15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Finnur Jónsson:

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Borgf., að fylgi mitt við frv. sýni stefnubreyt. hjá mér eða yfirleitt í Alþfl. Flokkurinn hefur aldrei beitt sér fyrir því, að ríkið eignaðist lóðir, sem kaupstaðir og sveitarfélög ættu, heldur miklu fremur hið gagnstæða. Hann hefur einmitt stutt að því eftir mætti, að kaupstaðirnir eignuðust landið, sem þeir standa á, og lendur, sem þeir þurfa að nytja. Frv. þetta er í fullu samræmi við þá góðu og gömlu stefnu Alþfl.

En ríkiseign, sem farið er með á sama hátt og lóðirnar úr landi Hvanneyrar, elur á sér lóðabraskið eins og hver önnur óþrif og á ekki rétt á sér. Það er auðvitað misskilningur hjá hv. 1. þm. Rang., að tilgangur frv. sé aukið lóðabrask, það á að afnema tækifærin til brasksins. Ég var engan veginn að skjóta mér bak við hæstv. dómsmrh. eða hans álit, þótt ég benti þm. þar á ummæli manns, er stendur nær honum en mér.