04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (1068)

19. mál, raforkumál

Gísli Jónsson:

Þetta mál er eitt af stærstu velferðarmálum þjóðarinnar. Ég hélt satt að segja, að það væri nægilega stórt til þess, að allir flokkar gætu orðið sammála um að vinna að framgangi þess af einlægni og án þess að blanda inn í það alóskyldum gömlum deilumálum. En nú sé ég af ræðu hv. 1. flm., að svo er ekki, því að hann reyndi að flækja þetta mál innan um öll önnur möguleg mál, svo sem Gismondisamninginn, heildsalana í Rvík, ævisögu Ásgeirs Ásgeirssonar, klofninginn í Framsfl., Svein í Völundi o. fl., sem allt varð að hrærigraut hjá honum, sem svo oft áður.

Hvað er það svo, sem leggja á mesta áherzlu á í fjáröflunarskyni máli þessu til framdráttar? Það fyrst og fremst að bæta við stríðsgróðaskattinn. Ég verð að segja, að mér finnst það vægast sagt vera lítið hugsað. Það verður þá að minnsta kosti í fyrsta lagi að gera ráð fyrir því, að stríðið haldi áfram nægilega lengi til þess að afla nauðsynlegra tekna, úr því að á því er byggt, að svo fjárfrekt verk verði framkvæmt. Í öðru lagi virðast flm. hafa lokuð augu fyrir því, að Alþ. hefur þegar tekið um 90% af öllum tekjum fyrir ofan ákveðið tekjumark, þ. e. 200 þús. kr. Það á þá líklega að taka af þessum 10%, sem eftir eru. Ef allt yrði tekið, þætti mér líklegt, að fáir mundu verða til þess að vinna fyrir tóman þegnskap. Auk þess yrði með þessu gengið á hluta bæjar- og sveitarfélaga um tekjuöflun enn meir en verið hefur, og þykir þó mörgum nóg að gert, hversu tekjustofnar þeirra hafa verið rýrðir með stríðsgróðaskattslöggjöfinni.

Þessi þáltill. er því að mínu viti frámunalega illa undirbúin, enda líkindi til, að hugur hafi ekki fylgt máli, því að svo miklu málþófi gat hv. 1. flm. (JJ) haldið uppi fram eftir nóttu í gærkvöld, að meðflm. hans að þáltill. þoldu ekki við og gengu út.

Um þann lið till., sem að rannsóknum lýtur, þá er það ekki rétt, hjá hv. þm. Snæf. (BjBj), að það sé einungis um smáupphæðir að ræða. Í sambandi við það skal ég upplýsa, að gert er ráð fyrir, að rannsókn á Dynjanda einum kosti 50 þús. kr. Hvað mundu þá allar aðrar rannsóknir kosta ?

Það getur verið, að atkvæðakapphlaupið sé orðið svo mikið, að alveg sama sé um afgreiðslu mála á þessu þingi, en sú stefna í fjármálum þjóðarinnar er of hættuleg til þess, að henni sé haldið áfram og hún lofuð og prísuð á alla lund.

Ég mun samt greiða atkv. mitt með þessari till. eigi að síður, þrátt fyrir ágalla, sem á henni eru. Hún er þó spor í áttina, sem stefnt er að í rafmagnsmálum okkar, að lýsa með því og verma hvern bæ í landinu. En ég vil vona, að þeir hv. þm., sem að loknum kosningum í haust koma til að eiga sæti hér á Alþ., beri gæfu til að sameinast betur um þetta velferðarmál þjóðarinnar heldur en raun ber vitni um, ef marka á nokkuð eininguna af umr. þeim, er nú hafa farið fram um þetta mál á Alþ.