03.09.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (1010)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vildi í sambandi við það, sem ég mælti með till. minni á þskj. 186 í gær því við, að mér finnst rétt, að það komi fram, að á flugmálin sé litið sem framtíðarmál í landinu. Það er vitað af öllum staðháttum hér á landi, að flugsamgöngur eiga mikla framtíð, og þess er brýn nauðsyn, að þeir verði rannsakaðir og möguleikarnir á því, sem hægt er að gera nú í þessum efnum. Mér finnst í sambandi við þá till., sem hér lá fyrir um vöru- og farþegaflutninga með ströndum fram, rétt að láta þetta mál verða samferða því og að ríkisstj. leitaði til Flugfélags Íslands, sem hefur á fjárl. yfirstandandi árs notið styrks um, að það rækti skyldur við þá staði, sem erfiðast eiga í þessum efnum. Ég benti á það, að sá staður, sem bezt liggur allra staða á Íslandi utan Rvíkur, nýtur einn og aleinn þeirrar einu farþegaflugvélar, en það er Akureyri.

Ég hygg þess vegna, að það væri mjög vel til fallið, að ríkisstj. athugi hið bráðasta, hvað hægt er að gera fyrir þá staði, sem við erfiðastan hlut búa í þessu efni. Jafnframt væri rétt, að þingið hefði frumkvæði um athugun á skilyrðum til flugvallagerðar á þeim stöðum, sem nauðsynlegast er að fá flugsamgöngur við. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta hér, en aðeins drepa á það, að það getur ekki liðið langur tími þangað til það verkefni krefst úrlausnar, að þeir staðir, sem svo illa eru settir um samgöngur á sjó og landi, koma með kröfur um, að sinnt verði flugvallagerð og öðrum þeim atriðum, sem verða mega til þess, að þessir staðir komist í flugsamband við landið umhverfis.

Ég þakka svo hv. frsm., 2. þm. N.-M., fyrir góðar undirtektir undir þessa till. og vænti, að alþm. sjái sér fært að greiða henni atkv. og hún komi þannig til viðbótar við þá till., sem hefur legið hér fyrir og ég hef lýst fylgi mínu við.