02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (1054)

19. mál, raforkumál

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég ætla með örfáum orðum að víkja lítið eitt að hv. 5. þm. Reykv. (BBen) út af því, sem hann sagði í ræðu sinni. Þar sem hann eðlilega er ekki kunnugur þessu máli á þingi undanfarin ár, skal ég ekki áfellast hann, þó að sumt af því, er hann segir í máli þessu, sé nokkuð villukennt.

Út af ummælum hans um forsetann okkar (GSv) og þau hólsyrði, er hann hafði um hann út af áhuga hans á máli þessu, þá verð ég þó að segja það, þó að ég segi allt gott um hæstv. forseta, að við það hól hans blandast þó hófleg gagnrýni. Mér finnst það ekki lýsa brennandi áhuga á till., að hún skyldi vera á eftir mörgum öðrum till., sem aðeins eru til að sýnast og verða ekki afgr. á þessu þingi, þegar ég lét í ljós þá ósk, að málið yrði tekið fyrir. Ég hefði ekki farið að hreyfa þessu neitt, ef hv. 5. þm. Reykv. hefði ekki komið með taumlaust lof á þennan mæta sýslumann, þegar hann hafði ekki meiri áhuga á till. en svo, að ekki er hægt að ganga til atkv. á þessum fundi um efni þessa máls. Ég get ekki heldur sannfærzt um það af tali hv. 5. þm. Reykv., að flokksmenn hans hafi þann áhuga á máli þessu eins og hann vill láta í veðri vaka. Ef þessi áhugi væri til staðar, hefðu a. m. k. ungu mennirnir, sem hann líklega helzt á við, átt að vera hér einhvers staðar nálægir. En þeir munu kannske verða því sprettharðari á morgun, þegar þeir vakna og frétta, hvað gerzt hefur í máli þessu.

Ég verð að reikna það sem mælsku hjá hv. 5. þm. Reykv., er hann er að tala um, að ég sé hér með málþóf í þinginu. Ég hef 2 til 3 sinnum tekið til máls á þessu þingi. En þegar ég á annað borð er farinn að ræða þetta mál, gat ég það ekki án þess að gefa nokkrar upplýsingar varðandi það.

Þá taldi hv. þm. (BBen) það sérstaklega óheppilega hneigð, sem ég hefði, að vera með sjóðum, sem stofnaðir væru í sérstöku skyni. Ég vil bara minna hann á það, ef sjóðir eru hættulegir, að í gær var gengið hér frá ekki minna en 10 millj. kr. sjóði í sambandi við þetta málefni og að ég hygg með viljugu atkvæði þessa unga þm. E. t. v. mætti líka benda á, að í þeirri ágætu borg, þar sem hann er borgarstjóri, eru verkamannabústaðirnir einhverjar ánægjulegustu byggingarnar, bæði þeir í vesturbænum og Stefánsborg sunnan og vestan í Rauðarárholti, þar sem ég hafði þá ánægju að vinna að, að þeir fengju lóð, þar sem aðrir þröngsýnni menn vildu láta þá liggja móti norðri og reyk úr gasstöðinni. Þessir verkamannabústaðir, sem raunar eru beinlínis afkvæmi hugmyndarinnar um byggingar- og landnámssjóð, eru alveg bornir uppi af sjóðum. Allur þorri nýbygginga í sveitum er reistur fyrir tilstyrk byggingar- og landnámssjóðs. Sá ágæti flokkur, sem hv. þm. Reykv. telst til, missti af sínum strætisvagni 1925, þegar ég bar fyrst fram tillöguna um þann sjóð. Jón Þorláksson hafði mikla andúð á þessu frv. og vildi fella það frá nefnd. Ég man ekki, hvort honum tókst það í það skiptið. Nú er það engin bein sönnun þess, að ég hafi haft rétt fyrir mér 1925, þótt þessi sjóður hafi síðar borið mikla og góða ávexti, en það sýnist a. m. k. hafa skort eitthvað á framsýni íhaldsflokksins þá, að hann skyldi með leiðtoga sinn fremstan í flokki snúast svona við þessu framtíðarmáli. Einn af þessum ágætu sjóðum er menningarsjóður, sem af ávöxtum ofdrykkjunnar skyldi styðja lífvænlega sköpun á andlegum sviðum, og þannig mætti fleiri sjóði telja, sem hv. þm. verður að viðurkenna, að eru næsta þarflegir.

Þá eyddi hv. þm. nokkrum tíma til að minnast á rafveitumálið 1929. Ég hafði rakið öll aðalatriði málsins og bent á, að hverju leyti skilningurinn á málinu var betri hjá Jóni Þorlákssyni en nú kemur fram í till. Sjálfstfl., sem nýbúið er að gera að l. og ég kalla part úr l. En frv. 1929 fylgdi ekki sama gæfa og frv. mínu um byggingar- og landnámssjóð 1925. Ég veit ekki til, að nokkur einasti bær hafi verið raflýstur fyrir tilstuðlan þess frv. Það reyndist eldspýta, sem slokknaðí án þess að kveikja á svo miklu sem kertisskari, þó að forkólfur þess væri leiðtogi mikils stjórnmálaflokks með öflugan blaðakost. Ég veit, að hv. þm. skilur, hvað þessar staðreyndir þýða. Og í hvert skipti, sem hann getur sagt fyrir munn flokks síns: Við höfum byrjað á þessu máli, þá verður hann að muna, að allir hljóta að spyrja : Hvers vegna varð ekkert úr þessu ágæta máli hjá Sjálfstfl.? Hví gat átt sér stað, að það væri aðeins loddaraleikur?

Jón Þorláksson hafði alveg sérstakt tækifæri til þess að vinna raforkumálum byggðanna varanlegt gagn í sambandi við virkjun Sogsins. En hvað varð úr framkvæmdunum, efndum fögru orðanna? Ekki er enn kominn lína til Eyrarbakka eða Stokkseyrar, — ekki einu sinni til Stokkseyrar, sem er þó hið sterka virki Sjálfstfl. í Árnessýslu. Því var ekki svarað 1929, hvaða fjáröflunarleið væri hægt að fara til að tryggja framkvæmdir í rafveitumálinu. Það var að vísu till. Jóns Þorlákssonar þá, að ríkið styrkti leiðslurnar, en að öðru leyti var það leið samkeppninnar, sem hann hugsaði sér að fara. Slík leið var byggðunum ófær, jafnvel Rvík átti erfitt með að fá peninga í Sogið, nema landið greiddi fyrir því, m. a. með því að senda utan sérstakan fjárplanamann til útvegunar við lánsútvegunina. Jón Þorláksson talaði oftar en einu sinni um, að fleiri sveitir en ein gætu slegið sér saman um rafvirkjun til að verða nógu sterkar. Heldur nú borgarstjórinn í Rvík með reykvísku reynsluna að baki, að ekki þyrfti annað en einhver sveit sendi oddvita sinn með dyggri fylgd Sigurðar Jónassonar til að afla fjár í rafveitu og þar með væri þeirri rafveitu nægilega borgið án fullkomnari löggjafar en fólst í frv. Jóns Þorlákssonar? 1929 — Nei, sú hugmynd Jóns Þorlákssonar vat óframkvæmanleg, og það veit hver maður. Samkv. henni gátu að vísu allir komið og beðið um eða heimtað rafveitulán, allt af 6–8 millj. kr Tökum t. d. Siglufjörð, sem bíður nú um ábyrgð fyrir 6 milljónum til rafveitu. En hví getur Siglufjörður ekki fengið lánið án ábyrgðar, ef það skyldi vera svo auðvelt að virkja og láta það allt bera sig, að byggðum landsins sé yfirleitt ætlandi að geta það á eigin spýtur? Ég segi það enn hugmyndin var óframkvæmanleg, málið svo illrannsakað tekniskt og fjárhagslega, að verkfræðingarnir stóðu uppi varnarlausir, þegar það var gagnrýnt. Þetta mál var ekkert einsdæmi um vinnubrögð verkfræðinganna. Hv. þm. mun ekki kæra sig um að fara út í Flóaáveituna eða Skeiðaáveituna, sem fóru lengra fram úr áætlun verkfræðinganna en menn óraði fyrir, og hefði bændum á þeim svæðum ekki verið gefið mikið eftir, hefðu þeir yfirleitt orðið öreigar og flosnað upp. Reynslan af óbilgjörnu klöppinni og fleira í þeim málum sýnir, hve heppilegt er að hafa hjú, sem vinna verk sín eins og verkfræðingarnir þá, þó að þeir geti verið góðir að noti þá á sérstökum sviðum undir eftirliti manna, sem hafa yfirlit yfir málin. Samkv. þessu frv. gátu allir mögulegir aðilar heimtað rannsóknir, og þær rannsóknir gátu gefið rangar niðurstöður, eins og dæmin sýna, og stórhættulegar að byggja á.

Þetta var hin vanhugsaða framsókn íhaldsins 1929. En þegar ég fór fram á styrk til Bjarna á Hólmi í sambandi við afrek hans í rafvirkjunarmálum, þótti íhaldsmönnum það mál broslegt. Á sama tíma sem aðeins einn bær er lýstur út frá Sogsvirkjuninni og annar bær út frá Laxárvirkjuninni, hefur geysilegur fjöldi bæja verið raflýstur með aðferð Bjarna frá Hólmi. Einir tveir menn hafa þar með elju og dugnaði komið upp miklum hluta þessara stöðva og aðrir lært af þeim. En íhaldið fann engan tilgang í að styrkja þetta og brosti að. Þegar lifna fór yfir raforkumálinu eftir kreppuna, voru það allt aðrir, sem báru það fram, en að frv. stóðu 1929. Skúli Guðmundsson, hv. þm. V.-Húnv., tók það upp. En Sjálfstfl., að undanteknum hv. þm. Borgf., gerði allt til að stöðva till. Skúla og hafði nokkurn veginn þá afstöðu, sem nú hefur komið fram í Þjóðólfi, sem gefinn er út af tveimur heildsölum og ekki Jónasi Þorbergssyni. (BBen: Jónas Þorbergsson hefur sagt mér sjálfur, að hann gæfi út Þjóðólf.) Hann hefur þá kannske ekki séð ástæðu til að opna hjarta sitt fyrir borgarstjóranum.

Það var alveg nýlega talað um það í Mogganum sjálfum í sambandi við till. hv. þm. V.-Húnv., að það ætti að fara að skattleggja skuldirnar. Ég bið borgarstjórann að athuga, að ég talaði um sjóði. Það mundu hafa verið til sjóðir og það verulegir, ef okkar vitru forsjármenn hefðu viljað ganga inn á það, en það var af þeim barizt á móti þeim á þann sama hátt og nú er barizt gegn því eina, sem hefur verið gert á þessu ári til þess að raflýsa dreifbýlið,

Svo vil ég enn fremur benda á, að hin snöggu afskipti þessara mikið framsæknu ungu manna í Sjálfstfl., sem komu með till. um sjóði, sem væru mikið endurbættir og stækkaðir — það er kannske tilviljun, kannske lítur borgarstjórinn í Rvík á það sem merkilegheit af minni hálfu —, að þetta frv. kom ekki út og því var ekki hreyft fyrr en ég hafði skrifað um það í Tímann. Ég er ekki að sjá eftir þessu, en vil aðeins benda á það í þessu uppgjöri.

Ég legg fram sem gott vitni í málinu störf Bjarna á Hólmi og Helga á Fagurhólsmýri, og svo mitt sjónarmið frá því 1929, og svo legg ég fram sem fylgiskjal allan tómleikann þangað til Skúli Guðmundsson bar fram till. sína og mætti fullkomnum tómleika frá erfingjum Jóns Þorlákssonar og þar til nú, að þetta æskufjör kom. Ég vil segja, að það púður, sem flokkur borgarstjórans virðist reiðubúinn að leggja fram í málinu, hefur sprungið, og nú verðum við að fara að tína fram brotin til liðsinnis við þetta mikla og góða mál.

Það er annað hér, sem ég vildi minna borgarstjórann á. Það er einmitt sjálflýsandi hliðstæða við þessa byrjun í rafmagnsmálunum 1929, hvernig það hófst og hvernig eftirkomendur Jóns Þorlákssonar nú eru að vakna, eins og sést á aðgerðunum á þingi. Ég vil bera það saman við mál, sem ég þekkti áður en hv. 5. þm. Reykv. fór að hafa vit á málum. Það var einmitt, hvernig átti að leysa útvarpsmál Íslands. (FJ: Er það nú á dagskrá um þetta leyti nætur?) Já, þetta er sama málið, því að það „illuminerar“ það, sem verið er að tala um. Þessi sami flokkur hafði byrjað á að leysa málið á þann hátt að láta Lárus Jóhannesson og fleiri hér í Rvík fá einkarétt til þess að hafa útvarpsstöð, og það var tekið fram í skilmálunum, að það mætti ekki hafa orkuna yfir 1½ kw. Það er skemmst af að segja, að það varð ekkert úr þessu. Þetta var tóm vitleysa frá upphafi og endaði svoleiðis, að fyrirtækið gat ekki borgað húsnæði í Búnaðarfélaginu og hljóðfærisgarmur, sem það átti, var tekinn upp í skuldina. Ég vil skjóta þessu til borgarstjórans í Rvík sem hliðstæðu. Var þetta sterkt fyrirtæki? Þessir menn stóðu að því, að útvarpsstöðin mætti ekki vera yfir 1½ kw. Og hvað sem segja má um útvarpið síðan, sem var komið upp af Alþfl. og Framsfl., er ekki hægt að bera saman þann þroska, sem kom fram í þessu efni, við þann toppmælda ófullkomleika í framkvæmdum íhaldsins. Það var ekkert annað en það, að maður, sem biður um einkaleyfi, þarf ekki annað en fara til stjórnar sinnar, og hún veitir honum það. (BBen: Var það Jón Þorláksson?) Nei, það var Lárus Jóhannesson. Það, sem ég vildi segja, er það, að lausn rafmagnsmálsins 1929 var sambærileg við stöðina hans Lárusar Jóhannessonar. Við verðum að gera þetta upp, og borgarstjórinn í Reykjavík, sem er einn af forustumönnum flokks síns, þarf að vita þetta og vita, að það er ekki hægt fyrir hann að búast við neinum sigrum í sögunni. Ég hef gert þetta, úr því að hann sá ástæðu til að fara út í þetta, og ég geri það af því, að mér finnst það nauðsynlegt fyrir málið, að það sé tæmt, en þegar hann að síðustu segir, að ég hafi falsað sögu málsins, þætti mér vænt um, að hann vildi standa við það hér í kvöld eða í Morgunblaðinu, og ég heimta, að hann leggi gögnin fram, og spái, að hann ríði ekki feitum hesti, frá þeim umr.