02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (1057)

19. mál, raforkumál

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég ætla þá fyrst að leiðrétta þann misskilning hv. 5. þm. Reykv. (BBen), að ég hefði falsað sögu málsins. Hann fann nú á eftir, að hann hafði ofmælt sig, og get ég látið þar um úttalað.

Þá kem ég að þeim misskilningi hans um eðli frv. Jóns Þorlákssonar 1929, sem hann vill ekki enn hverfa frá. Hann gagnrýndi það, að ég hefði sagt, að till. Jóns Þorlákssonar 1929 hefðu verið sú mesta þjóðnýting, sem nokkurn tíma hefði verið lagt til að ráðast í á Íslandi. Þetta fyrirtæki, sem hefði kostað einar 15 milljónir, var ekki til neins að hefja á grundvelli þeirra tillagna nema leggja þjóðarauðinn í það. Fyrir utan ríkisstyrk, sem orðið hefði alls ónógur, benti Jón Þorláksson ekki á neina fjáröflunarleið til að mæta hinum gífurlegu kröfum og þörfum rafveitumálsins. Málið var þannig skakkt hugsað hjá honum, og því fór sem fór, að árangur þess frv. varð sorglega lítill. Ég áleit þá aftur á móti, að brýnasta þörfin væri að bæta húsakynni í sveitum. Nú er búið að byggja í sveitum hundruð af húsum og verður haldið áfram með stuðningi byggingar- og landnámssjóðs. Ég treysti mér ekki 1929 og árin þar á eftir að leggja út í tvöfalda baráttu fyrir opinberum stuðningi til húsabóta og rafvirkjunar samtímis, og eins og áraði, treysti ég ekki, að slík tvískipting bæri heillavænlegan árangur.

Þá minntist hv. þm. á verkamannabústaðina. Ef þeir hefðu átt að byggjast fyrir einstakar fjárveitingar, en ekki með hjálp sjóða, væru þair flestir óbyggðir enn. Lögin um verkamannabústaði gáfust svo vel, af því að þar var skapað kerfi, sem var lífvænlegt og bar árangur. Nú hefur hv. 5. þm. Reykv. játað, að sjóðstofnanir geti verið góðar, ekki sízt er hann gaf raforkusjóði atkv. sitt. En hann fór þá bara að tala um, að hann væri móti sjóðum, þegar þeir væru notaðir til annars en ákveðið hefur verið. En er það sök löggjafans, þó að stjórnir á borð við stjórn Ásgeirs Ásgeirssonar brjóti lög og ræni sjóðum til að hefnast á pólitískum andstæðingum? Það getur vel verið, að ég sé svo og svo vondur og hafi verið svo og svo vondur 1932 og ÁÁ hafi þurft að leggja svo og svo mikið í sölur til að koma fram hefnd á mér og mínum áhugamálum, en hin ómennilega aðferð hans við það getur ekki orðið borgarstjóra Rvíkur nein átylla til að vera á móti framsýnni löggjöf og sjóðum. Jón Þorláksson borgarstjóri var það mennilegri maður en Ásgeir, að hann sagði: „Við látum ljúka við að húða utan þjóðleikhúsið.“ Ásgeir hefði viljað láta það standa óhúðað í von um, að það yrði fyrir skemmdum og mér til skapraunar. (FJ: Ásgeir Ásgeirsson stendur jafnréttur, þrátt fyrir allar glefsur hv. þm. S.-Þ.) Ég skora á hv. þm. Ísaf. að taka upp vörnina fyrir þann flokksbróður sinn, hvort sem hann þorir nú í kvöld eða á prenti í Alþýðublaðinu næstu daga, — til þess að skömm Ásgeirs megi vera sem lengst uppi.

Það getur vel verið, að sjóðir dugi ekki, krónan falli líkt og finnska markið féll, ekki óhugsandi, að glánamenni í pólitísku lífi muni koma sjóðum okkar fyrir. En það er ekki neinn skaði fyrir hugmyndina.

Ég vildi minna hv. 5. þm. Reykv. á það, að Skagafjörður var mjög greinilegt Sjálfstæðisflokkskjördæmi, og annar þm. kjördæmisins, Jón á Reynistað, beitti sér alveg sérstaklega fyrir því að koma á raflýsingu Skagafjarðar. Það má kalla, að það hafi verið í sambandi við frv. Jóns Þorlákssonar 1929. En árangur náðist ekki, grundvöllur var ekki enn fyrir hendi, hvorki náttúruskilyrði í héraðinu fyrir svo stórfelldri virkjun á einum stað sem héraðið þurfti né fjármann til að reisa orkuverið, hvað þá meira. Og almenningur skildi, að þarna var ekki sú forusta, sem nægði, og hallaðist frá Sjálfstfl.

Hv. 5. þm. Reykv. kom að því, að Framsfl. hefði haft langan valdatíma og ekki komið á þeim virkjunarframkvæmdum, sem æskilegar hefðu verið. Ég hef þegar sagt mína afstöðu. Ég áleit byrjun Skaftfellinga góða og vildi styðja hana. Og þótt í litlu væri, hef ég stutt hv. þm. V.-Húnv. (SkG), eftir að hann tók upp raforkusjóðsmálið, gegn mótstöðu Sjálfstfl. —með Alþfl. auðvitað, hann hefur staðið þar dyggilega á verði —, og það er ekki til neins fyrir hv. 5. þm. Reykv. að ætla að snúa því við og segja, að Sjálfstfl. hafi barizt fyrir málinu. En nú vil ég spyrja hv. þm., hvernig ástandið var þann góða tíma, 1932–34, sem Sjálfstfl. var í stjórn landsins. Og hvers vegna var þá ekkert gert fyrir raforkumál byggðanna? Kreppan, segir hv. þm. náttúrlega, því að 15130 tapa stórútgerðarmenn hundruðum þúsunda og árin á eftir milljónum, og fjárhagnum var nærri siglt í strand. Ég veit, að hv. þm. dettur ekki í hug að halda fram, að það hafi verið Framsfl., sem stjórnaði t. d. Kveldúlfi og Alliance, og Framsfl. hafi siglt útgerðinni í strand, þó að hann langi til að kenna þeim um margt. Það voru sjálfstæðismenn, sem báru ábyrgðina, og í ríkisstj. styðja þeir Ásgeir Ásgeirsson. Þegar loks framsóknarmenn tóku við af honum 1934. var allt í óefni. Til athugunar hv. þm. Ísaf. má drepa á, að þá var Ásgeir búinn að gera Spánarsamninginn, — já, sá hv. þm. ókyrrist nú í sætinu, já, víst skulum við tala saman um Spánarmúturnar, ef hann vill. En þegar svona er ástatt, er framsóknarmenn tóku við ábyrgðinni, getur þá borgarstjóri Rvíkur búizt við, að ákaflega mikill gjaldeyrir hafi verið fyrir hendi til að rafvirkja fyrir?

Í dag var ég að tala við einn af fyrrv. þm. Rang. um afurðaverð á þeim árum. Í sumum rýrari sveitum sýslunnar varð þá dilksverðið einar 5 kr., — eitthvað vænni dilkar annars staðar, — en þarna má sjá getu bænda til stórræða á þessum árum. Og var þá hægt að taka 5 millj. kr. af tekjuafgangi ríkisins á ári og leggja af þess hálfu í rafvirkjun? Þegar Sjálfstfl. kom í stj. 1939, var leyst eitt stórmál, gengismálið, fyrst og fremst til að bjarga útgerðinni, en alls ekki af því að ríkið, sem hafði alltaf haldið hag sínum miklu betur í horfinu en hún, þyrfti að halda á fjármálaspeki sjálfstæðismanna, sem stýrt höfðu útgerðinni í öngþveitið.

Ég vil enn benda borgarstjóranum í Rvík á það, að málið stóð ekki betur í hans flokki en það, að 8 af 17 þm. flokksins gerðu allt til að hindra framgang þess. Það var Framsfl., sem kom því fram. Útvegurinn og sum fyrirtæki, sem stóðu undir vernd sjálfstæðismanna, voru svo illa komin, að Framsfl. varð að bjarga. Sjálfstfl. var ófær um að bjargast af eigin dáð og var kominn upp á hjálp Framsfl., sem gerði þetta af því, að meginatvinnuvegur landsmanna var í hættu. Það, sem Framsfl. gerði árið 1937 í Kveldúlfsmálinu, var hyggilegt. Hann kom því til leiðar, að Landsbankinn fékk sitt. Það, sem Framsfl. gerði árið 1939 til að bjarga útveginum, var framhald af því. Það hafa svo oft verið bornar fram fjarstæður um þetta í Mbl., að mér þykir vænt um að fá tækifæri til þess hér að gefa borgarstjóranum holla fræðslu um málið. Þó að þeir segist hafa bjargað útveginum, er það öllum vitanlegt, að útvegurinn var á niðurleið síðan 1930, þó að hægt væri að halda landskassanum fljótandi. Það má leggja fram ríkisreikningana og verzlunarjöfnuðinn frá þessum árum, og eins mætti leggja fram reikninga helztu fyrirtækja þessara manna og Reykjavíkurbæjar.