20.04.1942
Efri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (983)

94. mál, skógræktardagur

Flm. (Jónas Jónsson):

Þessi till. er ekki neitt nýmæli. Oft hefur verið talað um það á undanförnum árum, að ástæða væri til að fórna einum degi til þess að reyna að hjálpa skógræktinni. En það hefur ekki orðið úr framkvæmdum, sem meðfram kemur af því ,að skógrækt ríkisins hefur ekki enn fengið þann stuðning, að hún hafi nægilega mikið af plöntum til þess að fullnægja þessari nýjung. Nú er að verða á þessu stór breyting. Skógrækt ríkisins er að magnast og færa út kvíarnar, og allar líkur eru til, að innan fárra ára verði hægt að láta af hendi margfalt fleiri plöntur en verið hefur. Þess vegna er það, að þegar þessar raddir komu frá kvenþjóðinni, sem um getur í grg. till., þá fannst mér rétt að leggja fram málið í þessu formi og fá þannig fram álit d. á því, og ef samþ. yrði till., að fela ríkisstj. að athuga, hvort ekki væri hægt í samvinnu við skógræktarstjóra að leggja fram frv. um málið innan skamms. Það er ekki aðalatriði að gera þetta tafarlaust. Það er ekki til neins að lögbjóða skógræktardag fyrr en þjóðin í heild hefur áhuga á að nota hann. En ég geri ráð fyrir, að ekki þurfi lengi að bíða. Og skógræktarstjóri er mjög hrifinn af þessari hugmynd og telur sjálfsagt að stefna að þessu marki.

Ég hygg, að ekki sé ástæða til að vísa þessu máli til n., enda ekki farið fram á neinn kostnað, en ekki sakar að gera það, ef hv. d. þykir betur við eiga.