14.04.1942
Neðri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti ! Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, finnst mér mjög litlar upplýsingar eða skýringar vera að finna í grg. þess. Og það á að leggja það hér fyrir hv. d. án þess að skýringar komi um það, hvorki frá hæstv. ríkisstj. né öðrum. Hér er þó um stórkostlegt fjárhagsmál að ræða, að selja svo að segja allar lóðir Siglufjarðarbæjar, þess bæjar, sem fer hvað mest hraðvaxandi af bæjum hér á landi nú sem stendur. Og það á að gerast, skilst mér, án þess að vísað sé um réttmæti þess til neins annars en grg., sem prentuð hefur verið áður með frv. hér á Alþ., en er ekki prentuð nú og fæstir hv. dm. munu hafa séð. Þessi grg. var örstutt og fylgdi í fyrra á þinginu sams konar frv. þessu, sem þá var borið fram, og var sú grg. frá þeim mönnum, sem sækja um að kaupa þessar lóðir fyrir hönd bæjarins, þ.e. bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar. Önnur skýring fylgir málinu ekki hér í þessari hv. d. en sú, sem er í skjalapartinum frá í fyrra.

Ég vildi þess vegna benda á það, áður en þetta mál fer lengra, að hér er vissulega um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð. Þarna er farið fram á, að hann selji allar þessar lóðir nú, sem búið er að byggja á. Þarna á þessum lóðum sumum á ríkið stórkostlegar byggingar, sem eru síldarverksmiðjurnar, og þar sem sjálfsagt verður byggt á meira í viðbót við þær byggingar: Er þá meiningin að selja allar lóðirnar, sem ríkið á þarna og hefur sjálft byggt á? Og sömuleiðis allar lóðirnar, sem ríkið á nú þarna og leigir út og bæjarstjórnin á Siglufirði hefur í þessu fylgiskjali, sem fylgdi frv. í fyrra, talið, að muni nema 10 þús. kr. tekjurnar af árlega fyrir ríkissjóð? Það er sagt þar, að þessi skaði, sem þarna mundi vera um að ræða fyrir ríkissjóð, geti ekki skipt neinu sérstöku máli. En vitanlega fara hraðvaxandi tekjurnar af þessari eign, sem ríkið á þarna.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ég tel mjög varhugavert, eins og maður hefur séð, hvernig þróunin hefur verið í lóðamálunum hér í bænum, — að umráðarétturinn yfir slíkum lóðum sé afhentur meiri hl. í bæjarstjórnum, sem þær svo selja eða láta á leigu til einstaklinga, sem svo aftur lána þær á ýmsa vegu og síhækka með því leiguna eftir þær. Hvernig hefur þetta farið hér í Reykjavík? Hér í bænum hefur þetta orðið til þess, að lóðirnar eru í uppsprengdu verði, sem hleypir fram byggingarkostnaðinum, sem svo aftur hefur ekki lítið að segja nú um hækkun húsaleigunnar, sem hefur valdið þeim erfiðleikum, sem kunnugt er og menn verða að glíma við hér í bænum. Siglufjarðarbær á eftir að vaxa, og má búast við, að hann eigi eftir að vaxa stórkostlega. Þar af leiðandi verður þrengra og þrengra um byggingarlóðirnar. Og ef þessum málum yrði stefnt inn á sömu leið þar eins og gert hefur verið hér í Reykjavík, til þess að gefa frjálsan tauminn um það, hvernig meiri hl. bæjarstj. á hverjum tíma þóknast að ráða þessum málum, þá mundu lóðirnar þarna á Siglufirði fara stöðugt hækkandi í verði, án. þess nokkur hefði gróða af, nema einstakir menn í svipinn. En ríkið getur hins vegar haldið leigunni eftir lóðirnar niðri, án þess að eiga neitt verulegt á hættu, það getur tryggt, að lóðirnar fari ekki hækkandi í verði, ef þeim er ekki afsalað í hendur einstaklinga og bæjarstjórna, eins og verið hefur.

Þá vil ég líka benda á það, að ef þetta næði fram að ganga, að þarna væru bæjarfélaginu afhentar fyrir svo að segja ekkert eða a.m.k. sáralítið verð allar lóðirnar, sem bærinn stendur á og framtíð bæjarins byggist á, þá verður alls ekki hægt að standa á móti því, að samþ. hið sama fyrir aðra staði, t.d. Vestmannaeyjar, þar sem nákvæmlega stendur eins á, en þingið hefur ekki viljað ganga inn á.

Ég sé ekki nokkur skynsamleg rök fyrir því að afhenda vissum kaupstöðum lóðir, sem ríkið á, en neita öðrum kaupstöðum um það sama, þar sem nákvæmlega eins stendur á um þessa hluti. Og ég veit ekki betur en að yfirleitt hafi verið horfið frá þeirri stefnu að selja jarðir, sem hafa verið í opinberri eign. Og það hefur verið álitið, að það væri ekki heppilegt fyrir þróunina í landinu, vegna þess, hvernig braskað hefur verið með jarðir, og við það hafa þær stórhækkað í verði.

Ég skal enn fremur geta þess í þessu sambandi, að hér v æri ríkið — ef það seldi þessar lóðir — að ráðstafa til annarra eign, sem það í raun og veru er ekki réttur eigandi að, heldur hefur tekið sér umráðarétt yfir, því að þessi jörð er kirkjueign. Það getur verið, að sumum finnist, að ríkið geti farið með kirkjueignir eins og það vill. En þegar um sams konar mál var að ræða í Noregi, þá var ríkið dæmt til að afhenda þessar eignir til þess aðila, sem hafði átt þær, kirkjunnar. Ég tel mjög óheppilegt að fara á þann hátt, sem hér er lagt til, með eign, sem ríkið kannske hefur ekki eignarrétt yfir, þó að það hafi tekið sér umráðaréttinn yfir henni, þ.e.a.s. valdið til að stjórna henni um tíma. Og ég tel það yfirleitt mjög vafasama leið, að ríkið taki að sér að selja kirkjueignir. Og þó að það kynni að álítast rétt, að ríkið hefði rétt til þess, sem ég tel mjög vafasamt að það hafi, þá er það mjög lítil fyrirhyggja fyrir framtíðinni að afhenda á þennan hátt, sem hér er gert ráð fyrir, land fyrir framtíðina fyrir svo að segja ekkert verð, og vita þó, að þær ráðstafanir muni hafa í för með sér, að fyrir almenning geti verið erfiðara að lifa þar eftirleiðis, ef ríkið sleppir eignarhaldi af þessu landi og lætur það fara í hendur braskara.