20.04.1942
Efri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (986)

94. mál, skógræktardagur

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég heyrði ekki allar umr. um þessa þáltill., og getur verið, að ég taki upp eitthvað af því, sem áður er sagt.

Úr því að farið er að minnast á skógrækt og hæstv. landbrh. er viðstaddur, þá vil ég leggja fyrst áherzlu á það, að þar sem eru nú þegar einhverjir skógar til staðar, þá sé fyrst og fremst hugsað um að girða þá og vernda þá frá eyðingu. Það er því sýnt, að hér verður um tvenns konar mál að r æða, bæði vinnuskyldu og peningaframlag. En mál þetta stefnir, þó að það sé ekki stórt, í þegnskylduátt. Og þó að hún sé prýðileg, verður að fara varlega í að framkvæma þá hugmynd. Vil ég skjóta því til stj., að réttara sé, áður en hafizt er handa um þetta mál, að leita fyrir sér hjá ungmennafélögunum úti um landið, sem hafa sett á stefnuskrá sína að klæða landið, um það, hvernig þau teldu rétt að haga þessu starfi. Ég held það væri einmitt heppilegt, að valdboð kæmi ekki svo mjög að ofan, heldur kæmi hvatningin að mestu frá þeim, sem ættu að vinna verkið, unga fólkinu. Náttúrlega nær ekki nokkurri átt, að hér sé hugsað að binda ómálga börn og affara menn neinni skyldu um skógrækt. Ég hef hugsað mér menn á verkfærum aldri, 16–65 ára. En þar sem hv. 2. landsk. minntist á starfsstéttir, sem gætu ekki atvinnu sinnar vegna lagt hönd að þessu, þá er ég viss um, að félög slíkra stétta mundu ekki telja eftir sér að láta sem svaraði einu dagsverki á mann.

En það þýðir ekki að rækta skóga, sem skepnur ganga stöðugt á og rífa upp allan gróður. Ég held, satt að segja, að till. þessi, ef hún yrði rétt framkvæmd, geti orðið til gagns. Ég er því ákveðinn í að greiða þessari till. atkv. og vænti þess, að hún verði til gagns í framtíðinni.