16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

3. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Það er í raun og veru ekki þörf fyrir mig að taka til máls nú, af því að hæstv. fjmrh. hefur bent svo greinilega á, að með þessari till., sem hér liggur fyrir, er kippt grundvellinum undan útsvarslöggjöfinni, eins og hann var lagður í l. frá 1936. Þar er nefnilega svo ákveðið, að eingöngu megi í þeim tilfellum, sem tilfærð eru í 8. gr. l., leggja á menn útsvar á fleiri en einum stað. Þetta má gera í þessum tilfellum: ef maðurinn hefur heimilisfasta atvinnustofnun, ef hann hefur leiguafnot af landi, þótt ekki fylgi ábúð á jörð, ef hann er búsettur erlendis, ef maður hefur lögheimili á fleiri en einum stað, og á vátryggingarfélög þar, sem aðalumboðsmaður þeirra er heimilisfastur. Það er eingöngu í þessum tilfellum, sem samkvæmt útsvarslöggjöfinni nú er heimilað að leggja á menn á fleiri stöðum en einum. Aftur á móti geta menn orðið útsvarsskyldir á fleiri en einum stað. Það er samkv. ákvæðum 9. gr., ef rekin er verzlun, selveiði, hvalveiði, síldarkaup, síldarsala, síldarverkun eða síldarbræðsla, verksmiðjuiðnaður, hvers kyns sem hann er, enda þótt skemur sé rekið en 4 vikur. Auk þess tekur þetta til þess, ef einstakir menn reka atvinnu í fleiri en einni sveit, þó ekki skemur en 8 vikur, ef tekjur þeirra fara fram úr 3000 eða 5000 kr., eftir því, hvort atvinnan er rekin á sjó eða landi.

Í þessum tilfellum getur komið til mála að skipta útsvari, en undir þessum kringumstæðum á að leggja útsvar á í heimilissveit viðkomandi gjaldanda. Það er sá grundvöllur, sem útsvarslöggjöfin hvílir nú á. Og ástæðan til þess, að þessi grundvöllur var lagður, var sú, að það fyrirkomulag, að leggja á menn á mörgum stöðum, var orðið svo gersamlega óviðhlítandi, að ekki þótti tiltækilegt að byggja þessa löggjöf lengur á þeim grundvelli. Það er þess vegna augljóst, að ókostirnir á framkvæmd þessara mála, sem leiddu til þess að lögunum var breytt, mundu undir eins koma fram, þegar fara ætti að „praktísera“ löggjöfina á sama hátt og áður. Þeir yrðu jafnvel enn meiri en áður, af því að það er meira um það, að menn stundi atvinna á mörgum stöðum, heldur en þekkt var, þegar þessi breyt. var tekin upp. En með þessari brtt., sem hér liggur fyrir, á að kippa þessu algerlega í gamla horfið. Og við getum hugsað okkur, eins og atvinnulífi okkar er háttað nú, hvaða hringiða mundi myndast um útsvarsálagningu.

Þeir annmarkar sem m.a. eru á því, að menn séu útsvarsskyldir í atvinnusveit, eru, að sú sveit, sem lagt hefur á mann, sem unnið hefur í 8 vikur eða lengur, þekkir í mörgum tilfellum ekkert til raunverulegra ástæðna viðkomandi manns. En grundvallarreglan undir álagningu útsvars er sú að leggja á eftir efnum og ástæðum. Og það er yfirleitt ekki hægt að framkvæma útsvarsl. á þessum grundvelli á öðrum stað en heimilissveit, þar sem fullur kunnugleiki ríkir á hag og ástæðum gjaldenda. Það er af þessari ástæðu m.a., að Alþingi hefur horfið að þessu fyrirkomulagi.

Mér finnst svo ekki ástæða til að fara frekar út í þetta. En það kemur náttúrlega ekki til mála, með svona skyndilegum hætti, eins og hæstv. fjmrh. benti á, að ætla sér að fara að gerbreyta grundvellinum undir útsvarslöggjöfinni hér undir einni umr. og án þess að nokkur nánari athugun á því fari fram. Annars býst ég við, að menn hafi áttað sig á, hvað hér er á ferðinni, og að óhætt sé, að það komi undir atkv., en ef svo er ekki, þá er sjálfsagt, að sú n., sem hefur þetta mál til meðferðar, taki það til athugunar. En ég vil í þessu sambandi geta þess, að hv. Nd. hefur nokkra aðvörun í þessu máli, þar sem sams konar till., sem borin var upp í hv. Ed., var felld, af því að sá vilji var ekki til staðar að fara að gerbreyta útsvarslöggjöfinni. Hún var áður fyrr búin að reynast óframkvæmanleg og mundi, eins og ég sagði áðan, reynast sínu verr nú en í hið fyrra skiptið.