30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (998)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

*Héðinn Valdimarsson:

Ég get fyrir mitt leyti tekið undir þessa þáltill., það sem hún nær. En ég hef flutt hér brtt. við hana í þá átt, að ákvæði hennar verði víðtækari heldur en hv. flm. fara fram á, þannig að þau nái líka til námsmanna annars staðar en í löndum þeim, sem samgöngur eru alveg tepptar við, þ.e.a.s. nái einnig til þeirra námsmanna, sem dveljast í Bandaríkjunum, Kanada og Englandi. Það er að þannig, að þó að hægt sé að ferðast milli landanna, þá er námskostnaður þar sennilega öllu meiri en í hinum löndunum, sem samgöngur eru tepptar við, og er það í hendi ríkisstj. í raun og veru, hvort menn fara utan eða ekki. 37 Íslendingar eru nú við nám í Bandaríkjunum, í Kanada 9 og í Englandi 2. Auk þess eru ýmsir landar við nám í þessum löndum, sem ekki eru stúdentar, og gætu þeir eftir orðalagi þáltill. komið undir þetta.

Brtt. snertir síðari hluta þáltill. og er á þá leið, að ríkisstj. hafi heimild til að veita þessum mönnum allt að helmingi dvalarkostnaðar styrk, svo í þeim löndum, sem nú eru samgöngur við, eins og í þeim löndum, sem samgöngur eru tepptar við, en þetta yrði undir mati ríkisstj. Svo er og í brtt. till. um að heimila ríkisstj. að veita þessum námsmönnum auk þess styrk fyrir skólagjöldum. Skólagjöld eru í þessum löndum frá 100 dollurum og upp í 400 dollara. Að vísu er það svo í öllum þessum löndum, að námsfólk getur fengið styrki, þótt það sé ekki borgarar í þeim, og mætti taka tillit til þess, þegar námsstyrkur er veittur.

Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. samþ. þessa brtt., því að öll sanngirni mælir með því.