16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

3. mál, útsvör

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Það væri sjálfsagt að taka þessi tilmæli hv. þm. til greina um það að athuga til hlítar, hvaða tekjuöflunarleiðir ætti að finna fyrir þetta sveitarfélag, ef það væri staðreynd, að það gæti ekki fengið nægar tekjur með því að hagnýta sér þær leiðir, sem því eru til þess leyfðar. En nú vill svo til, að það er meira og minna upplýst af málflytjendum þessa sveitarfélags hér í þinginu, að Siglufjarðarkaupstaður hefur ekki notað þær leiðir, sem útsvarsl. heimila honum til að afla sér tekna. Og ef málið liggur þannig fyrir, að þetta sveitarfélag þverskallast við að framfylgja þeim l., sem sett hafa verið um þetta, af því að það hyggi, að það geti haft meira upp með því að fá aðra lagasetningu, sé ég ekki, að hæstv. Alþ. geti sætt sig við það. Og ég sé því ekki ástæðu til að breyta gildandi l. hvað þetta snertir. Það er opin leið fyrir Siglufjarðarkaupstað til þess að fá tekjur af öllum þeim atvinnurekstri, sem hér er um að ræða, jafnvel þótt hann sé ekki rekinn nema einn einasta dag, „enda þótt hann sé skemmri tíma en 4 vikur“ stendur í l. Svo á bærinn að eiga undir högg að sækja um það, hvaða tekjur hann fær af því. Hver á að skapa honum kjör í þessu efni? Það er ríkisskattanefnd, og sú n. hefur vald til þess að hækka útsvör gjaldandans í hans heimilissveit til þess að fullnægja réttmætum kröfum Siglufjarðarkaupstaðar. Þetta vill Siglufjarðarkaupstaður ekki sætta sig við; honum þykir öryggi sitt ekki nægilega tryggt með því, að ríkisskattan. skeri úr um þetta, heldur vill hann hafa betra tangarhald á því. Þetta öryggi hefur hv. þm. ekki þótt nægilegt fyrir Siglufjarðarkaupstað, og ef svo væri, þá væri það heldur ekki nægilegt öryggi fyrir það sveitarfélagið, þar sem gjaldandinn á heimilissveit, að breyta til eftir till. hv. þm. nú. Og ef það væri ekki, þá liggur í augum uppi, að hagur annars hvors væri fyrir borð borinn.