lóð. Þessir leigusamningar voru síðan staðfestir af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Ég held það hafi ekki verið fyrr en núverandi dómsmrh. var tekinn við, 1934, að farið var að setja þá viðbót í samningana, að leigan mætti ekki vera minni en 5% af fasteignamati lóðarinnar. Nú voru þeir menn til, sem sáu, að þarna væri leið til að ná sér í peninga, og kepptust um að -ná undir sig lóðum. Einn maður held ég hafi náð nærri 30 lóðum, sem allar stóðu ónotaðar nema sú ein, sem íbúðarhús hans stóð á. Þær lágu þarna eins og þær voru frá náttúrunnar hendi, og hinn svokallaði eigandi þeirra greiddi sínar 15 kr. á ári. Annað gerði hann ekki til þess að auka verðmæti þeirra. Síðan hafa nokkrar þessara lóða verið seldar fyrir 4–8 þús. krónur hver lóð. Flestar þessar lóðir eru um 900 ferálnir að stærð.

Mest verðhækkun hefur orðið á þeim lóðum, sem voru í nálægð síldarverksmiðja ríkisins og þær þurftu að eignast, svo og þeim lóðum, sem liggja næst öldubrjótnum, en það mannvirki hefur kostað Siglufjarðarbæ og ríkissjóð um 700 þús. kr. Þetta hefur því sérstaklega komið hart niður á þeim tveim aðilum, Siglufjarðarbæ og ríkissjóði, sem þurftu að kaupa það dýru verði að fá að gera þessi tvö mannvirki á lóðunum eða í nánd þeirra, — mannvirkin, sem verðmæti lóðanna byggist á. Ég býst við, að hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. N.- M. muni kannast mætavel við það, hverjir „áttu“ flestar þessar lóðir.

Það, sem vakir nú fyrst og fremst fyrir Siglufjarðarkaupstað, er að fá þessa jörð keypta til að nytja hana betur en er og hindra brask. Samningar um lóðaleigu eru einnig margir útrunnir, áður en langt líður, flestir gerðir til 50 ára, og þrátt fyrir ákvæði þeirra sumra um framlenging með leigubreyt. að þeim tíma liðnum mundi eignarhald veita bænum nauðsynlegan styrk til að koma fram þeim breyt., sem honum er nauðsyn á. Vegarstæði voru v iða engin eftir skilin milli lóðanna. Þegar bærinn hefur lagt vegi til nýrra húsa, hefur hann oft orðið að kaupa af eigendum þeirra vegarstæðið dýrum dómum. Við framleigu væri sjálfsagt að kippa því í lag og sjá við því og eins hinu, að lóðir liggi ekki ónotaðar til þess eins, að braskað sé með þær. Einn maður á Siglufirði hafði fengið allstórt svæði á leigu og notað eingöngu sem hestahaga. Bæjarbúar hafa á síðari árum viljað fá það til afnóta fyrir bithaga, eða til garðræktar, en leigjandi þess ekki viljað láta það af hendi, þó að æskilegt væri, að það yrði betur nýtt en nú er.

Siglufjarðarkaupstaður er byggður á 2 jörðum, Hvanneyri og Höfn, sem hann hefur viljað eignast, og á kaupstaðurinn nú þessar jarðir í Siglufirði: Staðarhól, Saurbæ, Hól, Leyning, Leyningskot og Skarðdal, og er þar allmikil mjólkurframleiðsla, þ.e. mjólkurbú bæjarins. En sjálfan kaupstaðinn skortir alveg land, sem menn gætu nytjað í hjáverkum.

Til viðbótar því, sem áður var sagt um lóðabrask í Siglufirði, skal ég að lokum nefna eitt dæmi. Nálægt miðjum bænum var áður fyrr stórt tún í Hafnarlandi, sem einstaklingur hafði á leigu og greiddi, að því er ég ætla, 40 kr. ársleigu til eigenda jarðarinnar. Þessi lóðarréttindi seldi hann svo þriðja manni fyrir 10 þús. kr., en jarðareigendur fengu ekkert nema áframhaldandi 40 kr. ársleigu. Þessi nýi eigandi lóðarréttindanna seldi svo ýmsum, sem fluttust til Siglufjarðar, byggingarlóðir fyrir 1–2 þús. kr., og að auki 15 kr. ársleigu til sin og erfingja sinna. Jarðareigendur fengu sem fyrr einungis 40 kr. ársleigu.

Nú vilja jarðeigendur fá úr því skorið fyrir dómstólunum, hvort leigutaki eigi rétt til að nota túnið þannig, til alls annars en í upphafi var ráð fyrir gert, og biða menn nú dómsúrslita.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta að sinni. Ég tók til máls einungis að gefnu tilefni í ræðu hæstv. ráðh. áðan.