08.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Það er mjög ánægjulegt, að allir skuli vera sammála um að setja l., sem takmörkuðu þá óeðlilegu og heimskulegu verðhækkun, sem orðið hefur á lóðum við endurteknar sölur og brask. Ég get líka glaðzt yfir því, að n. telur sig nú vanbúna til að koma með svona frv., en lýsir því jafnframt yfir, að hún sé með þeim anda, sem í þessu felst, því að það er fyrsta skilyrðið til þess að menn læri, að menn viti sínar takmarkanir. Og fyrst hún hefur fundið sínar takmarkanir og fundið þörfina, þá er enginn svo gamall, að hann geti ekki lært.

Það er ekki mikið, sem mér ber á milli við einn hv. flm. þessa frv. Ég er honum sammála um, að eins og löggjöfin er nú, getur vel verið, að bæjarstj. geti eins vel verið á verði eins og ríkisstj. En svo skilur okkur á um það, að ég lít svo á, að meðan ríkisstj. á að bera ábyrgð á meðferð þessara lóða, verði henni enn ljósara, að hér þarf að ráða bætur á, heldur en ef bæjarstjórnirnar eru orðnar eigendur. Mér er t.d. ljóst, að núverandi stj. veit, að hér þarf lagfæringar við, og það mun vera fyrir tilhlutun hennar, að framfærslumálan. hefur tekið til athugunar, hvað gera mætti til bóta. Ef bæirnir hefðu átt löndin, efast ég um, að henni hefði verið það ljóst. Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir, sem ber hann, segir máltækið, og þegar ríkið á þetta land og stj. á að sjá um það, finnur hún bezt, hvar skórinn kreppir, en ef bæirnir eiga það, þarf hún ekki eins að hugsa um það. Ég álít því, að fyrst eigi að setja hér löggjöf, áður en bæirnir eiga að eignast þessi lönd.