15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Finnur Jónsson:

Ég vil mæla með því, að þetta frv. verði samþ., vegna þess að ég tel, að það sé nauðsynlegt fyrir bæi og þorp að eiga sem allra mest af þeim lóðum og lendum, sem bæirnir standa á. Reynslan hefur líka sýnt, að þeir bæir, sem eiga mest af sínum lóðum og lendum, eru að ýmsu leyti betur stæðir heldur en þeir, sem eiga lítið eða ekkert af þeim. Alþ. hefur á marga vegu stutt að þessu, og mér er kunnugt um, að ríkissjóður hefur selt t.d. Akureyrarbæ þær jarðir, sem að Akureyrarbæ liggja, og það var svo, að bærinn varð að kaupa háu verði jarðarhluta einstakra manna, en fékk ríkisjarðirnar með sæmilegu verði. Hefur þar verið tekin upp sú regla að selja ekki neitt af þessum jörðum, heldur leigja þær út vægu verði til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa.

Í ræðu hv. 1, þm. Rang. í gær, þar sem hann mælti á móti frv., kom fram sá mikli misskilningur, að trygging væri fyrir því, að lóðir á Siglufirði lentu ekki í braski, og Hvanneyri væri kirkjujörð og þar með eign ríkisins. Nú hefur þetta því miður ekki verið svo á Siglufirði að undanförnu, því að allar byggingarlóðir á Siglufirði voru útmældar á sínum tíma og leigðar fyrir ákaflega lágt verð, ég held 10–15 kr. hver byggingarlóð. Þessir leigusamningar hafa gengið kaupum og sölum, þannig að lóðabrask hefur átt sér stað á Siglufirði, enda þótt Hvanneyri væri eign kirkjujarðasjóðs, alveg eins og jarðir í eigu einstakra manna. Ég get t.d. upplýst, að þær lóðir, sem ríkisverksmiðjurnar hafa fengið sem leigulóðir, eru allar keyptar — eða leigusamningarnir — margföldu verði við það, sem kirkjan fékk í leigu af lóðunum. Leigan, sem kirkjan fær fyrir lóðirnar, er um 10 kr. á ári, en það hefur komizt svo langt, að þær hafa verið leigðar fyrir 10–12 þús. kr. Vænti ég, að hv. 1. þm. Rang. sannfærist af þessum upplýsingum um það, að það er engin trygging til að koma í veg fyrir lóðabrask, að jörð sé kirkjujörð. Sennilega er það almennt stefna bæjarstjórna í landinu að selja ekki þær lóðir, sem þær eignast í bæjunum, og mun óhætt að ganga út frá því, hvaða flokki, sem bæjarstj. fylgja, að þar séu engir menn, sem óska eftir að gera bæjarlöndin að einstakra manna eign, heldur sé það viðurkennd regla, þó að það sé ekki enn í löggjöf, að bæirnir eigi að eiga þau lönd, sem þeir þurfa á að halda. Eigi að síður vil ég ekki þar með segja, að ekki væri rétt að slá varnagla í þessu frv. um, að bærinn megi alls ekki selja lóðirnar, heldur aðeins leigja þær, og mundi það alls ekki fæla bæjarstj. Siglufjarðar frá þessum kaupum. Enn fremur mætti setja varnagla í frv. gagnvart þeim lóðum, sem síldarverksmiðjur ríkisins standa á, á þann hátt, að þær skuli halda áfram að vera ríkiseign, ef óttazt væri, að Siglufjarðarbær vildi að einhverju leyti þrengja að kosti verksmiðjanna. Það er að vísu svo, að lóðaleigusamningarnir, sem ríkisverksmiðjurnar hafa keypt, gilda flestir í 40–50 ár, svo að enn er ekki að því komið, að þar sé hægt að gera meina breyt., en eðlilegast væri, að Siglufjarðarbær eignaðist þau lönd, sem bærinn stendur á, en lóðaleigusamningarnir féllu niður, jafnskjótt og þeir gengju úr gildi. Ég tel, að eins og frá þessu hefur verið gengið af núverandi eiganda, ríkissjóði eða kirkjujarðasjóði, þá hafi reynslan orðið sú, að lóðir hafi lent í braski, sem er bæjarbúum Siglufjarðar til mikils tjóns, án þess að það hafi gefið ríkissjóði nokkrar tekjur í aðra hönd. Þess vegna mun bezt verða séð fyrir hagsmunum þeirra, sem búa á Siglufirði, án þess að hagsmunir ríkissjóðs séu skertir á einn eða annan hátt, með því, að Siglufjarðarbær eignist Hvanneyri.