02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (1007)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Það mun hafa komið hér fram í þessu máli eitthvað, sem mér var ekki kunnugt um, af því að ég var frá tafinn. En út af því, sem hv. 1. þm. S.-M. (EystJ) sagði, vil ég segja það, að ég held, að það sé misskilningur hjá honum, að það sé nokkuð úr dregið um það, að ríkisstj. leiti samþykkis Alþ. til þess að leysa þetta mál með því að fá sérstaka lagaheimild til þess, ef ekki er unnt að leysa það eins vel fullnægjandi með öðru móti. Því að það er ekki lagt til í brtt. n. að breytt verði öðru en 1. málsl. tillgr. (EystJ: Ég bið afsökunar, að ég hef ekki tekið eftir því.) Þessi breyt., sem var að nokkru leyti flutt eftir ósk frá mér, var gerð af því, að mér þótti nokkuð ríkt að orði kveðið að skora á ríkisstj. að „taka“ í þjónustu ríkisins fullnægjandi skipakost til þess að annast o. s. frv. Það mundi kannske reynast nokkuð erfitt að fullnægja öllum kröfum, hvaðan sem þær kæmu um þetta af landinu, og þess vegna kannske rétt, að sá mannlegi ófullkomleiki væri viðurkenndur í þál. býst ég við, að hv. þm. verði mér sammála um það, að að þessu máli verði að fara með skynsemd og reyna að bjarga þessu sem öðru á þessum erfiðu tímum.

Ég skal svo í sambandi við möguleikana á samningum við setuliðið um að takmarka þann bílakost, sem það fær í þjónustu sína, segja, að það er ekki nema sjálfsagt að taka það til athugunar. En ég geri ráð fyrir því, að það verði dálítið erfitt. Ég sá þessa auglýsingu, sem hv. 1. þm. S.-M. vitnaði í. Ég hef ekki kynnt mér það, en ég hef heyrt, að setuliðið hafi sagt upp ýmsum bílstjórum, sem það hafi haft í þjónustu sinni. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. En ég býst við, að það sé svipaður bílakostur hjá þeim nú eins og hefur verið.

Ég ætla ekki að svara fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. á fullnægjandi hátt. En taka vil ég það fram, sem kemur inn í þá fyrirspurn, að við megum gæta okkar, þar sem við höfum samið við Bandaríkin um vernd landsins og sett það upp, að sú vernd sé fullnægjandi, þannig að það sé gert, sem þarf til þess að vernda landið, — þá verðum við að gæta okkar, að við ekki með löggjöf okkar hindrum, að þeir geti fengið nægilegan vinnukraft eða tæki til þess að vinna það, sem setuliðið telur þörf á að vinna. Við megum gæta okkar, að við með löggjöf komum ekki í veg fyrir það, að þeir geti látið vinna það, sem við höfum samið við þá um að gera og skorað á þá að gera. Þessi vinna bifreiðanna heyrir þannig undir landvarnir. T. d. var samið við Bandaríkin um, að hér væru nægir flugvellir. Og verulegur hluti þessarar vinnu með bifreiðum hjá setuliðinu er til þess að gera flugvöll og annað, sem þarf fyrir flugliðið að gera, svo sem flutningurr á benzíni o. fl.

Nú dettur mér ekki í hug að segja, að þetta þurfi að koma í veg fyrir, að hefja mætti samninga við setuliðið um einhverjar takmarkanir á þeim bílakosti landsmanna, sem það notar.

Annars er það um flutningana á landi að segja, að bifreiðaerfiðleikarnir hafa komið víða við. Meira að segja hefur verið mjög erfitt að halda uppi ferðum á sérleyfisleiðunum, vegna þess að erfitt hefur verið að fá bifreiðar til þess.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta mál né heldur ræða þá skrifl. brtt., sem lýst hefur verið hér í umr., því að þetta mál er á sínu fyrra stigi, og má athuga brtt. við síðari umr.