04.09.1942
Neðri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (1031)

76. mál, vegargerð milli Ólafsvíkur og Hellissands

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þessi þáltill. fer fram á að skora á ríkisstj. að láta fram fara á þessu sumri nákvæma rannsókn á vegarstæði milli kauptúnanna Ólafsvíkur og Hellissands í Snæfellsnessýslu og gera um það kostnaðaráætlun.

Það hefur oft verið bent á það á hæstv. Alþ., bæði á þessu þingi og áður, að þetta kauptún, Hellissandur, með á fimmta hundrað íbúa, hefur ekkert akfært vegasamband við nágrannasveitir og kauptún. Það eru að vísu til þess eðlilegar orsakir, að akfær vegur er ekki enn kominn milli Ólafsvíkur og Hellissands, vegna þess að á milli þessara staða er mjög slæm torfæra, sem er Ólafsvíkur-Enni. Og það er ljóst, að á þeim spotta er ekki unnt að gera veg færan bifreiðum með venjulegum hætti. Þess vegna þarf að finna einhverjar aðrar leiðir og kostnaðarsamari en venjulega vegagerð til þess að koma Hellissandi í akvegasamland við nágrennið.

Í þessu sambandi er minnzt á þrjár leiðir í þáltill., sem kunnugir menn álíta, að komi til greina. Í fyrsta lagi vegur um Ennisdal, í öðru lagi steyptur vegur undir Enni og í þriðja lagi vegur framan í Enninu. En á þessu eru örðugleikar vegna þess, að sjór fellur svo langt upp þar, þegar háflæður er. Aðrir möguleikar til þess að bæta úr þessu samgönguleysi eru aðallega tveir: Útnesvegur, sá vegur var tekinn í þjóðvegatölu 1936. En þetta verður langur vegur og kostnaðarsamur, og vafalaust verður þess langt að bíða, að hann verði fullgerður, og að því leyti bætir hann ekki úr þessum vandræðum, að hann lagar ekki samgöngur milli Ólafsvíkur og Hellissands. Önnur leið, sem minnzt hefur verið á líka, er að taka upp sérstaka gerð bifreiða, sem oftast hefur verið nefnd beltisbifreið, og láta ganga þarna á milli, sem gæti orðið nokkur hjálp, einkum að því er snertir fólksflutninga. Þessi leið hefur verið til athugunar hjá vegamálastjóra undanfarið, en er að vísu ekki komin í framkvæmd. En hv. þm. Snæf. (BjBj) hefur flutt þáltill. í Sþ. um kaup á slíkri bifreið. En því er ekki að leyna, að þessar tvær síðast töldu leiðir, beltisbifreið og Útnesvegur, bæta ekki að fullu úr þessu samgönguleysi. Þess vegna hef ég flutt þessa þáltill., til þess að rannsakaður yrði kostnaður við þessar leiðir til að bæta úr samgönguleysinu þarna, sem í þáltill. getur. Vegur um Ennisleiðina, Ennisdalsvegur, var tckinn í þjóðvegatölu 1931. Þessi leið hefur verið nokkuð rannsökuð af vegamálastjóra, en ekki nægilega. Hann hefur einnig gert lauslega áætlun um steinsteyptan veg þarna á milli Ólafsvíkur og Hellissands, en nákvæm rannsókn hefur ekki verið gerð um vegarlagningu þar.

Ég vænti þess, að hv. þd. geti fallizt á að skora á ríkisstjórnina að láta þessa rannsókn fram fara nú í sumar.